Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:15:19 (6949)

2002-04-04 15:15:19# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á þann hátt að ég tel að ég hafi ekki gert neitt meira úr þeim þætti að hæstv. iðnrh. væri að leyna upplýsingum en efni stóðu til. Tillögurnar sem hér eru settar fram, eins og ég segi í niðurlagi mínu, eru til að forðast að í framtíðinni komi svona mál upp. Ég held að mönnum hafi förlast svolítið í dómgreind sinni á það hvernig þeim beri að vinna í þeim einkavæðingarfasa sem keyrður hefur verið hér síðustu tíu árin. Ég held að menn séu almennt blindaðir af því að þeir séu núna að vinna á nýtískulegan hátt að eigin mati eins og þeir væru með einkafyrirtæki í höndunum. Ég geri, eins og ég sagði í ræðu minni, mjög skýran mun á því hvort um einkafyrirtæki er að ræða og starfsaðferðir sem eru notaðar samkvæmt heiðursmannaframferði í þeim bransa eða hvort við erum að tala um upplýsingagjöf vegna ákvarðanatöku um fyrirtæki í almannaeign. Það er allt annar handleggur og það vildi ég draga fram. Ég held að þessi tillaga okkar sé þess eðlis að hún rúmi það. Hún gengur út á að skipuð verði sjö manna nefnd og ég geri ráð fyrir að hugmyndir sem Samfylkingin hefur sett fram um siðareglur þingmanna og annað í þeim dúr, líklega ein þrjú eða fjögur þingmál, geti rúmast í þeirri umræðu sem við erum að leggja upp með að hér verði viðhöfð hvað varðar þetta mál.