Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:19:08 (6951)

2002-04-04 15:19:08# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur lesið í þeim tillögum sem við höfum sett fram erum við að leggja til að skipuð verði nefnd sem fari í þessi mál, skoði þau og taki hliðsjón af því hvernig menn fara með slík mál í öðrum löndum. Nefndin mun eflaust líka hafa til hliðsjónar það sem samfylkingarmenn hafa sett fram í þingskjölum sínum varðandi þessi eða hliðstæð mál. Ég skal alveg ósagt láta um refsingar og því um líkt. En ég tel að af reynslunni af þessu máli hefði verið algjörlega eðlilegt að menn hefðu talað hreint út eins og á tveggja manna tali í iðnn. en jafnframt gert mönnum grein fyrir því á öllum stigum að þar væri um trúnaðarmál að ræða ef menn töldu það viðkvæmt gagnvart samstarfsaðilanum. (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í: Þið máttuð vita þetta í trúnaði.) Nú grípur hv. þm. Össur Skarphéðinsson fram í og segir að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi ekki viljað trúnað. Ég tók við trúnaði í iðnn. um t.d. orkuverð og ég hélt hann þannig að ég sem iðnaðarnefndarfulltrúi hef tekið við trúnaði. Ég hef tvisvar gert það. Hitt skiptið var í sjútvn. og varðaði mál sem var þar til umfjöllunar og talið viðkvæmt vegna stöðu landsins erlendis. Ég tel að á grunni þessarar tillögu þurfi að ræða þessi mál svo að öllum sé ljóst hvernig þingið vill að staðið sé að þessum samskiptum.