Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:25:34 (6954)

2002-04-04 15:25:34# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Eitt rekur sig orðið á annars horn í málflutningi vinstri grænna. Það liggur fyrir og má fletta því upp í þingtíðindum að hv. formaður þingflokks vinstri grænna lýsti því yfir úr þessum ræðustól að vinstri grænir neituðu að taka við trúnaðarupplýsingum. Því getur hv. þm. flett upp í þingtíðindum eða spurt sinn ágæta hv. þingflokksformann.

Það er líka alveg ljóst, og sést best á rauða þræðinum í þessu frhnál., hvert tilefni þess er. Þar er látið að því liggja og talað um að rangar upplýsingar og villandi hafi verið gefnar. Hér er talað um refsiákvæði og þar fram eftir götunum. Tilefnið er greinilega fundur iðnn. með þeim ágætu gestum sem þangað komu. Það er einfaldlega verið að væna þá um ósannindi eða lygi. Og það er mjög alvarlegt mál.

Ég spyr hv. þm. og bið hann að svara því afdráttarlaust: Vænir hann heiðursmennina sem komu í morgun og svöruðu mjög hreinskilnislega spurningum nefndarmanna um ósannindi eða lygar? Ég spyr enn fremur: Hvenær átti að greina frá þeim upplýsingum sem hafa verið hér til umræðu? Átti það að gerast um mánaðamótin febrúar/mars þegar einhver innan Norsk Hydro lýsti þeirri skoðun sinni að hugsanlega yrði að biðja um lengri frest? Átti að gera það 18. mars þegar birt var viðtal við tvo fulltrúa frá Norsk Hydro sem sögðu að enn væri unnið eftir upphaflegri tímaáætlun? Eða átti kannski ekki að gera það 19. mars þegar formleg ákvörðun lá fyrir og hv. Alþingi var tilkynnt það með yfirlýsingu hæstv. iðnrh.?

Herra forseti. Það er mjög alvarlegt þegar hv. þm. ber brigður á og vænir gesti nefnda um beinar lygar.

Eitt er að vera á móti máli, og þá eiga menn að segja það heiðarlega, annað að færa það í svo afkáralegan búning. Menn eiga einfaldlega að segjast vera á móti en hlífa öðrum við að fara niður á það plan sem hér er verið að gera.