Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 16:31:57 (6969)

2002-04-04 16:31:57# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Frv. um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar er nú komið til 3. umr. Umræðan er orðin nokkuð löng og ströng og margt hefur borið á góma. Satt að segja er það makalaust þegar maður lítur til baka yfir umræðuna að ekki skuli hafa verið meiri málefnaleg skoðanaskipti um þetta stóra mál hér í þessum sal en raun ber vitni. Sannleikurinn er sá, herra forseti, að þegar maður lítur til baka eru ótal spurningar í loftinu sem ekki hefur verið svarað, og fjöldi órökstuddra fullyrðinga frá hæstv. ráðherra og hv. formanni iðnn. sem ekki hefur verið boðið upp á að tekist verði á um á málefnalegan hátt. Það er synd til þess að vita þegar svo afdrifaríkt mál er til umfjöllunar að þá skuli ekki vera meiri vilji fyrir málefnaleg skoðanaskipti en raun ber vitni hjá þeim sem hér fara með völd. Þetta vil ég gagnrýna, herra forseti, og láta koma fram við upphaf máls míns.

Ég hef í löngu máli og ítarlegu rakið ástæður þess að ég telji mál það sem hér er um fjallað vera glapræði. Það einkennist af óðagoti, skammsýni og kannski, eins og hv. síðasti ræðumaður á undan mér orðaði það, bláberri heimsku og kjaftæði.

Fyrsta atriðið sem ég vil gera að umræðuefni hér er mál sem ég varpaði fram spurningum um og fékk ekki svör við í 2. umr. Það var nokkru fyrir páska en þá gerði ég að umtalsefni skýrslu nokkra sem legið hefur fyrir í iðnrn. frá 10. okt. 2001. Skýrsla sú hefur að geyma mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Hún er unnin af sérstakri umsjónarnefnd sem var á forræði verkefnisstjórnar rammaáætlunar, og skýrslu þessari fylgir álit eða greinargerð frá Þjóðhagsstofnun sem fjallar um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem ég orða þessa skýrslu í þessum stóli. Sannleikurinn er sá að hún er til komin fyrir þrábeiðni náttúruverndarsamtaka sem óskuðu eftir því að mat af þessu tagi færi fram áður en ákvörðun yrði tekin um Kárahnjúkavirkjun og sömuleiðis óskaði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð formlega eftir því við hæstv. umhvrh. að mat af þessu tagi færi fram.

Síðast þegar ég átti orðaskipti við hæstv. iðnrh., sem fékk málið á sína könnu úr höndum hæstv. umhvrh., var 10. okt. 2001. Þá lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. iðnrh. þar sem ég óskaði eftir því að fá að vita hvað liði vinnu við þetta mat. Og það vill svo til, herra forseti, og ég var einungis að koma auga á það núna rétt áðan, að þann sama dag, 10. okt. 2001, er stimplað í ráðuneyti iðnaðarmála bréf frá verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem hæstv. iðnrh. er afhent mat þetta um gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð, ásamt með álitsgerð Þjóðhagsstofnunar um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls.

Þann sama dag sagði hæstv. iðnrh. í ræðustól á Alþingi að það væru mjög fáir dagar þangað til hún teldi mat þetta líta dagsins ljós. Það urðu ekki fáir dagar, herra forseti, heldur gerðist það skömmu seinna sama dag.

Frá því að þessum 10. okt. lauk hefur hæstv. iðnrh., mér vitanlega, ekki andað því út úr sér, a.m.k. ekki í þingsölum, að mat þetta liggi fyrir. Ég þráspurði í ræðu minni við upphaf 2. umr. um þetta mál hverju sætti því að ég komst á snoðir um að þetta mat lægi fyrir. Ég óskaði eftir að fá afrit af skýrslunni, við því var orðið, ég kynnti mér hana, hef vitnað til hennar í ræðu minni, spurt hæstv. ráðherra hvers vegna viðkomandi mat hafi aldrei verið kynnt og hvort ekkert ætti að gera með það eða þá hvernig hæstv. ráðherra hygðist nýta sér þetta í ljósi þess sem hún áður hefur sagt um málið og fékk, herra forseti, engin svör.

Við stöndum ekki hér að gamni okkar, herra forseti, og reynum að fá svör við spurningum. Við teljum okkur eiga rétt á þeim. Og við teljum okkur vera sýnd óvirðing ef spurningar okkar eru ekki virtar svars, ekki virtar viðlits. Og nú er ástæða til að spyrja: Hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki séð sóma sinn í því að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana fyrir páska um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð og hvað hún hyggist gera við það mat í allri þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og allan þann tíma sem hún hefur staðið? Hvers vegna hefur hún ekki látið svo lítið að svara? Það er orðið meira en tímabært, herra forseti, að við fáum svörin við þeim spurningum. Og komi þau ekki fyrir lok þessar 3. umr. veit ég ekki alveg hvernig á að taka hér á málum því að ef við erum ekki hér til að takast á um hlutina á málefnalegan hátt veit ég ekki til hvers við erum kosin hingað sem fulltrúar þjóðarinnar.

Herra forseti. Með því að samþykkja frv. það sem hér liggur fyrir værum við að taka afskaplega afdrifaríkt skref. Skrefið væri m.a. fólgið í því að Kárahnjúkavirkjun, einni stærstu virkjun sem möguleg er á hálendi Íslands, yrði með samþykkt þessa frv. kippt undan vinnunni við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra, og ekki bara hæstv. iðnrh. heldur fleiri ráðherra í ríkisstjórninni, um að mat á gildi virkjanakosta sé í undirbúningi, verið sé að vinna að því --- hæstv. ríkisstjórn hefur gefið yfirlýsingar um að hún vilji að það verði gert og til þess vandað. Það er ekki verið að vinna það í neinum felum, fjöldinn allur af hæfu fólki leggur því verkefni lið og það hefur nú þegar kostað umtalsvert fjármagn. Í orði kveðnu virðist ríkisstjórnin trúa því að rammaáætlun geti haft eitthvað að segja um val á virkjanakostum og nýtingaráætlun varðandi nýtingu þeirrar orku sem við höfum aðgengilega á Íslandi. Í orði kveðnu lítur það þannig út en með því að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir, herra forseti, erum við að kippa stærstu virkjun hálendisins undan þeirri matsvinnu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur gagnrýnt það, og við höfum aldrei fengið frá hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. iðnrh. nokkur svör önnur en þau að álver á Reyðarfirði sé slík byggðaaðgerð og verkefnið sé svo arðbært að ekki sé annað hægt en að fara út í það. En ætlar hæstv. iðnrh. ekki að eyða á það einu einasta orði með hvaða rétti hún telji sig geta kippt þessari stóru framkvæmd undan rammáætluninni? Og nú hefur myndast svigrúm í ljósi atburða liðinna vikna, þ.e. Norsk Hydro gengið úr skaftinu og Finnur og Friðrik farnir út af örkinni til að finna risann. Því er lýst yfir að ekki verði nein ákvörðun fyrirliggjandi fyrr en kannski undir lok árs 2003. Af hverju beitir hæstv. ráðherra sér þá ekki fyrir því að þessi virkjun verði felld undir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Hvers vegna leyfir hæstv. ráðherra sér ekki þann munað?

Það væri sjálfsagt og eðlilegt að þetta verkefni öðrum fremur væri metið í heildarpakkanum um virkjunarkosti á Íslandi. Hæstv. ríkisstjórn hefur ótal tækifæri til þess að halda þannig á málum að sómi sé að. En hún ætlar að láta öll þau tækifæri renna sér úr greipum, og það tækifæri sem skapast hefur núna við svigrúmið sem myndast þegar Norsk Hydro gengur úr skaftinu ætlar hæstv. ríkisstjórn líka að láta sér úr greipum renna. Það er gagnrýnivert.

Herra forseti. Ég sagði áðan að Finnur og Friðrik hefðu verið sendir út af örkinni til að finna risann, álrisann úti í heimi. Og ég segi bara, herra forseti, verði þeim að góðu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað var það sem klikkaði við markaðssetninguna á landinu? Nægja ekki bækurnar góðu sem markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar gaf út og urðu frægar að endemum? Eða nýi fíni bæklingurinn, ,,Locate in Iceland, Resources for Growth``, sem gefinn hefur verið út af fjárfestingarstofu orkusviðs og mun hafa komið hér út árið 2000? Þessir bæklingar hafa verið gefnir út til að markaðssetja Ísland fyrir stóra álframleiðendur. Virkar þetta ekki?

Hvað segir hæstv. ráðherra að Friðrik og Finnur geti bjargað því sem bæklingarnir geta ekki bjargað og öflugu starfi fjárfestingarstofu orkusviðs og markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar hefur ekki lukkast? Hvað er það í aðferðum Friðriks og Finns sem gæti gert það að verkum að risinn láti nú lokkast með feitu gulrótina á endanum á prikinu, feitu gulrótina þar sem veifað verður virkjunarleyfi, pólitískt fengnu umhverfismati og öðrum feitum kostum eins og ókeypis mengunarkvótum? Öllu þessu hafa stjórnvöld flaggað framan í risana hingað til og það hefur ekki dugað. Hvaða galdraformúlu fer Finnur með á fund risans?

Auðvitað er það óviðurkvæmilegt, herra forseti, að seðlabankastjóri skuli dubbaður upp í þennan búning með slöngvuna og fimm steina í vasanum því að Seðlabankinn hefur allt aðra stöðu í dag en hann hafði til skamms tíma. Með nýrri löggöf um Seðlabankann hefur verið reynt að gera hann sjálfstæðari en ekki að einhverjum þjóni stjórnvalda, hvorki hvað varðar ákvarðanir um vaxtahækkanir eða vaxtalækkanir, gengi né um það að lokka álversrisa til Íslands. Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að dubba seðlabankastjóra upp í þetta hlutverk núna. Og þegar hæstv. iðnrh. lætur að því liggja að þetta sé eitthvað sambærilegt við það þegar Jóhannes Nordal var á sínum tíma formaður stóriðjunefndar eða fór fyrir viðræðuhópum varðandi álver á árum áður er það bara rangt. Í fyrsta lagi vegna þess að Jóhannes Nordal var í þeirri viðræðunefnd sem stjórnarmaður í Landsvirkjun fyrst og fremst, en ekki fyrst og fremst sem seðlabankastjóri, og í öðru lagi vegna þess að um Seðlabankann giltu önnur lög þá en gilda nú. Ég gagnrýni því, herra forseti, þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða hæstv. iðnrh. að senda Finn Ingólfsson, fyrrv. hæstv. iðnrh. og núv. seðlabankastjóra, út af örkinni til að finna risann.

[16:45]

Herra forseti. Eitt af þeim atriðum sem við hæstv. iðnrh. höfum átt orðaskipti um úr þessum ræðustól eru skipulagsmálin. Í 1. umr. um málið spurði ég hæstv. ráðherra hverju sætti hvernig hún hygðist beita sér fyrir því að skipulagi miðhálendisins yrði breytt þannig að hægt væri með réttu og á löglegan hátt að setja niður virkjun og virkjunarlón af þeirri stærðargráðu sem Kárahnjúkavirkjun yrði.

Hæstv. ráðherra taldi sig hafa fulla heimild til þess að breyta því svæðisskipulagi og vildi meina, og ég ætla að fá að vitna beint í orð hennar í andsvari sem hún gaf héðan úr ræðustóli. --- Herra forseti, það er eitthvað djúpt á þessu blaði virðist vera --- nei, hér kemur það. Í andsvari því sem hæstv. ráðherra gaf á 78. fundi þessa löggjafarþings þegar málið var til 1. umr. og ég gerði athugasemd við það sem kemur fram í grg. með frv. að samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins, sem gildi til ársins 2015, sé gert ráð fyrir að svæðið sé orkuvinnslusvæði og samkvæmt því er gert ráð fyrir að orkuvinnslugeta þeirrar virkjunar sem þar er tilgreind sé um 3.200 gígavattstundir. Flatarmál lónsins sem þar er um fjallað geti orðið allt að 38 ferkm, en jafnframt er tekið fram að tilhögun virkjunarinnar yrði að vera háð skilyrðum sem sett eru í reglugerð um friðlýsingu Kringilsárrana.

Samkvæmt skipulagi miðhálendisins sem er í gildi og á að gilda til 2015 er ekki gert ráð fyrir að lón geti skert friðlýst land í Kringilsárrana. Einungis er gert ráð fyrir að lón á Hálslónssvæðinu geti orðið 38 ferkm en ekki 57 ferkm. Ég spurði hæstv. ráðherra hvernig hún hygðist koma þessu máli í gegn þar sem þetta væri í hróplegri andstöðu við svæðisskipulag miðhálendisins og hvort hæstv. ráðherra ætlaði að beita pólitískum þrýstingi og valdi til þess að breyta skipulagi miðhálendisins eða hvernig yfir höfuð hún hygðist gera þetta.

Hæstv. ráðherra svaraði á 78. fundi þingsins, með leyfi forseta:

,,Þarna fer hv. þm. ekki með rétt mál. Þetta er í samræmi við svæðisskipulag miðhálendisins. Gert er ráð fyrir því í svæðisskipulagi að til þessara úrræða geti komið í sambandi við virkjunarmál norðan Vatnajökuls. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. `` Þetta sagði hæstv. ráðherra, virðulegur forseti.

Þarna fór hæstv. ráðherra með rangt mál en ekki sú sem hér stendur, því að eftir að þessi orðaskipti áttu sér stað hef ég setið fundi samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins og í ljós hefur komið að orkuvinnslusvæðið sem gildandi svæðisskipulag gerir ráð fyrir er með þeim hætti sem ég lýsti í spurningum mínum til ráðherrans.

Á þeim fundi sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins boðaði til var kynnt alveg makalaust plagg, tillaga að nýju svæðisskipulagi eða breytingum á staðfestu svæðisskipulagi miðhálendis Íslands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Plagg þetta sem kynnt var á þeim fundi var útbúið af Landsvirkjun en ekki svæðisskipulagsnefndinni sjálfri, en þetta var kynnt engu að síður sem tillaga samvinnunefndarinnar, án þess að nokkur kynning hefði farið fram í nefndinni sjálfri á þeim hugmyndum. Blindandi lagði samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins fram á opnum kynningarfundi plagg og teikningar frá Landsvirkjun, framkvæmdaraðila virkjunarinnar, og ætlaðist til að þessu yrði bara veitt brautargengi og það mundi einhver hallelújakór upphefja þetta til skýjanna.

Svo varð auðvitað ekki, herra forseti, því að fyrirkomulagið á þeim kynningarfundi og á þessum vinnubrögðum var auðvitað gagnrýnt harðlega og samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins varð að yfirgefa þennan fund með skottið á milli lappanna, auðvitað.

Þegar hæstv. ráðherra sagði mig fara með fleipur um svæðisskipulag miðhálendisins þá hafði hún rangt fyrir sér. Og sannleikurinn ar auðvitað sá sem ég ýjaði að í máli mínu: Framkvæmdaraðilinn Landsvirkjun lagði fram tillögu um breytingu á svæðisskipulaginu og svæðisskipulagsnefndinni var gert að kyngja henni umyrðalaust, blindandi og að óathuguðu máli. Sem sagt, pólitískur þrýstingur í málinu enn eina ferðina. Allt skal þetta rekið í gegn, rekið áfram með skóhorni Framsfl. og hæstv. iðnrh., Valgerðar Sverrisdóttur. Þetta voru vinnubrögðin við svæðisskipulag miðhálendisins, herra forseti. Og þau eru auðvitað algjörlega á sömu nótum og vinnubrögðin við úrskurð hæstv. umhvrh. þegar fjallað var um kærurnar sem komu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar.

Sannleikurinn er síðan sá og áframhaldið varðandi starf samvinnunefndar miðhálendisins að á fundi nefndarinnar í gær var lögð fram tillaga frá Hjörleifi Guttormssyni, fyrrv. hv. þm. og hæstv. iðnrh. Hann óskaði þar eftir því að tekin yrði til umfjöllunar tillaga hans að breyttu svæðisskipulagi fyrir miðhálendi Íslands þar sem gert væri ráð fyrir að náttúruverndarsvæði norðan Vatnajökuls milli Kelduár og Kreppu yrðu stækkuð til norðurs frá gildandi svæðisskipulagi og jafnframt yrðu felld úr gildandi skipulagi ákvæði og merkingar með og án fyrirvara um fyrirhuguð orkuvinnslusvæði sunnan umræddra marka, þ.e. um Kárahnjúkavirkjun og miðlun á Eyjabökkum og á Hraunum.

Ekki þarf svo sem að orðlengja það, herra forseti, en tillögu Hjörleifs Guttormssonar var að sjálfsögðu ekki tekið fagnandi í samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins. Tillagan fékk ekki brautargengi hjá nefndinni. En jafnframt má einnig segja frá því að af níu nefndarmönnum sátu þrír hjá við afgreiðslu svæðisskipulagstillögu Landsvirkjunar, þannig að verið er að þrýsta nýju svæðisskipulagi eða breytingum á svæðisskipulaginu í gegnum samvinnunefndina með pólitísku afli og ofan í mótmæli þeirra þriggja einstaklinga sem sitja í nefndinni.

Herra forseti. Óvissuatriðin í þessu máli eru afar mörg og það er alveg sama hversu oft hv. stjórnarþingmenn klifa á því að hér sé um afar arðbært verkefni að ræða, það verður ekki svo við fullyrðingar þeirra. Sannleikurinn er sá --- og sá punktur hefur heldur ekki fengið málefnalega umfjöllun hér á þinginu vegna þess að þingmenn stjórnarflokkanna og hæstv. iðnrh. hafa auðvitað ekki látið svo lítið sem svara þeim rökstuddu ábendingum sem andmælendur málsins hafa fært fram --- punkturinn er auðvitað sá að ef dæmið er rétt reiknað þá er arðsemi virkjunarinnar við Kárahnjúka engin og minni en engin því að hún yrði gífurlegt tap, tap sem mundi nema tugum milljarða kr. Skrifaðar hafa verið um þetta ótal greinar, fluttir hafa verið um þetta ótal fyrirlestrar, ótal rýnar hafa haldið þessu fram, fólk sem er fært á sínu sviði, sviði hagfræðinnar, og nægir að nefna hér til sögunnar fyrirsögn úr Morgunblaðinu þann 8. júní 2001, þar sem Þorsteinn Sigurlaugsson rekstrarhagfræðingur segir tap af Kárahnjúkavirkjun vera 22--51 milljarð kr. og fyrirsögnin er, með leyfi forseta: ,,Engar líkur til að Kárahnjúkavirkjun standi undir sér.`` Engar líkur til þess.

Ef við eigum að ræða þessi mál eingöngu á því fullyrðingaplani og hér standi bara fullyrðing gegn fullyrðingu þá verð ég að segja, herra forseti, að það er ekki skapandi málflutningur. Slíkur málflutningur leiðir auðvitað ekki til neins. Hann leiðir í öllu falli ekki til þess að verkefnið verði tekið upp og endurskoðað og gert þá þannig úr garði að við megi una með einhverju móti, vegna þess að þeir sem slá hér höfðinu við steininn í einu og öllu eru auðvitað hv. þm. stjórnarliðsins og hæstv. iðnrh.

Hæstv. iðnrh. segir að þeir sem mótmæla verkefninu og andmæla því séu að berja höfðinu við stein en ég vil meina, herra forseti, að það sé á hinn veginn, því að hér hafa mjög málefnaleg rök verið dregin fram í dagsljósið varðandi þennan þátt, þ.e. hina meintu arðsemi virkjunarinnar, og til þess að ramma enn frekar inn það sem ég hef dregið fram þá langar mig að fá að vitna í erindi Friðriks Más Baldurssonar, hagfræðings við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, en hann hélt erindi á ráðstefnu viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans 31. okt. 2001 sem fjallaði um náttúruna, stóriðju og nýskipan raforkumála, og er erindi Friðriks Más að mörgu leyti afar athyglisvert.

Mig langar til að fá að grípa niður í það þar sem hann er búinn að fjalla um það sem gerst hefur markverðast í orkumálum landsins og hann fjallar um þetta breytta raforkuumhverfi sem væntanlegt sé með nýrri raforkulöggjöf. Síðan fjallar hann um stóriðjuverkefni og viðskiptahugmyndirnar á bak við slík verkefni. Hann fjallar mikið um Landsvirkjun og segja má að hann sé gagnrýninn í tóni á starfsemi eða nálgun fyrirtækisins og hann talar um að það þurfi að gæta þess að ákvarðanir um risafjárfestingar á borð við þær sem Landsvirkjun þykist ætla að ráðast í á næstu árum fái eðlilegt aðhald markaðsaflanna. Friðrik Már segir að hvorki fyrirtækið Landsvirkjun né íslenskt efnahagslíf hafi gott af öðru.

Nú skulum við líta nánar á það sem Friðrik Már Baldursson hefur að segja um þann kostnaðarlið sem við frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum gagnrýnt að skuli ekki vera inni í stofnkostnaðaráætlunum verkefnisins, þ.e. umhverfislega þætti, afgjald fyrir land eða vatnsréttindi. Náttúran er ekki metin á eina einustu krónu, það höfum við gagnrýnt og við höfum reynt að upphefja hér málefnalega umræðu um þetta en fengið lítið annað en einhvers konar skæting úr herbúðum hv. þm. stjórnarliða. En ég ætla að fá að vitna hér, með leyfi forseta, í orð Friðriks Más Baldurssonar um þetta efni. Hann segir:

,,Hvernig getum við komið náttúrunni að í þessari orðræðu um hagkvæmni og arðsemi? Ef til væri markaðsverð á umhverfisgæðum væri lausnin ósköp einföld: fjárfestar í nýjum raforkuverum myndu greiða markaðsverð fyrir ráðstöfun þessara gæða til virkjana nákvæmlega eins og fyrir fjármagn og vinnuafl. Vandinn er auðvitað sá að gæði á borð við ósnortin víðerni eru ekki markaðsvara, nema að takmörkuðu leyti. Hagfræðingar hafa hins vegar lengi unnið að þróun aðferða þar sem reynt er að meta verðmæti gæða sem ekki eru á markaði með ýmsu móti. Ef sæmilega öruggt mat af þessu tagi liggur fyrir má nota það í stað markaðsverðs. Algengasta aðferðin sem notuð er í þessu skyni er svokallað skilyrt verðmætamat þar sem beitt er viðtalskönnunum til að komast að verðmæti, segjum tiltekins ósnortins landsvæðis: hópur fólks er upplýstur rækilega um framkvæmd á borð við virkjun og kannað í vandlega hannaðri röð spurninga hver viljinn er til að greiða fyrir náttúruröskun af völdum verkefnisins. Augljós hætta er á skekkjum í slíkri könnun því þátttakendur reiða ekki af hendi raunverulegar greiðslur, en engu að síður virðist orðin nokkur sátt meðal hagfræðinga um að með vandaðri útfærslu og prófunum niðurstaðna gefi aðferðin marktækar niðurstöður. Í kjölfar tillagna sem hópur virtra bandarískra hagfræðinga setti fram fyrir nokkrum árum hefur myndast samstaða um bestu venjur við skilyrt verðmætamat. Þessari aðferð er beitt í miklum mæli í Bandaríkjunum og hún er óðum að ryðja sér til rúms í Evrópu.``

[17:00]

Herra forseti. Ég ítreka fyrri spurningar mínar (Forseti hringir.)

(Forseti (ÍGP): Þar sem tilvitnun er lokið vil ég minna hv. þm. á að þegar um beinar tilvitnanir er að ræða þá ber alltaf að fá leyfi forseta.)

Herra forseti. Ég óskaði eftir leyfi við upphaf tilvitnunarinnar. Ég minnist þess mjög vel og ég skal hafa það í huga framvegis.

Tilvitnuninni var lokið, herra forseti. Ég er að ítreka spurningar mínar til hæstv. iðnrh. um skilyrt verðmætamat. Hvers vegna er aðferðum hagfræðinnar, sem eru viðurkenndar til þess að ná fram verðmætamati á náttúruna, ekki beitt á þetta verkefni?

Miðað við fyrri yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar og miðað við umræðu þá sem átti sér stað hér um utanríkismál fyrir skemmstu og þema ræðu hæstv. utanrrh. við þá umræðu, sem var sjálfbær þróun, mætti ætla, herra forseti, að ríkisstjórn Íslands hafi hugsað sér að bera hag umhverfisins á einhvern hátt fyrir brjósti. Það má ráða í orð hæstv. ráðherra á þeim nótum. En hvers vegna er þá ekkert gert til þess að láta náttúruna njóta vafans, láta umhverfiskostnaðinn koma í ljós í verkefni af þessari stærðargráðu ef það er sýn stjórnvalda til framtíðar að umhverfið skuli einhvers metið?

Herra forseti. Við þessum spurningum á enn eftir að fá svör. Þau hafa ekki komið fram í þessum umræðum hér.

Herra forseti. Ég vil vitna aftur í erindi Friðriks Más Baldurssonar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem hann er að fjalla áframhaldandi um þetta sama efni, með leyfi forseta. Hann segir:

,,Með þessu er ég ekki að segja að þegar kemur að ákvörðunum um veitingu virkjanaleyfa eigi stjórnvöld ekki að taka tillit til annarra sjónarmiða en mats á náttúrunni í krónum talið og þess hvort fjárfestar eru til í að reiða fram gjald sem svarar a.m.k. til þess mats, en þannig tel ég eðlilegast að beita verðmætamatinu. Fjölmörg atriði önnur koma þar til og mat á umhverfisáhrifum verður t.d. örugglega ávallt mikilvægur þáttur í ákvörðunum. Not á hagrænu mati á verðmætum náttúrunnar við ákvarðanir stuðlar hins vegar að aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni og því að ekki séu aðeins valdar öfgalausnir, þ.e. að náttúran sé einskis metin eða að hún sé ávallt metin óendanlega hátt.``

Herra forseti. Þarna segir hagfræðingurinn að aðferðir hagfræðinnar til þess að meta umhverfiskostnaðinn auki þjóðhagslega hagkvæmni. Er ekki ástæða fyrir okkur að staldra við þegar fræðimenn á þessu sviði hafa hver á fætur öðrum fært okkur heim sanninn um að þessi aðferð virki og sé öflug aðferðafræði sem beri að nota á 21. öldinni? Hvers vegna þverskallast þá íslensk stjórnvöld svona við og anda ekki út úr sér einu orði um það hvers vegna þau skirrast við að beita þessum aðferðum? Herra forseti. Þessi þögn sem við höfum þurft að þola um þessi mál er ekki boðleg.

Ég var að fjalla um óvissuatriðin og þegar við á Alþingi veturinn 1999 fjölluðum um Fljótsdalsvirkjun með lóni á Eyjabökkum, sem síðan varð ekkert af, töluðum við mikið um að náttúran ætti að njóta vafans. Sú regla á rætur að rekja í pappírum Ríó-ferlisins og samþykktum Ríó-ráðstefnunnar. Sú regla byggir á því að ef um vafa sé að ræða, ef vísindalegur vafi leikur á því hver áhrif viðkomandi framkvæmda á umhverfið verði þá beri stjórnvöldum að haga málum þannig að náttúran njóti vafans.

Herra forseti. Þessi setning hefur ekki hljómað úr þessum stól nægilega oft og ég held kannski aldrei í þessari umræðu um Kárahnjúkavirkjun. En það er þá kominn tími til að láta hana hljóma. Það er enn fullt tækifæri, herra forseti, til þess og fullkomin ástæða til að láta þessa setningu hljóma: Ef um vísindalegan vafa er að ræða þá ber stjórnvöldum að láta náttúruna njóta vafans.

Um er að ræða mikinn vafa í þessu máli sem hér er fjallað um og það hefur verið gerð grein fyrir honum í löngu máli hér í ræðum, herra forseti. Ég ætla ekki að fara aftur yfir þau rök sem ég hef komið með áður í þessu en sannleikurinn er sá að mikill vafi er til staðar, bæði hvað varðar arðsemismat, hina efnahagslegu útreikninga og sömuleiðis ákveðna þætti í umhverfismálunum. Ég vildi óska þess að við stæðum hér og heimiluðum náttúrunni að njóta vafans, en ekki að hér væri þetta óðagot á þar sem stjórnvöld beita alþingismenn þrýstingi við að koma þessu máli í gegn sem ekkert liggur á að samþykkja, því eins og hér hefur verið vikið að þá er einungis verið að samþykkja hér heimild fyrir hæstv. ráðherra til að eiga virkjunarleyfi á lager, virkjunarleyfi sem heldur náttúrunni norðan Vatnajökuls í gíslingu næstu tíu árin. Herra forseti. Það er ekkert vit í þessu.

Eitt af því sem komið hefur til umfjöllunar hér við afgreiðslu þessa máls er á hvern hátt vegið hefur verið að umhverfisverndarfólki. Kannski má segja að gerð hafi verið einhvers konar aðför að því fólki sem hefur viljað merkja sig sem umhverfisverndarsinna eða náttúruverndarsinna í þessari umræðu allri. Það á við alveg frá því að ákvarðanir stjórnvalda voru teknar um að freista þess að fá stórkaupendur að raforku sem gæti verið framleidd með virkjunum á hálendinu norðan Vatnajökuls, en þá fóru náttúruverndarsinnar að láta skína í tennurnar og þeim óx ásmegin því að þeir höfðu baráttumál til að berjast fyrir.

Þetta var svo sem alveg í takt við það sem hafði verið að gerast í nágrannalöndum okkar. Umhverfisverndarsamtökum hafði verið að vaxa fiskur um hrygg síðustu áratugi síðustu aldar má segja og umhverfismálin voru orðin öflugur málaflokkur í allri þjóðmálaumræðu og allri stjórnmálaumræðu. Til marks um það er Árósasamningurinn svokallaði sem samþykktur var af --- ég man nú ekki lengur hvort það voru 89 lönd sem samþykktu hann í Árósum 1997, ef ég man rétt. En sá samningur kveður á um skyldu stjórnvalda til þess að mál sem varða umhverfið fái réttláta málsmeðferð. Samningurinn á sömuleiðis að tryggja aðilum sem ekki eiga beina aðild að máli samt sem áður að hægt sé að leita réttar umhverfisins eða náttúrunnar þannig að náttúran, sem á sér eðli málsins samkvæmt ekki neinn málsvara, fái hann í rödd umhverfis- eða náttúruverndarsamtaka. Samningurinn átti að tryggja slíkt.

Við höfum fjallað um þennan samning, herra forseti, á hinu háa Alþingi og það hefur gengið svo langt að við höfum fengið framlagða af hæstv. umhvrh. þáltill. sem átti að staðfesta þennan samning og sjá til þess að prinsippin í honum yrðu leidd í lög á Íslandi. Sú þáltill. var lögð fram á síðasta þingi en hún kom ekki til afgreiðslu. Kallað hefur verið eftir því hér af hv. þm. að slíkt gerðist, þ.e. að samningurinn yrði lögfestur eða staðfestur af Alþingi. En við höfum fengið vitneskju um það, herra forseti, að lagatæknileg atriði þvælist fyrir hæstv. ríkisstjórn við það að lögfesta Árósasamninginn.

Hver eru þau lagatæknilegu atriði, herra forseti? Jú, þau lúta að þessari aðild að máli. Okkur hefur skilist í hv. umhvn. að um það séu einhvers konar áhöld, að það sé ekki einfalt, að heimila það samkvæmt lögum að aðili sem eigi ekki lögvarða hagsmuni geti lögsótt vegna máls, nema þá að hann eigi að því beina aðild.

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp hér, herra forseti? Jú, það er vegna þess að í fréttum Dagblaðsins í gær var sagt frá kæru sem er til meðferðar hjá héraðsdómi, kæru sem Náttúruverndarsamtök Íslands og nokkrir einstaklingar hafa lagt fram þar sem þeir hafa stefnt hæstv. umhvrh. vegna úrskurðarins í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Nú hefur það gerst að ríkislögmaður hefur lagt fram frávísunarkröfu á þessa stefnu. Og hver skyldi ástæðan fyrir frásvísunarkröfu ríkislögmanns vera, herra forseti? Jú, það er dálítið merkilegt í ljósi þess sem ég hef áður sagt um Árósasamninginn og hin lagatæknilegu atriði sem vafist hafa fyrir stjórnvöldum við að lögfesta hann.

Í frétt DV frá í gær segir, með leyfi forseta:

,,... að í stefnunni séu tengsl stefnenda við sakarefni málsins ekki útskýrð sérstaklega að öðru leyti en því að stefnendur virðist ganga út frá því að andmæla- og málskotsréttur á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum heimili aðild að dómsmáli á grundvelli einkamálalaga. Þessu er ríkislögmaður ósammála og telur að ekki sé lagagrundvöllur fyrir aðild stefnenda að málinu. Meginkrafa ríkislögmanns er sem fyrr segir að málinu verði vísað frá en til vara fer hann fram á sýknu.``

Hvað er að gerast hér, herra forseti? Ríkislögmaður er að óska eftir því að máli, stefnu á hendur hæstv. umhvrh., verði vísað frá vegna þess að Árósasamningurinn hefur ekki verið lögfestur á Íslandi. Því er eðlilegt að spurt sé: Ætla stjórnvöld á Íslandi ekki að hleypa umhverfis- og náttúruverndarsamtökum að svona málum? Er það pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Það er ekki skrýtið þó spurt sé, herra forseti, í ljósi þess sem hér er að gerast. Það er fullkomlega eðlilegt að við leitum svara við þessum spurningum og eðlilegt að beðið sé um viðbrögð frá hæstv. iðnrh.

Það er víða vegið að umhverfisverndarfólki, herra forseti, og þeim sem setja spurningarmerki við þessi tröllauknu áform ríkisstjórnarinnar um virkjanir á hálendinu og mannvirki sem þeim fylgja, vegagerð og haugsvæði og línulagnir og guð veit hvað þetta allt saman heitir. Við munum öll eftir þeirri aðför sem Náttúruverndarsamtök Austurlands urðu fyrir þegar stór hópur manna úr félagsskapnum Afli fyrir Austurland ruddist inn á aðalfund Náttúruverndarsamtaka Austurlands og gerði þar usla og gekk í hreyfinguna til þess að geta beitt áhrifum sínum gegn markmiðum félagsins. Og hver man ekki eftir því að á landsfundi Sjálfstfl. á síðasta ári voru högg og spörk látin dynja á Ólafi F. Magnússyni sem hafði verið að berjast á vettvangi Reykjavíkurborgar og Sjálfstfl. í Reykjavík fyrir því að afstaða yrði tekin gegn Kárahnjúkavirkjun.

Síðan sáu nýir eigendur Dagblaðsins ástæðu til þess að láta ákafan náttúruverndarsinna og umhverfisverndarmann, Jónas Kristjánsson, fá reisupassann úr ritstjórastóli DV. Hann varð að hlíta þeim úrskurði nýrra eigenda DV. Og þann sama dag og Jónasi Kristjánssyni var vikið úr stóli ritstjóra DV tilkynnti Ari Edwald, sem er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að þessi samtök atvinnulífsins á Íslandi sæju ekki lengur ástæðu til þess að taka þátt í starfi Landverndar, náttúruverndarsamtaka á landsvísu. Bæði félög og sömuleiðis einstaklingar eiga aðild að Landvernd. Samtök atvinnulífisins höfðu verið þar aðilar til margra ára og tekið þátt í starfinu. En þarna sáu þau skyndilega ástæðu til þess að segja sig frá þeirri aðild. Og ekki bara Samtök atvinnurekenda, herra forseti, heldur líka Samband íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynnti í lok ágúst 2001 að þau hefðu sagt aðild sinni að Landvernd lausri frá og með áramótum 2001/2002.

Herra forseti. Þetta nefni ég sem dæmi um það hvernig umhverfissinnar og náttúruverndarsinnar á Íslandi hafa átt undir högg að sækja við þá umræðu sem hér hefur farið fram á undanförnum árum og missirum um stóriðjustefnu og virkjunaráform hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér rennur til rifja þegar þessi mál eru rifjuð upp, þegar maður horfir yfir farinn veg og sér svart á hvítu hvernig náttúruverndarsinnar hafa þurft að þola nánast ofsóknir. Svo eru alltaf þeir sem berjast fyrir umhverfinu, sem á sér engan náttúrulegan málsvara, kallaðir öfgasinnar.

[17:15]

Herra forseti. Ég vísa auðvitað orðum af því tagi til föðurhúsanna. Náttúruverndarsinnar eru að sinna innri köllun. Og þeim ber skylda til að gera það, alveg eins og hv. alþingismönnum ber skylda til að fara að sannfæringu sinni þegar þeir greiða atkvæði í miklum málum á hinu háa Alþingi. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim þingmönnum sem í þessu máli hafa ákveðið að ganga gegn flokkslínum og greiða atkvæði gegn málinu því þar trúi ég á sanna sannfæringu náttúru- og umverfisverndarsinna og hef á tilfinningunni, herra forseti, að samviska þeirra þingmanna sem hafa ákveðið að tala fyrir umhverfinu og vera málsvarar þess í umræðunni sem hér fer fram sé hvítari og bjartari en hinna sem ætla að loka augunum fyrir þeim gífurlegu náttúruspjöllum sem framkvæmd af þessu tagi hefur í för með sér.

Það er mjög alvarlegt mál, herra forseti, að umturna ímynd lands. En það er nákvæmlega það sem þeir þingmenn koma til með að gera sem veita þessu máli brautargengi í gegnum þingið. Þeir umturna þeirri ímynd sem við höfum verið að reyna að byggja upp, ímynd náttúruverndar, ímynd hreinnar og tærrar náttúru, og úr því að ég er farin að tala um ímynd, herra forseti, langar mig til að vitna í blaðagrein úr Morgunblaðinu sem birtist fimmtudaginn 31. maí 2001 og er skrifuð af alkunnum náttúruverndarsinna sem oftar en aðrir hefur mátt þola það að vera kallaður öfgasinni. Það er Guðmundur Páll Ólafsson. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið þennan dag undir titlinum ,,Að umturna ímynd`` og þar segir, með leyfi forseta:

,,Um alllangt skeið hefur það þótt klókt áróðursbragð í markaðssetningu að hampa ímynd lands og þjóðar og um leið hefur þessi ímynd verið menningarlegt kappsmál margra Íslendinga. Hún tengist hreinleika, heilnæmi, fegurð og ósnortinni náttúru og er blanda af veruleika og óskhyggju --- andlit út á við og draumaland okkar inn á við. Ímyndin út á við er allsterk vegna þess að vistkerfi landsins, þegar frá er talin gróður- og jarðvegseyðing, er í sæmilegu ásigkomulagi. Íslensk náttúra er enn þá lítt menguð og það sem meira er um vert, hún varðveitir ótal gersemar í stærstu óbyggðum Evrópu. Þar má nefna Þjórsárver svo og Eyjabakka, sem ásamt elfum og gljúfrum, eld- og ísfjöllum öræfanna eru kjörin í nytjabanka framtíðar sem óvenjulegasti þjóðgarður á jarðarhveli.``

Herra forseti. Við værum menn að meiri hér ef við fjölluðum um náttúruna norðan Vatnajökuls á þessum nótum. Ef við værum í alvöru að varðveita ímynd þessa lands sem við höfum verið að reyna að byggja upp, meðvitað, síðustu áratugi, kannski alla síðustu öld að einhverju leyti, ef við værum að efna hér í óvenjulegasta þjóðgarð á jarðarhveli værum við menn að meiri. En í staðinn er okkur boðið upp á umræðu um einhvers konar friðlýsingar á virkjanasvæði, einhvers konar umræðu um þjóðgarðsskrípi þar sem Kárahnjúkavirkjun yrði stærsta náttúruundrið.

Herra forseti. Þjóðgarði af því tagi hafna ég. Og það geri ég með opin augun og fullri meðvitund. Við eigum möguleika á að stofna óvenjulegasta þjóðgarð á jarðarhveli. Alþingi Íslendinga virðist ætla að klúðra því tækifæri, og það er til skammar.

Herra forseti. Það mætti líka hafa nokkur orð um náttúruverndarsinnann Pál Steingrímsson sem hefur verið óþreytandi í að koma ímynd Íslands á framfæri við útlendinga og hefur sömuleiðis, eins og Guðmundur Páll Ólafsson, lagst gegn stóriðju- og virkjanaáformum stjórnvalda á hálendinu. Páll Steingrímsson hefur skrifað grein um stíflugerðarmenn og stóriðjublindu, og í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á árinu 1999, ég hef ekki dagsetninguna, segir hann eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

,,Við verðum að ná tökum á ófreskjunni áður en hún gleypir gullin okkar. Íslendingar gætu allt eins vel búið við hamingju á þessari merkilegu eyju í önnur þúsund ár en það gera þeir ekki ef við lógum landinu.``

Menn á borð við Guðmund Pál Ólafsson og Pál Steingrímsson hafa barist hetjulegri og óeigingjarnri baráttu gegn þessum áformum. Þeir hafa gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að leiða þjóðinni og þingmönnum fyrir sjónir hversu alvarleg staða er hér á ferðum, hversu alvarlegt mál er hér til afgreiðslu. Og það er synd að þeir skuli ekki vera fleiri, þingmennirnir, sem láta ákall þessara náttúruverndarsinna snerta sig.

Fyrir skemmstu, herra forseti, fengu þingmenn bréf frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands þar sem þingmenn voru hvattir til að gæta ábyrgðar sinnar við komandi atkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Og þingmenn voru hvattir til að hlýða rödd samvisku sinnar. Í niðurlagi bréfsins frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands sem öllum þingmönnum barst og var skrifað á Egilsstöðum 28. febr. sl. segir, með leyfi forseta: ,,Mundu að nafn þitt verður letrað á spjöld sögunnar og þú verður metin(n) eftir því hvernig atkvæði þitt fellur.`` Þetta eru orð að sönnu, herra forseti, við hér í þessum sal verðum metin eftir því hvernig atkvæði okkar falla í þessu máli.

Herra forseti. Það er úr vöndu að ráða þegar verkefni af þessari stærðargráðu er til staðar. Við höfum ekki komið okkur saman um hvernig eigi að meta ákveðna þætti þess. Hvernig á t.d. að meta öræfakyrrð eða fuglasöng í óbyggðum? Hvernig á að meta alla þá tilfinningu og ástríðu sem ferðamenn, innlendir sem erlendir, upplifa þegar þeir eru staddir á hálendi Íslands og teyga að sér ómengað fjallaloftið? Hvernig á að meta alla þessa þætti? Sannleikurinn er sá að við eigum að meta þá á Alþingi en við getum það ekki. Sannleikurinn er auðvitað sá að með því að láta náttúruna ósnortna erum við að tryggja framvindu hennar til frambúðar og við erum að tryggja ímynd þessa lands.

Að lokum vil ég, herra forseti, fá að vitna til orða Friðriks Hansens. Mig langar til að vitna í ljóð sem hann orti um Jökulsá á Dal, sennilega veturinn 1911/1912, á Sleðabrjót í Jökulsárhlíð þar sem hann var kennari. (HBl: Sleðbrjót.) Sleðbrjót í Jökulsárhlíð. Þar var skáldið samvistum við Jöklu, heyrði hennar þunga nið á hverjum degi og upplifði kraftinn frá henni. Hann orti til hennar eftirfarandi, með leyfi forseta:

  • Með sterkum nið og straumsins þunga falli
  • þú streymir út í hafsins bláa djúp.
  • Og vegur þinn hann liggur fjall af fjalli,
  • og fjöllin eru sjaldan slétt og gljúp.
  • En þó var gatan greið um hrjóstursalinn.
  • Þú grófst þau sundur, bjóst til Jökuldalinn.
  • Og síðan hafa liðið ár og aldir
  • og ellin hrukkað marga slétta kinn,
  • en söm þú rennur veginn, sem þú valdir,
  • og votum tárum laugar dalinn þinn.
  • Og þú ert sífellt ný og ung þeim ungu
  • og alltaf sömu lög á þinni tungu.
  • Herra forseti. Ef Alþingi Íslendinga samþykkir það mál sem við hér erum að fjalla um er Alþingi Íslendinga að koma í veg fyrir að ljóð Jöklu og lög geti hljómað um ókomna framtíð eins og skáldið Friðrik Hansen heyrði fyrir sér að þau mundu gera.