Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 17:25:16 (6970)

2002-04-04 17:25:16# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í þessu stóra máli hefur margt verið sagt, en margt er ósagt enn. Svo stórkostleg framkvæmd sem hér er ætlunin að heimila leyfi fyrir, þ.e. Kárahnjúkavirkjun, virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröflu, er það stórt mannvirki hvernig sem við horfum á það, og þá í tengslum við þá stóriðju sem á að rísa samfara þessari virkjun, að það er ekki óeðlilegt að hér þurfi að fara yfir marga hluti, sérstaklega þegar undirbúningurinn hefur verið með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég mótmæli því, herra forseti, að þetta mál þurfi ekki að ræða neitt frekar, það hafi fengið fulla þinglega meðferð, afgreiðslu með eðlilegum hætti og í raun sé ekkert annað að gera en að samþykkja það.

Ég mótmæli þessu vegna þess að sá tímarammi sem mati á umhverfisáhrifum þessarar stóru virkjunar var ætlaður var allt of skammur og það á að vera okkur sú lexía litið til framtíðar að setja ekki svo umfangsmiklar framkvæmdir og mikil mannvirki undir sama hatt og brýr og vegarspotta hvað varðar mat á umhverfisáhrifum. Í framtíðinni verðum við að ætla slíkum mannvirkjum meiri tíma og meira svigrúm. Grunnurinn á að vera annar en við höfum í dag. Við eigum, eins og margoft hefur komið fram, að byggja á áætlun, sem kölluð hefur verið rammaáætlun, um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, áætlun sem er þá sátt um í þjóðfélaginu líkt og unnið er að sátt um svæðisskipulög og annan ramma utan um vinnuáætlanir.

Að mínu mati er ekki nóg að gera rammaáætlun um nýtinguna, við þurfum samhliða að vinna að verndaráætlun og kortleggja þau svæði sem við viljum til framtíðar að verði ósnert, hvort heldur er af virkjunarframkvæmdum eða öðrum framkvæmdum, þannig að við vinnum að verndaráætlun fyrir framtíðina samhliða rammaáætlun í okkar litla landi. Landið okkar er ekki það stórt og það er það viðkvæmt að ekki veitir af að fara að huga að heildarsýn. Við höfum tekið bút og bút og merkt sem náttúruverndarsvæði eða þjóðgarða en við höfum oft verið ansi smá í sniðum. Ekki erum við stórlátari þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga til að reka þjóðgarðana okkar. Það er í raun og veru hneisa hvernig við höfum staðið að rekstri þessara staða.

Við höfum ekki áttað okkur á því, herra forseti, að þetta er auðlegð --- ekki kvöð --- sem við eigum, og eigum að leggja rækt við. Því ber okkur að meta landið með viðeigandi hætti.

[17:30]

Ég gagnrýni og hef gagnrýnt allan tímann að sá tíma\-rammi sem Noral-verkefnið setti allri undirbúningsvinnunni var of knappur. Það kemur fram í umsögn skipulagsstjóra og í álitum allra þeirra sérfræðinga sem urðu að vinna að mati á umhverfisáhrifum þessa verkefnis. Það kemur einnig fram í áliti Seðlabankans sem gat ekki unnið sjálfstætt mat á arðsemi þessa mikla samtengda verkefnis virkjunar og álvers heldur varð að styðjast þar við útreikninga Þjóðhagsstofnunar. Ekki það að nokkur sé að efast um þá niðurstöðu, þeir sem hafa náð að kynna sér hana, en þetta segir okkur bara að allur sá tími sem okkur var gefinn var of skammur.

Þó svo að málið hafi fengið rétta meðferð eftir að það kom í þingið þá gagnrýni ég líka harðlega og í raun og veru fordæmi þau vinnubrögð að umhvrh. skyldi ekki við þær aðstæður og þær athugasemdir sem komu fram við mat á umhverfisáhrifum og eftir niðurstöðu skipulagsstjóra sem í rauninni fellir þann úrskurð að það eigi ekki að fara í þessa framkvæmd, hafa ekki vísað málinu aftur til skipulagsstjóra og látið vinna þetta upp á nýtt. Það á eftir að láta á það reyna hvort sú vinna sem fór þá í gang standist lög og hvort við séum í rauninni með rétta niðurstöðu í höndunum sem frv. byggir á, að það sé í lagi frá umhverfislegu sjónarmiði að fara í þessa stóru virkjun. Þrátt fyrir þær varúðarráðstafanir sem hæstv. umhvrh. lagði til að yrðu gerðar, þá stendur eftir að fyrirsjáanleg eru umhverfisspjöll sem ekki er hægt að segja til um hvernig eigi að koma í veg fyrir, eða bæta. Það er heldur ekki fyrirsjáanlegt hvaða áhrif hækkandi vatnsborð í Leginum muni hafa á umhverfið, á tún og sveitir, líf og starf á Héraði, því ef þarna verða breytingar á náttúrunni, einhverjar þær breytingar sem við sjáum ekki fyrir, þá munu þær alltaf hafa áhrif á vatnsborðið, á vatnsstöðuna, á ræktunarmöguleika. Og ef um kólnun á fljótinu verður að ræða þá sjáum við ekki fyrir hvaða áhrif það muni hafa, fyrir utan að menn eru líka uggandi um ferðaþjónustu og annað á því svæði.

En það er ekkert skrýtið þó að við stöndum í þessum sporum núna því að það er í rauninni eingöngu pólitískt stolt sem rekur okkur áfram og það má rekja þetta að nær öllu leyti til hæstv. utanrrh., 1. þm. Austurl., sem hefur lagt sitt pólitíska stolt að veði vegna þessa máls og þetta skal knúið fram hvað sem tautar og raular. Það er alveg greinilegt að ekki á að fara inn í næstu kosningar með svik á bakinu og því skal keyra þetta áfram þrátt fyrir að staða málsins í dag sé sú að ekkert liggi á því að afgreiða frv. því að í dag er enginn orkukaupandi. Hann er ekki til staðar og það sem meira er að þrátt fyrir bestu fáanlegu sólgleraugu sem hæstv. iðnrh. og aðrir sem fylgja henni eftir setja upp verða þeir að viðurkenna að það verður í allra fyrsta lagi í lok ársins 2003 sem hægt er að segja til um hvort búast megi við einhverjum nýjum orkukaupanda. Það tekur þann tíma að finna nýjan aðila í staðinn fyrir Norsk Hydro og það er alveg sama hversu margir koma að málinu og hversu hart verður lagt að sér, það mun ekkert liggja fyrir um nýjan orkukaupanda fyrir lok ársins.

Því í ósköpunum erum við þá að böðlast svona áfram nema ef ske kynni af pólitísku stærilæti og hugsanlega því að þingmenn jafnt sem aðrir hafa ekki viljað kafa nægilega vel ofan í málið og taka mark á þeim aðvörunarröddum og öllum þeim aðvörunarbjöllum sem eru í gangi og leita annarra ráða til þess að efla byggð á Austurlandi ef það er tilgangur verkefnisins?

Það er út af fyrir sig sjónarmið að vilja efla byggð á Austurlandi, og þá vil ég setja spurningarmerki við það hvort þetta sé rétta leiðin. En ef menn eru að leita að leiðum til þess að styrkja afkomu okkar Íslendinga inn í framtíðina, þá hafa líka komið fram mjög gagnrýnar raddir á þá útreikninga sem sýna að Noral-verkefnið eigi að vera mjög arðvænlegt fyrir þjóðarbúið, gagnrýnisraddir sem benda á að inn í þá reikninga séu ekki teknir eðlilegir hlutir eins og að greiða fyrir mengun, greiða fyrir afnot af landi, að þurfa ekki að hafa áhyggjur af náttúruspjöllum og að hreinsa upp eftir sig þegar virkjunin verður ónothæf til síns brúks og verður komandi kynslóðum eingöngu til armæðu og náttúrunni til frekari spjalla. Því að það verða ekki eingöngu staðbundin áhrif, bundin við lónið og virkjunarsvæðið, heldur mun fok frá Hálslóninu hafa áhrif á stórt og mikið svæði, mikil víðerni á Vestur-Öræfum og það eru landspjöll og landeyðing sem ekki er hægt að sýna fram á hvernig eigi að hefta.

Herra forseti. Málið er knúið áfram af pólitískum ákafa. Ekki er staldrað við og tækifærið notað sem nú gefst til að draga andann djúpt og a.m.k. fresta málinu, ef menn eru ekki tilbúnir til þess að taka það út af borðinu. Menn hugsa ekki til þess að tileinka sér nýja sýn, ósnortin víðerni eru verðmæti sem geta gefið af sér umtalsverðar tekjur í þjóðarbúið ásamt fjölda starfa í fjölbreyttu atvinnulífi. Þann valkost á ekki að kanna, ekki á að bera hann saman við þann valkost sem verið er að heimila. Ekki á að nota tækifærið til þess að fá á það mat hvaða áhrif þjóðgarður, og þá þjóðgarður án virkjunar á þessu svæði, og friðland norðan Vatnajökuls gæti gefið af sér í þjóðarbúið og hvaða möguleika hann gæti skapað fyrir ekki bara Austfirðinga heldur íbúa á öllu Norðausturlandi og suður í Skaftafellssýslu, hvaða möguleika sá valkostur mundi gefa inn í nánustu framtíð og þegar lengra er litið. En ekki á að kanna þennan valkost og ekki að fá samanburð á arðsemi þessara tveggja valkosta.

Einnig hefur verið talað um, herra forseti, að ástæða þess að farið er í þessa virkjun sem er háð því að fundinn verði orkukaupandi, og þá er horft til stóriðju á Reyðarfirði því að til framtíðar litið verða fá störf unnin tengd virkjuninni sjálfri. Horft er til starfa við hugsanlegt álver eða stóriðju sem staðsett yrði á Reyðarfirði og að mínu mati eru þau neikvæðu áhrif vanmetin sem yrðu á hið félagslega umhverfi og sem yrðu á aðrar atvinnugreinar vanmetin. En auðvitað mun stóriðja eða stór atvinnugrein eins og álver hafa jákvæð áhrif á miðhluta Austurlands að mörgu leyti. En mér finnst óverjandi að horfa eingöngu á jákvæðu þættina og það að með svo stórum vinnustað skapist afleidd störf og afleidd þjónusta sem byggðist upp í kringum þennan stóra vinnustað, sem er auðvitað jákvætt, en ekki sé horft á það að á sama tíma munu aðrar atvinnugreinar líða fyrir það. Í staðinn fyrir mjög fjölbreytt atvinnusvæði erum við hugsanlega að fá í framtíðinni mjög einhæft atvinnusvæði og mér finnst að horfa verði á slíka hluti líka, ekki bara þá jákvæðu.

Þetta eru ekki eingöngu úrtölur heldur eins og menn geta séð fyrir sér staðreynd sem er ekkert hægt að horfa fram hjá. Af svo stóru álveri eða stórum vinnustað verða jaðaráhrif sem munu hafa áhrif á svæðið utan Miðausturlands og því verða sveitarfélögin að undirbúa sig undir þessar breytingar og gera þar sérstakar ráðstafanir. Ef menn hafa áhuga á að halda Vopnafirði og svæðinu á norðausturhorninu í byggð og suðurfjörðunum þá þurfa að koma hliðarráðstafanir til að byggja upp andsvar gegn þessari miklu stóriðju.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum verið sökuð um að við séum varla fær um að fjalla um þetta mál og vinna að því á hinu háa Alþingi því að við sýnum svo mikla hlutdrægni og við séum fyrir fram búin að gefa okkur afstöðu í málinu vegna umhverfissjónarmiða. En, herra forseti, umhverfissjónarmiðin eru alveg næg út af fyrir sig til að hafna frv. og því til staðfestingar vil ég vitna til úrskurðar skipulagsstjóra og fjölmargra annarra sem hafa komist að sömu niðurstöðu og við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þó svo að við séum búin að mynda okkur þá skoðun að óverjandi sé að fara í Kárahnjúkavirkjun vegna þeirra náttúruspjalla sem hún veldur þá er ekkert sem segir að við getum ekki einnig myndað okkur skoðanir um aðra þætti málsins og afleiðingar þessarar stórframkvæmdar eins og efnahagslega þáttinn og félagslega þáttinn. Við erum ekkert að skipta um skoðun og sveiflast á milli rauðrar og grænnar slikju, heldur höfum við verið á mismunandi tíma að draga fram mismunandi áherslur eftir því sem þær hafa komið hér inn á þingið. Fyrst fjölluðum við jú um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og síðan í framhaldinu kom mat á hinum efnahagslega þætti og eðlilegt er að við förum í málin eins og þau koma fram.

[17:45]

En eins og ég sagði, herra forseti, það á að þjösna málinu áfram og við þingmenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum einnig fengið að heyra að við finnum okkur allt til til þess að tefja málið. Það kom meira að segja fram á stórum fundi á Reyðarfirði sem haldinn var nú í vikunni, á miðvikudagskvöldið, mjög fjölmennum fundi sem hæstv. iðnrh. og Samband sveitarfélaga á Austurlandi stóðu fyrir til að skýra stöðu málsins eða Noral-verkefnisins og hvað yrði gert í framhaldinu. Á þeim fundi komu meira að segja fram aðvaranir og það var kannski af einhverri viðkvæmi að ég tók þær til mín m.a., að Austfirðingar ættu að standa þétt saman, sem er náttúrlega gott, en láta ekki efasemdaraddir og þá sem væru á móti frv. ná að nýta sér þá atburði sem liðnir eru hvað varðar yfirhylmingar eða þögn hæstv. iðnrh. og embættismanna um stöðuna, nýta sér þá atburði til þess að róta upp moldviðri og reyna að tefja málið hér á þingi og tefja fyrir því.

Það voru ekki við, herra forseti, þingmenn Vinstri grænna, sem höfðu einhverja vitneskju um stöðu málsins. Ef okkur blöskrar og það særir réttlætiskennd okkar að hæstv. iðnrh. og ég leyfi mér að segja hæstv. utanrrh., því hann hefur ekki neitað því að hafa verið í beinum viðræðum við æðstu yfirmenn Norsk Hydro þó að hann hafi ekki upplýst hvað þeim fór á milli, þá dreg ég það í efa á þessum örlagatímum að þeir hafi verið að tala um veðrið eða bara að spjalla af því þeir eru gamlir kunningjar, að láta okkur þingmenn, sérstaklega í hv. iðnn., ekki vita um stöðu mála. Við höfum heyrt viðbrögð og svör hæstv. iðnrh. við þessum viðbrögðum okkar, að okkur mislíki eða misbjóði slík framkoma, og þá er talið af viðkomandi að ekki beri að upplýsa þingið fyrr en allt er staðfest. Siðferðiskennd mín segir mér að við eigum að haga okkur á þann hátt, og hefur mér verið kennt að það að þegja yfir hlutum sem geta haft áhrif á afgreiðslu mála eða haft áhrif á stöðu mála, sé kölluð hvít lygi. Það að þegja yfir vitneskju sem maður hefur og veit að skiptir máli --- maður er ekki að ljúga, segir ekki ósatt, en maður gefur heldur ekki þær upplýsingar sem vitað er að hafa áhrif á afgreiðslu mála, eins og það gerir í þessu máli. Nú er enginn orkukaupandi, hann er ekki til staðar og þegar komin var óvissa í málið, þá gat það í raun og veru ekki þýtt nema eitt, að það mundi leiða til frekari frestunar. En tilgangurinn, herra forseti, helgar meðalið og þetta ber allt að sama brunni, að knýja málið áfram. Ef halda þarf upplýsingum leyndum, þá er það gert.

Því vil ég enn og aftur minna á þá tillögu og bókun sem fulltrúi okkar í forsn. hefur lagt fram, því við teljum að þetta sé í raun og veru víti til varnaðar. Við minnumst þess ekki í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að þetta hafi komið upp áður að vitað hafi verið til þess að gestir sem hafa verið kallaðir fyrir þingnefndir hafi leynt upplýsingum. Auðvitað getur það svo sem verið án þess að það hafi nokkurn tímann komið fram eða orðið uppvíst. Þetta er litið mjög alvarlegum augum víða annars staðar ef það er gert í þeim tilgangi að hafa áhrif á gang mála, og ég held að við ættum, eftir að þetta mál er úr sögunni, að hafa það sem víti til varnaðar og skoða hvernig við getum einhvern veginn komið viðbrögðum við atburðum sem þessum inn í þingsköp, a.m.k. þurfum við að vera meðvituð um að þetta geti gerst og þá eigum við líka að vita hvernig við eigum að bregðast við.

Herra forseti. Hér hefur verið nefnt og minnst á svæðisskipulag miðhálendisins eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rifjaði upp í ræðu sinni áðan um hver staðan væri varðandi svæðisskipulagið á miðhálendinu. Staðan er sú að ekki er búið að breyta því, þó að það muni að öllum líkindum verða gert eins og tillögur Landsvirkjunar segja til um. Það er Kárahnjúkavirkjun og uppistöðulónin sem ráða þar ferð. Í rauninni er úrskurður hæstv. umhvrh. lagður til grundvallar nýju svæðisskipulagi á miðhálendinu, en uppistöðulónið er 35 km2, en Hálslón á að vera 88 km2. Þetta segir okkur bara hvílíkum stakkaskiptum þessi virkjun og Noral-verkefnið hefur tekið frá því menn fóru að skoða þetta fyrst, hve allt hefur í raun og veru farið úr böndunum hvað varðar stærðarhlutföll og hve Norsk Hydro hefur komist langt með kröfur sínar um stærð álversins í Reyðarfirði. Og ekki nóg með það, heldur þarf nú að stækka Kröflu til þess að fá þarna nægilega orku til framtíðar.

Við eigum, herra forseti, í þessu eins og öðru að láta náttúruna njóta vafans. Þó svo að umhverfissamtökum hafi vaxið fiskur um hrygg, þá eru þau sárlega fjársvelt og njóta á engan hátt þeirrar fyrirgreiðslu eða þess stuðnings sem tíðkast víðast annars staðar, því það er talið eðlilegt í dag að náttúruverndarsamtök og umhverfisverndarsamtök veiti stjórnvöldum ákveðið aðhald og standi á verðinum og við eigum að meta þá vinnu og að hafa slíka varðmenn í þjóðfélaginu, því ekki veitir af. Ég veit að allt sem heitir aðkeypt vinna fyrir mörg þessara náttúruverndarsamtaka er fjárhagslega erfitt og það að fá sér lögfræðing eða sérfræðiþjónustu er þeim oft of þungur baggi og því hallar mjög á umhverfisverndarsamtökin þegar þau eru að glíma við svo stórt fyrirtæki sem Landsvirkjun er eða önnur stórfyrirtæki.

Er Kárahnjúkavirkjun skynsamleg framkvæmd burt séð frá náttúruspjöllunum? Það eru margir fleiri en þingmenn og kjósendur Vinstri grænna sem efast um það. Júlíus Sólnes, prófessor í umhverfis- og byggingaverkfræði, er einn af þeim sem efast um að þessi framkvæmd sé skynsamleg. Mig langar, herra forseti, að fá að grípa örstutt niður í grein hans sem birtist í tímariti fyrir skömmu. Með leyfi forseta, segir í hluta greinarinnar:

,,Í seinni tíð hefur skilningur manna á verðmæti hinnar ósnortnu náttúru Íslands farið vaxandi og margir sjá öræfin norðan Vatnajökuls sem einhvern mesta fjársjóð sem Íslendingar eiga og geta tekið með sér inn í framtíðina. Það sé því óðs manns æði að ætla að skemma þetta land, sem er stærsta ósnortna hálendissvæði Vestur-Evrópu, með stórum virkjunum. Verðmæti þess með tilliti til þess aðdráttarafls, sem það hefur á innlenda og erlenda ferðamenn, er af mörgum talið margfalt á við það sem fengist með virkjun jökulánna. Svo mikið er víst að verði fórnarkostnaður eða verðmæti þess lands sem spillist, reiknaður sem hluti af stofnkostnaði virkjana á þessu svæði, er arðsemi þeirrar rokin út í veður og vind.``

Á öðrum stað segir hann, herra forseti, ef ég má halda áfram:

,,Stjórnvöld hafa mjög haldið því á lofti að Íslendingar geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hnattræna vísu með því að stuðla að byggingu álvera á Íslandi þar sem þau noti ,,hreina og vistvæna orku``, þ.e. vatnsafl. Jakob Björnsson, fyrrv. orkumálastjóri, er einn þeirra sem hefur tekið hraustlega undir þetta sjónarmið í mörgum blaðagreinum, þar sem hann tíundar kosti þess að nota vatnsorkuna og velja áliðnaði stað á Íslandi. Álver yrði annars byggt þar sem notuð yrði raforka framleidd með kolum eða olíu sem mundi valda mikilli losun koltvíoxíðs.

Það gleymist í þessari röksemdafærslu,`` --- herra forseti, ég vil halda örlítið áfram að vitna í grein Júlíusar Sólness --- ,,að gríðarlegt óvirkjað vatnsafl finnst víða í heiminum; í Afríkuríkjum, Asíu og Suður-Ameríku væri hægt að byggja öll heimsins álver og nota til þess vatnsaflsvirkjanir. Í yfirliti Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um virkjað og óvirkjað vatnsafl í heiminum kemst Ísland ekki einu sinni á blað. Í Venesúela eru sumar árnar virkjaðar í mörgum þrepum upp á þúsundir megavatta, og álverin eru þar í röðum. Nánast öll lönd Vestur-Evrópu nema Ísland hafa hafnað frekari álvershugmyndum, þar sem þau vilja ekki eyða takmarkaðri orkuframleiðslu sinni til slíkra hluta. Norðmenn, sem eru stórir álframleiðendur, hafa þannig ákveðið að hætta frekari nýtingu vatnsafls vegna of mikilla umhverfisspjalla, og þar með er frekari áliðnaður þar útilokaður. Vestur-Evrópuríkin nema Ísland líta orðið svo á að áliðnaður eigi frekar heima í þriðja heims ríkjum. Þau horfa miklu frekar til þekkingar- og upplýsingaiðnaðar, sem hæfir betur menntunarstigi þeirra. Það má því segja að við fáum engin prik hjá öðrum þjóðum, þótt við viljum stórskemma náttúru landsins til þess að geta reist álver. Undanþáguákvæðið svokallaða, sem íslensk stjórnvöld hafa barist fyrir, er því í rauninni óþarft. Það verður hins vegar að segja stjórnvöldum til hróss að það er nokkurt afrek að fá þjóðir heims til að fallast á að við fáum nánast frjálsar hendur til að auka losun á koltvíoxíði vegna stóriðju. Við gætum hagnast verulega á þessari heimild, því í rauninni ættum við að selja aðgang að notkun hennar dýru verði.``

Í lokaorðum segir hann, herra forseti:

,,Málinu hefur fram til þessa verið stillt upp þannig að um sé að ræða líf eða dauða fyrir Austfirði. Hefur jafnvel verið gefið í skyn að það sé réttlætanlegt að fara út í þessar framkvæmdir, þótt arðsemin sé ef til vill ekki ákjósanleg, vegna hinnar ,,jákvæðu`` byggðaþróunar sem það hefði í för með sér. Þetta er mikill misskilningur sem byggir í rauninni á þeirri falshyggju að Íslendingar geti gert byggðavandamál sín að útflutningsvöru.

... Ef menn vilja í raun styrkja byggð á Austfjörðum verður það ekki gert með stóriðjuverum sem hafa takmörkuð áhrif. Aukin menntun, bættar samgöngur og hugsanlegur atvinnuþróunarsjóður til styrktar nýsköpun í atvinnulífinu mundu gagnast miklu betur heldur en stóriðjudraumar síðustu aldar. Ef Landsvirkjun er ætlað að vera byggðaþróunarstofnun, gæti fyrirtækið alveg eins útvegað fjármagn í slíkan atvinnuþróunarsjóð í stað þess að stórauka viðskiptahallann á næstu árum með óarðbærum framkvæmdum eins og Kárahnjúkavirkjun líklegast er. Hvernig væri t.d. að koma upp háskóladeildum á Egilsstöðum í samvinnu við Háskóla Íslands? Velmenntað, ungt fólk er miklu líklegra til að koma með hugmyndir til að skapa ný tækifæri fyrir austan heldur en afdankaðir stjórnmálamenn.``

[18:00]

Herra forseti. Ég minnist þess að vitnað hefur verið í þessa grein hér áður. Þegar ég kom að setningunni um afdankaða stjórnmálamenn áttaði ég mig á því að það hefur greinilega verið lesið úr þessari grein. En ég vil ljúka tilvitnuninni:

,,Með ofansögðu hefur spurningunni í upphafi í raun verið svarað neitandi. Það væri mikil skammsýni að ráðast í virkjun jökulsárinnar við Kárahnjúka með þeim gífurlegu og augljósu umhverfisspjöllum sem af hlytust í trássi við vilja nærri helmings þjóðarinnar. Afkomendur okkar mundu kunna okkur litlar þakkir fyrir. Skipulagsstofnun ríkisins hefur þegar lýst yfir að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu of mikil til að hún sé ásættanleg. Látum það vera lokaniðurstöðuna.``

En það var ekki lokaniðurstaðan, herra forseti. Áfram var haldið og nú á að heimila þessa virkjun í lögum og gefa hæstv. iðnrh. leyfi til að nýta sér þessa virkjunarheimild þegar einhver, hvort sem er álframleiðandi eða einhver annar úr stóriðjugeiranum, gefur sig fram.

Herra forseti. Það hefur verið talað um svartsýni og neikvæðni hjá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, við gerum þó ekki annað en að vera sama sinnis og margir aðrir, hvort sem það er af þjóðhagslegum, efnahagslegum eða umhverfislegum sjónarmiðum. Það væri mjög áhugavert fyrir hv. þm., hafi þeir ekki setið á ráðstefnu Landverndar og Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands sem haldin var 12. mars sl. í Háskóla Íslands, að kynna sér drög úr fyrirlestrum þeirrar ráðstefnu. Þeir sem þar tóku til máls gagnrýndu Kárahnjúkavirkjun og Noral-verkefnið mjög harkalega og með mismunandi hætti. Menn höfðu þar mjög sterkar efasemdir, ekki bara um þessi miklu náttúruspjöll heldur kemst Sigurður Jóhannesson hagfræðingur að þeirri niðurstöðu að hugsanlega verði tap af framkvæmdinni 30--40 milljarðar kr. En það var ekki nákvæmt mat. Aðalatriðið er að það liggur fyrir hjá Landsvirkjunarmönnum sjálfum að ekki eru venjulegar rekstrarforsendur fyrir Kárahnjúkavirkjun, það er ljóst áður en hugsað er út í tjón á náttúrunni.

Herra forseti. Í þessum lokaorðum mínum vitnaði ég beint í skýrsluna. Það er greinilegt að Sigurður Jóhannesson reiknar þetta ekki út án þess að styðjast við niðurstöður eða upplýsingar frá Landsvirkjun sjálfri.

Ég var búin að nefna skoðun okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á því hve lítið er gert úr þinginu og nefndum þingsins, þ.e. að þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir stöðu málsins þegar farið var að hrikta í undirstöðum og samningsdrögum Noral-verkefnisins. Nú verður þessi ferill kortlagður og upp á framtíðina er gott að hafa tímasetningar og staðreyndir málsins ljósar.

Herra forseti. Ég óskaði eftir því í umræðunni í gær við hæstv. utanrrh. að hann greindi okkur frá því hvað hefði farið fram í viðræðum hans við Norsk Hydro. Honum virtist ganga miklu betur að ná sambandi við yfirmenn þar en hæstv. iðnrh. en hann svaraði því ekki. Ég held að það væri mjög áhugavert ef það kæmi þá fram í þessari samantekt og skýrslu um þróunina undanfarna daga eða mánuði, að fá upplýsingar um samskipti hæstv. utanrrh. við þessa aðila.

Sunnudaginn 17. mars kom fram að Halldór Ásgrímsson utanrrh. hefði átt samskipti við Eyvind Reiten, forstjóra Norsk Hydro. Eins og ég sagði áðan þá trúi ég ekki að þeir hafi verið að spjalla um veðrið í Noregi eða veðrið þar sem þeir háttvirtu menn voru staddir á þeim tíma. Ég man ekki hvar hæstv. utanrrh. var þann 17. mars en hann gæti allt eins hafa verið erlendis. En sunnudaginn 17. mars birtist einnig í innlendum fréttum yfirlýsing frá Náttúruverndarsamtökum Íslands þar sem samtökin krefjast þess að iðnrh. dragi til baka frv. um Kárahnjúkavirkjun. Með leyfi forseta, vil ég lesa hvernig Morgunblaðið gerði grein fyrir þessari ályktun:

,,Náttúruverndarsamtök Íslands krefjast þess að iðnaðarráðherra dragi til baka frumvarp um Kárahnjúkavirkun í ljósi fréttar Morgunblaðsins um að forsvarsmenn Norsk Hydro hafi gefið íslenskum stjórnvöldum til kynna, að þeir geti ekki staðið við þann tímaramma, sem búið var að semja um vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Reyðarfirði, og jafnframt að þeir séu ekki tilbúnir til að ganga frá nýrri tímaáætlun.

,,Hin pólitíska forsenda frumvarps iðnaðarráðherra um Kárahnjúkavirkjun --- þ.e.a.s. orkusala til álvers á Reyðarfirði --- virðist nú brostin. Stjórnvöld hafa alla tíð réttlætt þann mikla umhverfisskaða sem mun hljótast af Kárahnjúkavirkjun með þeirri röksemd að virkjun og álver muni styrkja byggð á Austurlandi. Í ljósi fréttar Morgunblaðsins ber því iðnaðarráðherra að draga til baka frumvarp sitt. Að öðrum kosti er verið að blekkja almenning.

Frumvarpið er lagt fram á fölskum forsendum þar eð orkukaupandi er ekki fyrir hendi,`` segir í ályktun frá Náttúruverndarsamtökunum.``

Náttúruverndarsamtök Íslands, ásamt öðrum náttúruverndarsamtökum víða um land, eru fjölmenn samtök þannig að það eru ekki eingöngu við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem gerum það sem við getum til þess að standa í fæturna og beina varnaðarorðum að öðrum þingmönnum og reynum að hafa áhrif á að þetta frv. verði ekki afgreitt. Við eigum samhljóm úti í þjóðfélaginu og það er þá alltaf spurningin um hver sé að berja höfðinu við steininn. Baráttan er auðveldari fyrir þá sem eru fjölmennari á þingi í þessu máli. Hér virðist mikill meiri hluti fyrir því og menn sáttir við að afgreiða þetta frv. Herra forseti, hins vegar getum við ekki haft samasemmerki á milli þess að menn séu sáttir við að afgreiða þetta frv. Það er alveg ljóst að meiri hlutinn mun afgreiða þetta frv. en ég læt það liggja milli hluta hvort allir séu sáttir við það.

Málið er auðvitað stórt. Bent hefur verið bent á að það þurfi ekki að vera með svo mikla viðkvæmni í þessu máli, hægt sé að koma við þjóðgarði. Hér hefur verið lögð fram tillaga um að koma upp þjóðgarði vestan við Kreppu og því hefur verið haldið fram að hægt sé að sameina þjóðgarð og virkjanir. En málið er að til eru alveg sérstakar alþjóðlegar flokkanir á þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Þessar flokkanir eru skilgreindar af stofnun sem heitir IUCN og sem var stofnuð 1948 í Frakklandi, á ensku The World Conservation Union. En þessi flokkun er sem sé alþjóðleg og þar er flokkurinn þjóðgarður, með leyfi herra forseta:

Þjóðgarður: friðlýst svæði skipulagt fyrst og fremst til verndar vistkerfum og til útivistar.

Náttúrulegt svæði lands/sjávar þar sem markmiðið er að:

Vernda vistfræðilega heild eins eða fleiri vistkerfa fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Að koma í veg fyrir nýtingu sem dregur úr verndargildi svæðisins.

Leggja grunn að möguleikum til vísindarannsókna, fræðslu, upplifunar ásamt því að tryggja umgengnisrétt almennings.

Markmið stýringarinnar eru að vernda náttúruleg og fögur landsvæði, mikilvæg þjóðum til að hrífast af, rannsaka, fræðast og stunda þar útivist og ferðast. Þessi þáttur er orðinn mikils metinn og er í raun auðæfi út af fyrir sig. Sem betur fer átta æ fleiri sig á og þekkja þessa skilgreiningu og vita að það er í raun ekki hægt að taka bara hvaða land sem er og fara með það eins og okkur sýnist, koma þar upp virkjunum eða iðnaði, þ.e. nýta svæðið á hvern hátt sem menn vilja og segja að það sé bara best að samnýta þetta með þjóðgarði. Það er ekki þannig. Einn af þeim mörgu sem hefur áttað sig á þessu er Guðmundur Páll Ólafsson. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 14. mars og með leyfi herra forseta, langar mig til að fá að grípa örstutt niður í greinina sem ber yfirskriftina Virkjunarþjóðgarðurinn. Hann lýsir þessu svo, með leyfi forseta:

,,Í þjóðgarði án virkjunar felst hin raunverulega hagsýni því þá gætu Íslendingar varðveitt auðæfi sín og vistkerfi um ókominn tíma og hefðu upp á að bjóða stærsta friðaða svæði Evrópu, einn merkilegasta þjóðgarð heims --- og þetta nútímaviðhorf myndi gjörbreyta umræðu um nýtingu náttúruauðlinda frá fjöru til fjalla og langt út á mið. Landspjöll kosta miklu meira en peninga. Umrótið og afleiðingarnar varða efnahag, sálarheill og velferð okkar og þjóðgarður utan um risanáttúruspjöll sem naga stöðugt auðæfi ,,þjóðgarðsins`` er einfaldlega misskilningur.

Virkjunarþjóðgarður er óhugsandi fyrirbrigði. Þar yrði um að ræða þjóðgarð kringum virkjun sem eyðir þeim landgæðum og þeim þjóðararfi sem einmitt ætti að varðveita innan þjóðgarðsins --- og spillir svo þjóðgarðinum. Þannig stangast virkjunin á við meginmarkmið þjóðgarða: að varðveita líffræði- og jarðfræðilegan fjölbreytileika --- og endurnýjanlegar auðlindir. Virkjunin gengur þvert á hugmyndir um sjálfbæra þróun og getur því ekki farið saman við þjóðgarð --- fremur en stríð og friður fara saman.

Satt er að fleira er virkjanlegt norðan Vatnajökuls. Kreppa er á teikniborði Landsvirkjunar vegna þess að Kárahnjúkavirkjun er óendurnýjanleg auðlind.

Vegna gífurlegs aurburðar myndi hún skreppa saman ár hvert. Kreppu þarf til að redda Kárahnjúkavirkjun og hún myndi heldur ekki duga.

Kárahnjúkavirkjun er botnlaus hít verkfræðirugls.``

Hér leyfi ég mér að enda lestur minn úr þessari grein sem birtist 14. mars í Morgunblaðinu.

[18:15]

Herra forseti. Ég dró þetta fram inn í umræðuna vegna þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur lagt fram þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Hún hefur ekki fengið afgreiðslu og fékk í raun ótrúlega dræmar undirtektir í þingsalnum þegar hún var flutt. Það skýrist nú betur eftir atkvæðagreiðslu og afgreiðslu frv. sem við fjöllum um núna og greinilegt er að hjá þingmeirihlutanum er lítill áhugi á því að þjóðin fái að skera úr um hvernig eigi að nota og nýta hálendið norðan Vatnajökuls.

Við höfum einnig flutt þáltill. um Snæfellsþjóðgarð sem mundi falla mjög vel að þessu svæði. Það væri mjög áhugavert, herra forseti, ef við yrðum stórhugaðri en við vorum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsins sem eingöngu nær yfir jökulhettuna. Betra væri ef Vatnajökulsþjóðgarður næði yfir allan fjallgarðinn, alveg í kringum Vatnajökul og rúmlega það og tæki landfræðilega til þess svæðis sem tengist jöklunum, að sunnan, austan og norðan og mundi þá umlykja Snæfellssvæðið líka. Þar með værum við komin með samfelldan þjóðgarð, sem ég tel að við ættum að teygja norður yfir og yfir Mývatn og út í Skjálfanda. Framtíðarsýn okkar ætti að miðast við að vinna að því.

Þá hef ég rætt aðeins um það sem snýr að náttúru og virkjun. En það sem brennur helst á mér varðandi þetta mál allt saman er sú hugmyndafræði að líta á Noral-verkefnið sem var, Noral-verkefnið sáluga, sem eitt stærsta byggðamál allra tíma. Eftir stendur bara virkjunin. Það er undarlegt að hafa ekki aðra sýn á styrkingu byggðar í hinum dreifðu byggðum, hvort heldur er á Austurlandi, Norð-Austurlandi, Vestfjörðum eða á þeim stöðum sem íbúar hafa verið að flytja burt frá á undanförnum árum og ekki er fyrirsjáanlegt að þeir muni flytja til baka á næstu árum, eða nokkuð breytast. Mesta von okkar í dag er að íbúaþróunin standi í stað en haldi ekki áfram eins og verið hefur.

Herra forseti. Helga A. Erlingsdóttir varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagði fram till. til þál. um að efla og samræma aðgerðir til að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli. Þessi tillaga var lögð fram á 125. löggjafarþingi en fékk ekki afgreiðslu. Þar var komið fram með tillögur um ýmsar aðgerðir til þess að styrkja byggð, ekki bara á Austurlandi, heldur alls staðar í hinum dreifðu byggðum. Þar voru lögð til árleg framlög í fimm ár, 250 millj. kr., til eflingar atvinnulífs í dreifbýli í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuþróunarstarfi á viðkomandi svæðum. Þetta er alveg í þeim anda þáltill. okkar frá því í vetur um sérstakt svæðisbundið átak á Austurlandi. Þessari þáltill. fylgdi góð greinargerð.

Við höfum líka lagt fram till. til þál. um sjálfbæra atvinnustefnu. Þar var Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður okkar, 1. flm. Ef þessi tillaga hefði verið samþykkt og afgreidd hér og eftir henni farið, var hugmyndin sú að fara í verki að vinna eftir markmiðum Ríó-samningsins um Staðardagskrá 21 og Dagskrá 21, vinna að frágangi þessara markmiða stig af stigi og hafa þessi markmið ekki bara í orði heldur einnig á borði. Við höfum allt aðra sýn á atvinnuuppbyggingu og byggðastyrkingu en felst í stóriðju, því hún er ekki, herra forseti, hluti af sjálfbærri þróun og getur aldrei verið. Hugsanlegt væri að fá einhvers staðar í heiminum vatnsafl sem ylli ekki jafnmiklum náttúruspjöllum og Kárahnjúkavirkjun gerir, þ.e. einhverjar rennslisvirkjanir. En þegar við hér á Íslandi erum komin upp í þessa stærð og miðað við þau vatnsföll sem búið er að virkja, eru ekki margir kostir eftir nema þá að fara í Jökulsá á Fjöllum sem ég ætla að vona að fái að vera í friði. Þá erum við komin með virkjun sem getur aldrei verið sjálfbær. Því erum við í raun með vinnu okkar og þessari þáltill. að vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar. Ef við ynnum samkvæmt stefnumótun þeirri sem þáltill. gerir ráð fyrir þá er lögð áhersla á að atvinnuvegir landsmanna lúti lögmálum sjálfbærrar þróunar og miðist við hrein framleiðsluferli og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Það er líka miðað við að skapa nýjum atvinnugreinum á sviði þekkingar og tækni í umhverfismálum hagstæð vaxtarskilyrði og efla þannig atvinnulíf og auka fjölbreytni þess. Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara í gegnum þáltill. En ég vil draga þetta hérna fram.

Síðan vil ég enn og aftur beina þeim orðum til hæstv. forseta, að hann taki sem allra fyrst til afgreiðslu hér í þinginu þáltill. um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni, sem ég kynnti hér, dró aftur fram í umræðunni í gær. Tillagan hefur fram til þessa fengið þinglega meðferð og óska eftir því við hæstv. forseta að þessi þáltill. verði tekin hér til afgreiðslu. Hún hefur verið send til umsagnar þannig að það er frágengið. Staðan er þannig nú eftir að Noral-verkefnið var blásið af að Austfirðingar eru skildir eftir í enn einni biðinni og þó svo að þeir reyni stappa stálinu hver í annan þá er fólk sett í óþolandi aðstæður, þ.e. að bíða. Þess vegna ber okkur skylda til þess að standa fyrir kröftugum aðgerðum núna við þær þær stórframkvæmdir sem bíða og hefði að mínu mati mátt vera búið að fara í fyrir nokkrum árum síðan. Þar má fyrst nefna jarðgangagerð og uppbyggingu í vegagerð. Miðað við hugmyndir Austfirðinga og væntingar margra þá þekki ég það að í Fljótsdalshéraði og uppi á Jökuldal er hópur fólks sem hefur töluverðar væntingar til ferðaþjónustu í tengslum við virkjunarframkvæmdirnar, ef af verður. Það er í sjálfu sér ekkert að hugsa um virkjunina sem slíka eða álverið sem slíkt en sér mikla möguleika vegna fyrirhugaðra vegatenginga sem eiga að koma samhliða virkjuninni.

Ég legg til að við tökum undir þessar tillögur að undanskilinni virkjuninni því auðvitað á virkjun ekkert að vera skilyrði þess að fara í þessar framkvæmdir og byggja upp vegi þannig að hægt verði að nýta öræfin fyrir austan, efla ferðaþjónustu og byggja upp þær ferðamiðstöðvar sem hafa komið fram í sambandi við virkjunarframkvæmdirnar. Þetta eru og eiga að vera alveg sjálfstæðar ákvarðanir, sjálfstæðar framkvæmdir óháðar virkjunarframkvæmdunum, því vitaskuld er hægt að byggja upp og styrkja ferðaþjónustuna með svona hálendismiðstöðum og bættu vegakerfi þó svo að Landsvirkjun greiði það ekki eða leggi ekki vegina. Ég er alveg sannfærð um að það að fara í markvissa uppbyggingu til að nýta þetta svæði mundi skila miklu fyrir svæðið.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir nokkra þætti. En kannski væri áhugaverðast að hamra enn frekar á því að hvetja til þess að nú verði gefið í, ekki eins og kom fram á fundinum á Reyðarfirði, að gefa í og slá í truntuna hvað varðar virkjunarframkvæmdir og stóriðju, heldur gefa í hvað varðar aðra atvinnuuppbyggingu og láta það ekki dragast að bjóða út jarðgöngin á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þau er búið að hanna. Þó svo að núna séu þau samtvinnuð Siglufjarðargöngunum svokölluðu þá hef ég lýst því hér áður að ég telji að það eigi að nýta þann valkost að bjóða þetta út einnig í tvennu lagi, ekki bara í einum pakka heldur hafa frávik, því ekkert segir --- ég er fullviss um það --- að öruggt sé að útboð í þessi tvenn jarðgöng saman muni koma betur út en bjóða þau út hvort í sínu lagi. Þetta má alla vega skoða. Það á að byrja á jarðgöngum fyrir austan og setja síðan upp áætlun og fara í göng á milli Héraðs og Vopnafjarðar í framhaldinu og leggja áherslu á að skapa Austfirðingum þá möguleika sem þeir sjálfir hafa bent á og vilja fara í. Til þess þarf fjármagn. Það fjármagn eigum við að leggja fram. Við eigum ekki að vera með puttana í því hvað þeir ætla að gera í atvinnuuppbyggingu. Ég vona, eftir að hafa kynnt aftur þær tillögur sem við höfum lagt hér fram í sambandi við atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum auk hinna svæðisbundnu á Austurlandi, að við fáum ekki enn og aftur að heyra að við vitum ekkert hvað við viljum og bendum bara á eitthvað annað.

Ef stóriðja er það eina sem skiptir stjórnarliða máli þá eru menn með bundið fyrir bæði augu. Við viljum styrkja fjölbreytt atvinnulíf og við eigum hvorki að þurfa að segja Austfirðingum né öðrum fyrir verkum. Hugmyndirnar eru til hjá heimamönnum sjálfum og þróunarfélögin og atvinnuþróunarfélögin eru þess vel megnug að styðja við fyrirtæki sem þess þurfa með. Þennan þátt eigum við að efla.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu að sinni.