Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 18:30:16 (6971)

2002-04-04 18:30:16# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni, fyrri ræðu minni í því sem kann að verða lokaumræðan um Kárahnjúkavirkjunarmál, fyrst og fremst að gera stöðu mála á Austurlandi og atvinnu- og byggðaþróun þar að umtalsefni. Mig langar að bæta aðeins við það sem áður hefur af minni hálfu komið fram um þau mál og minna á að ég hef krafið hæstv. ráðherra og forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar svara. Ég er ekki uppgefinn enn, herra forseti, við að fá þau svör eða a.m.k. heimta þau og mun að sjálfsögðu ganga eftir því að áður en þessari umræðu ljúki verði einhverjir tilburðir uppi hafðir af hæstv. ríkisstjórn til að svara til um þá stöðu. Til þess hef ég fullan rétt, herra forseti, að krefjast þess að hæstv. ráðherrar, ábyrgðaraðilar þessara mála eða byggðamála, nema hvort tveggja sé, veiti upplýsingar og svari þinginu spurningum sem bornar eru fram í þessum efnum.

Fyrst verður auðvitað að segja, herra forseti, að hún er ótrúleg þessi þráhyggja sem kemur fram í því að þrælast áfram í blindni með þetta mál eins og öllu er orðið háttað og taka það fram yfir öll önnur mál sem ríkisstjórnin og þingið hefði áhuga á að sinna og ljúka afgreiðslu á fyrir þinglausnir, innan fárra virkra daga. T.d. bíður hér, herra forseti, óafgreitt frv. sem bráðliggur á að lögfesta, um breytingar á kosningalögum, þ.e. kosningum til sveitarstjórna. Utankjörstaðaatkvæðagreiðsla er hafin vegna sveitarstjórnarkosninganna laugardaginn 25. maí nk. en þingið hefur ekki haft það af að afgreiða hér óhjákvæmilegar breytingar frá lögum um kosningar til sveitarstjórna, m.a. vegna þess að þessu máli er haldið hér á dagskrá og á fundum og ryður öðru frá sér. Maður spyr sig: Eru allir sáttir við þetta, herra forseti, þegar ljóst er að í raun er fjarað undan þessu máli? Það er strandað. Það er nánast komið aftur á byrjunarreit. Svo ekki sé nú talað um, herra forseti, að þingið hefði ærna ástæðu til að nota hér starfsdag eða svo í að ræða byggðamál. Hvar er byggðaáætlun hæstv. ráðherra, er hún ekki afvelta? Sá málaflokkur er gjörsamlega í upplausn. Byggðastofnun er óstarfhæf og atvinnuþróunarfélögin án samninga um stöðu sína o.s.frv. Hvað um vegaáætlun, nauðsynlega endurskoðun á vegáætlun yfirstandandi árs, þar sem koma þarf fyrir niðurskurði upp á 1.616 millj. kr.?

Það er kominn apríl, herra forseti, ef það skyldi ekki vera öllum ljóst. Það bíða verkefni úti um allt í óvissu vegna þess að það er auðvitað ekki hægt að bjóða út og ekki hægt að vinna með eðlilegum hætti að undirbúningi framkvæmda á þessu sumri fyrr en botn fæst í hvað á að gera og hvað ekki.

Eru þetta eðlileg vinnubrögð, herra forseti? Nei, þingið er ekki að taka tíma í endurskoðun á vegáætlun eða öðrum mikilsverðum málum sem maður skyldi ætla að áhugi væri á að ræða hér og afgreiða. Nei, það er þetta mikla forgangsmál ríkisstjórnarinnar, álver og virkjun sem eru jafnlangt úti í fjarskanum og fyrir tæpum fimm árum síðan. Menn eru í raun nánast á byrjunarreit og kannski að sumu leyti aftan við hann vegna þess að auðvitað er mörgum orðið ljóst hver ósköpin eru hér á ferðinni og vantrúin orðin mjög almenn í landinu á að af þessu óráði verði nokkurn tímann, sem betur fer.

Herra forseti. Það er líka ástæða til að minna á að það sem vegur langþyngst í þessu máli eru hin stórkostlegu óafturkræfu umhverfisáhrif og umhverfisspjöll sem þessum risaframkvæmdum öllum, vatnaflutningum og raski yrðu samfara. Það er í mínum huga langstærsta málið, þ.e. sú gríðarlega stóra óafturkræfa ákvörðun sem í því væri fólgin að fara inn á þetta svæði og hefja í hjarta þess umtalsverða mannvirkjagerð og röskun og breyta eðli þessa svæðis þannig að það yrði aldrei samt á nýjan leik. Það er svo stór ákvörðun fyrir þessa þjóð, sem hefur fengið þetta land til að búa í og gæta, að það yfirskyggir allt annað. Þó að þetta sé 300 milljarða pakki eða hvað það nú er og þó leiða megi að því líkur að af þessu yrði tap og allt það mundu menn væntanlega einhvern veginn klóra sig í gegnum það. En hinu gætu menn aldrei breytt ef þeir fórnuðu því umhverfi og náttúru sem þarna á í hlut.

Ég held líka, herra forseti, að það verði að skoða þetta í tengslum við þá umhverfisvakningu sem hefur sem betur fer orðið hér í landinu og segja má að hafi gengið yfir í hrinum, eins og oft vill verða. Það er enginn vafi á því að 8. áratugurinn var áratugur talsverðrar vakningar og umbóta í þessum málum, þá komu Náttúruverndarráð og margvísleg lagasetning til sögunnar. Hlutum fleytti þá fram. Hér voru gefin út rit og fram komu á sjónarsviðið menn sem höfðu umtalsverð áhrif á þróun mála. Ég hygg að þegar frá líður verði 8. áratugarins, eða tímabilsins fram undir 1970 og fram um 1980, minnst í þessum efnum sem merks kafla. Í því samhengi held ég að að öðrum ólöstuðum verði minnst manna eins og Eysteins Jónssonar og Hjörleifs Guttormssonar.

Eins og stundum vill verða koma á hinn bóginn tímabil þar sem mönnum miðar minna fram á veginn, jafnvel eitthvað afturábak. Það kemur bakslag en síðan nær þróunin sér aftur á strik. Það gerðist alveg tvímælalaust á 10. áratug síðustu aldar með tilkomu umhverfisráðuneytisins og margvíslegrar lagasetningar í framhaldinu og svo í verulegri vakningu, aukinni meðvitund þjóðarinnar um verðmæti landsins og ekki síst miðhálendisins núna á síðustu árum. Þetta sýna skoðanaðkannanir. Þetta sýnir umræðan. Þetta sýna blaðagreinar og margir hlutir aðrir.

Nú geta menn velt því fyrir sér hvort aðeins hafi dofnað yfir þessu á nýjan leik allra síðustu missiri eða mánuði. Ég er ekkert frá því að heiðarlegast og réttast sé að viðurkenna að maður hefur það svolítið á tilfinningunni. Því er ekki að leyna að sá harði slagur sem stóð hér um fyrirhugaða virkjun á Eyjabökkum, þar sem sökkva átti Eyjabökkum, fyrir eitthvert fáránlegasta uppistöðulón sem mönnum hefur nokkurn tímann dottið í hug að byggja í landinu, hefur þar haft sitt að segja. Á marflötum Eyjabökkunum átti að fórna tugum ferkílómetra af ómetanlegu gróðurlandi fyrir mjög grunnt miðlunarlón, uppistöðulón sem var ákaflega óhagkvæmt vegna þess að það var lítill og lélegur vatnsgeymir miðað við þau verðmæti sem í húfi voru. Þá reis upp mjög almenn andstaða í landinu, kraftmikil, sem átti samhljóm hér inni á þingi og allir vita hvernig því máli lyktaði. En kannski hafa menn verið eins og pínulítið dasaðir eftir þá lotu. Maður hefði gjarnan viljað heyra kraftmeiri samhljóm sleginn í andstöðu umhverfisverndarsamtaka almennings og þeirra stjórnmálaafla og stjórnmálamanna sem hafa haft kjark til að standa í lappirnar í þessu máli og eiga heiður skilinn, ekki síst þeir sem hafa risið gegn ofríki flokka sinna og látið það eftir sér að fylgja sannfæringu sinni hér í atkvæðagreiðslum á þingi. Þeir hefðu mátt vera fleiri en heiður og sómi sem það hafa gert er engu að síður samur og mikill.

Herra forseti. Já, 300 milljarða pakki til að leysa atvinnu- og byggðavanda á Austurlandi, segja margir hér. Þeir bæta gjarnan við að svo sé þetta þjóðhagslega óskaplega hagkvæmt. Það er nefnilega það já. Þetta er alla vega mikil fjárfesting. Alla vega verður að taka mikið af erlendum lánum. Hvað er á baksíðu Dagblaðsins í dag? Greiðslur af erlendum lánum þjóðarbúsins hafa tvöfaldast á örfáum árum og greiðslubyrðin af gríðarlega auknum skuldabagga okkar erlendis er svo mikil að þó að vöruskiptajöfnuðurinn sé orðinn jákvæður um milljarða á síðustu þremur mánuðum, á ársfjórðungi, þá dugar það ekki til. Viðskiptajöfnuður er samt neikvæður vegna þess að vextir og afborganir af gríðarlega auknum erlendum skuldum þjóðarbúsins vega orðið svo þungt, halda uppi þrýstingi á gengi krónunnar o.s.frv. Hvað dettur mönnum þá fyrst í hug? Að bæta 300 milljarða fjárfestingu við framkvæmd sem að verulegu leyti yrði fjármögnuð með nýjum erlendum lánum, hundruð milljarða króna erlendum skuldum til að skapa kannski þúsund störf, sem kostar á ársverkið 400 millj. kr., fertugfalt á við það sem má ætla að stofnkostnaður sé af nýjum ársverkum í mörgum öðrum atvinnugreinum. Tífalt á við það sem dýrast er í sjávarútvegi.

Hér er auðvitað á ferðinni fjárfesting sem er náttúrlega alveg úti í hafsauga, að ætla að réttlæta sérstaklega sem slíka, vegna þess að það eigi að skapa störf. Það er nú eiginlega það síðasta sem menn eiga að grípa til. (Gripið fram í: Hver borgar?) Já, hver borgar? Jú, þetta á að nafninu til að standa undir sér en er þó ekki glæsilegra dæmi en svo að Landsvirkjun þorir ekki að stofna um þetta sjálfstætt fyriræki, það gengur ekki, þá hrynur allt. Þetta er ekki glæsilegra en svo, það liggur fyrir. Og hver borgar? Jafnvel þó þetta stæði nú undir sér eða kæmi út á núlli, sem miklar efasemdir eru um, og jafnvel þó við með ýtrustu bjartsýni segjum að það yrðu jákvæðar þjóðhagslegar hliðarverkanir, sem stundum er gripið til þegar allt annað þrýtur, að segja að margfeldis\-áhrifin og tekjur ríkisins af laununum sem þarna skapast vegi upp tap af raforkusölunni, þótt með ýtrustu jákvæðni megi kannski segja að dæmið komi út á sléttu eða skili einhverju í þjóðhagslegu samhengi séð, er eitt nokkurn veginn alveg víst. Það er að fyrstu 25--40 árin fer þetta eiginlega allt í sjálft sig, tekjurnar fara í að borga niður fjárfestinguna, erlendu lánin. Það skilar ekki miklu inn nettó. Og þarf ekki að horfa á það? Jú, sérstaklega ef menn eru mjög skuldugir. Þeim mun skuldugri sem menn eru, þeim mun erfiðara er að ráðast í nýjar fjárfestingar sem skila engu um árabil öðru en að standa undir sjálfum sér. Þetta er einföld hagfræði.

Hvað gera þeir sem hafa litla fjármuni handa á millum og eru ekki í stöðu til að slá mikil lán? Þeir leita að tækifærum til að bæta stöðu sína án þess að hlaða á sig miklum viðbótarskuldum. Ætli heimilin hafi ekki sem betur fer flest rænu á þessu? Jú, það hygg ég vera. Ættum við Íslendingar þá ekki að hugsa að einhverju leyti eins? Það held ég. Þá vill svo vel til að það vantar ekki tækifærin og möguleikana. Það vantar ekki viðfangsefni. Þau eru í kippum á Austurlandi, ekki síður en annars staðar, þar sem áhugaverðir nýsköpunarkostir í atvinnumálum eða fjárfestingar og þróun í starfandi atvinnugreinum bíða úrlausnar en fá ákaflega takmarkaða úrlausn. Hvernig stendur þá á því, herra forseti, að niðurstaðan í þessu máli er að við taki ný bið, a.m.k. upp á eitt og hálft eða tvö ár. Það er lágmark segja þeir sem til þekkja. Jafnvel þó að kraftaverkamennirnir, Finnur Ingólfsson og Friðrik Sophusson, næðu miklum árangri í hringferð sinni milli álrisa heimsins og teymdu einhvern að samningaborðinu eftir sex til níu mánuði þá væri enginn bjartsýnni en svo að halda að það tæki a.m.k. ár í formlegum samningaviðræðum að komast á svipaðar slóðir og menn héldu að þeir væru komnir á í haust sem leið eða í vetur. Ergo: Við erum að tala um hið minnsta eitt og hálft til tvö ár í bið.

Hvað á að gera á meðan, herra forseti? Hvar eru svör ríkisstjórnar og ráðherra til Austfirðinga um það? Á að taka á í samgöngumálum? Við því fást engin svör. Þokukennd loðmulla kom út úr ráðherrum á Reyðarfjarðarfundinum um það mál. Ekki var hægt að svara neinu til um það. Það var ekki einu sinni hægt að gefa skýr svör um hvað af fyrirhuguðum vegaframkvæmdum, sem búið var að lofa mönnum í tengslum við virkjanirnar og stóriðjuframkvæmdirnar, yrði sett í gang eða fram haldið og hverju ekki. Alls ekkert kom í ljós um jarðgöngin.

Hvað um menntamál? Hvað með það sem menn hafa viljað byggja upp t.d. í skógræktarnámi og rannsóknum við Menntaskólann á Egilsstöðum eða verknámi í Verkmenntaskóla Austurlands? Fást svör um það? Fá menn einhvern stuðning í þeim efnum? Nám á háskólastigi á Austurlandi? Hver eru svörin frá meiri hlutanum? Engin.

Nú er nefnilega runnin upp sú stund, herra forseti, að tímabært sé að sumir fari að spyrja: Hvað ætlið þið að gera? Nú er hægt að spyrja þá sem hafa látið þá spurningu standa á þeim hafa leyft sér að andæfa þessum áformum undanfarin misseri: Ef þið viljið ekki álver hvað ætlið þið þá að gera? Þá voru allt í einu hlutverkaskiptin þannig að það var eins og stjórnarandstaðan bæri ein á herðum sínum alla ábyrgð á úrræðum í atvinnu- og byggðamálum.

[18:45]

Það kom ekki ríkisstjórninni við. Nei, hún þurfti engu að svara því hún ætlaði að koma með álverið og leysa vandann. Nú kemur það ekki, a.m.k. ekki enn um langa hríð. Því spyr ég, herra forseti: Hvað ætlið þið þá að gera sem hafið haldið Austfirðingum uppi og á þessu snakki í fimm ár? Hvað á þá að gera? Hvar eru úrræði stjórnarmeirihlutans? Eru það einhverjar aðrar fabrikkur, herra forseti? Eru þær á takteinunum? Á ríkisstjórnin á lager loforð um iðjufyrirtæki og stórframkvæmdir sem aldrei koma eins og Landsvirkjun á að fá að hafa virkjunarleyfin? Á að lagera loforðunum líka, leikritunum sem hægt er að setja á svið til þess að halda mönnum við efnið?

Hvað með heilbrigðismál? Væri ekki ráð að taka Austfirðingafjórðung fyrir þar sem menn hafa m.a. unnið heimavinnuna sína mjög vel, endurskipulagt yfirstjórn heilbrigðismála í fjórðungnum og starfa, að ég best veit, saman nánast yfir allt svæðið? Þar eru miklir ónýttir möguleikar, í sjúkrahúsinu í Neskaupstað og víðar. Hvað með að nýta þá? Hvað með að styrkja þann rekstur? Hvað með aðra opinbera þjónustu sem ríkisstjórnin og stjórnvöld hafa verið að rífa af mönnum undanfarin ár? Þau hafa lokað pósthúsum, símstöðvum og bönkum. Hvað með það? Meira að segja bílnúmerin eru komin til Reykjavíkur, sagði hæstv. forseti Alþingis hér í gær. Allt er það rétt. Væri þá ekki ráð að fara yfir það? Er hægt að styrkja stöðuna, innviði mannlífs og byggðar á Austurlandi, með því að endurskilgreina það þjónustustig almannaþjónustu sem stjórnvöld eru tilbúin til að stuðla að að þarna sé? Fást svör við því? Liggja þau á borðum? Nei. Menn eru sáraóánægðir með það í nánast hverju einasta plássi á Austurlandi þar sem maður hefur farið um að undanförnu hvernig verið er að reyta af þeim þjónustuna. Rafmagnsveitur ríkisins draga saman seglin, draga úr lagerhaldi. Það tekur nokkra klukkutíma að ræsa út menn ef lína slitnar. Póstinum er lokað. Síminn er farinn. Það er ekki hægt að kaupa framlengingarsnúru við síma í heilum landshlutum. Á norðausturhorni landsins þarf a.m.k. til Húsavíkur ef ekki Akureyrar til að kaupa framlengingarsnúru við síma. Þannig er þjónustan sem mönnum er boðin í þessum efnum. Landsbankinn er opinn í tvo tíma á dag, banki allra landsmanna, o.s.frv. herra forseti.

Er verið að taka á í þessum efnum? Nei, þarna hefur hlutunum miðað hratt aftur á bak undir stjórn þeirra sömu manna og hafa spurt: ,,Hvað ætlið þið að gera?`` En við sjáum hvað þeir eru að gera. Þeir halda mönnum uppi á loforðum sem ekki rætast, sem renna út í sandinn, loftköstulum, spilaborgum sem hrynja við hrifningu ofan í hausinn á þeim og valda ákveðnum geðsveiflum eins og við heyrðum hérna í dag. Það sem þeir eru að gera hins vegar eða standa fyrir er það sem landsbyggðin veit vel hvað þýðir og hvað er og upplifir á eigin skinni, þ.e. stórkostleg afturför í almennri þjónustu og verri búsetuskilyrði í stórum stíl á landsbyggðinni. Það er staðreyndin. Það hallar á hana nánast að öllu leyti. Meðaltekjurnar dragast hratt aftur úr meðaltekjum höfuðborgarsvæðisins. Þjónustustigið lækkar og búsetuskilyrðin eru að verða erfiðari undir stjórn þeirra hinna sömu manna og sitja ofan á höndunum á sér gagnvart þessum hlutum, en halda svo að menn gíni við því að þeim sé lofað stóriðju ár eftir ár, sem aldrei kemur. Nei, herra forseti. Ég held að þessi vara gangi ekki vel út. Jafnvel þótt menn hafi kreist fram eitthvert klapp á Reyðarfjarðarfundinum þá efast ég um að hugur hafi fylgt máli í öllum hjörtum sem þar slógu, a.m.k. leyfi ég mér að túlka þann fund ekkert síður þannig en á hinn veginn sem aðrir hafa gert, að þar hafi líka mátt merkja efasemdir og ýmsa undirstrauma, enda væri annað skrýtið, verð ég að segja.

Hvað með ferðaþjónustuna, herra forseti? Er verið að hlúa sérstaklega að henni á Austurlandi? Jú, það má að vísu segja að örlítil viðleitni sé þar í gangi sem stjórnvöld hafi kannski að einhverju leyti komið að. Það er best að vera sanngjarn og viðurkenna þó það sem er, þó í litlu sé, en svo á að heita að verið sé að nudda upp nýrri aðstöðu á Seyðisfirði fyrir stækkaða ferju. Og að einhverju leyti hafa kannski stjórnvöld komið að því að beint flug á nú að hefjast á Austurlandi. En hefur eitthvað meira verið að gert? Hafa stjórnvöld sett í gang markaðsátak í samvinnu við heimamenn til að koma þessu fjarlæga landsvæði inn á kortið í ferðaþjónustunni sem er auðvitað mjög þarft mál að gera, ekki bara í byggðalegu tilliti heldur líka umhverfislegu og út frá því að nýta kosti landsins alls í ferðaþjónustu? Þá á alveg sérstaklega að horfa til norðan- og austanverðs landsins til að dreifa álaginu af ferðaþjónustunni í landinu. Ef við ætlum að taka hér innan fárra ára við einni milljón ferðamanna, hvar eiga þeir að standa, þær tvær milljón lappir? Hvar eiga þær að troða niður grasið? Allar hér á suðvesturhorni landsins? Þá verður nú þröngt í búi hjá smáfuglunum. Nei, er þá ekki betra að reyna að dreifa álaginu og hafa allt landið með, senda menn líka út á Langanes, niður í Víkur og inn á hálendið og annars staðar þar sem við erum búin að skapa góðar aðstæður til að taka við þeim þannig að þeir fari ekki allir Gullfosshringinn og sprangi um á Austurvelli?

Hvað með nýsköpun almennt í atvinnumálum? Er verið að leggja stóraukið fé í nýsköpun, hlúa að smáfyrirtækjum, að frumkvæði kvenna í atvinnulífi? Nei, það ganga ekki út peningarnir í sjóðunum þeirra. Þeir kaupa bréf hver í öðrum. Af hverju? Af því að þeir setja svo ströng skilyrði um arðsemi að það er varla hægt að uppfylla þau í New York og Reykjavík, hvað þá við erfiðar aðstæður í nýsköpun atvinnulífs úti á landsbyggðinni. Og þá náttúrlega bólgna sjóðirnir út og kaupa bréf hver í öðrum. Þannig er nú það. Atvinnuþróunarfélögin eru svelt og hafa enga samninga um sitt starf. Það er ekki vegna þess, herra forseti, að verkefnin séu ekki næg. Það er vegna þess að nýsköpun í atvinnulífi, það að stofnsetja fyrirtæki, er þvílík brekka á landsbyggðinni um þessar mundir að það þarf sérstakan stuðning til. Hann er alls staðar í boði í löndunum í kringum okkur, en ekki á Íslandi. Nei, menn fá upp undir 40% stofnstyrki á byggðaþróunarsvæðum eins og þau eru skilgreind á hinum Norðurlöndunum, líka í Noregi sem er aðili að INTERREG, byggðaáætlun Evrópusambandsins, en ekki á Íslandi, nei. Hvað hefur gerst á Íslandi síðustu árin? Það sem hefur gerst er að menn hafa einkavætt fjárfestingarlánasjóðina og bankakerfið og það hlær að landsbyggðinni ef menn biðja um peninga til atvinnuuppbyggingar þar. Allir sem vilja vita það vita að bankarnir hafa engan áhuga á því að taka áhættu með atvinnulífinu ef það er ekki hér á suðvesturhorni landsins. Það er bara þannig. Það er staðreynd.

Fiskveiðasjóður sem áður lánaði 60% til allra fjárfestinga í sjávarútvegi, hvar er hann? Hann er hluti af eigin fé Íslandsbanka og mér er ekki kunnugt um að Íslandsbanki telji sig hafa sérstakar skyldur við sjávarútveginn. Ég veit að svo er ekki því til mín hafa leitað margir forsvarsmenn minni sjávarútvegsfyrirtækja sem fá þar enga fyrirgreiðslu þó að Fiskveiðasjóður sé þar inni, sem áður tryggði mönnum sjálfkrafa 60% lán á hagstæðum vöxtum til langs tíma. Þá var munur að standa í framkvæmdum í sjávarútvegi, sérstaklega fyrir minni aðila sem ekki hafa greiðan aðgang að fé á markaði sjálfir.

Hvernig er með lítil iðnfyrirtæki á landsbyggðinni? Þau gengu áður að 60% fjármögnun húsbygginga og vélakaupa í iðnaði, líka þó þau væru úti á landi, og þetta voru talin fullgild veð í Iðnlánasjóði. Hvernig er staðan í dag? Stendur slíkt til boða ef menn banka upp á hjá Íslandsbanka? Nei, og ekki heldur Búnaðarbankanum eða Landsbankanum. Húsnæði á landsbyggðinni, ég tala nú ekki um atvinnuhúsnæði á afskekktum stöðum, er ekki talið merkilegt veð. Það er eitthvert veð í persónulegu nafni manna með sæmilega stöndugan fjárhag. Ef þeir leggja sjálfa sig, fjölskyldu sína, íbúðarhúsið sitt, og helst foreldra sinna og systkina undir líka, kann að vera að þeir geti kreist út einhverja peninga, en að áhætta sé tekin að öðru leyti til stuðnings atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni er ekki til í dæminu. Svona er þetta, herra forseti, og það er iðn.- og viðskrh. sem er yfirmaður þessara mála og ætti náttúrlega að vera hér til þess að svara fyrir það hvað eigi að gera í þessum efnum.

Þetta skiptir Austfirðinga máli og alla landsbyggðina, en ekki þetta álver sem hvort sem er kemur ekki. Og hverju væru menn nær á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, í Dölum, Húnavatnssýslu og Skaftafellssýslum, þó svo að þetta einhvern tímann yrði á Austurlandi, ef allar aðrar aðstæður í atvinnu- og byggðamálum breytast ekkert að öðru leyti? Engu.

Herra forseti. Í fiskeldi eru miklir möguleikar. Standa menn að því eins myndarlega og kröftuglega og þörf er á? Nei, ég segi hiklaust nei. Ég tel t.d. ámælisvert að stjórnvöld skuli ekki fyrir sitt leyti hafa stuðlað að miklu meiri rannsóknar- og þróunarvinnu í þorskeldi. Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að vera ekki með í því. Ef eldisþorskur á næstu 10--20 árum ryður sér inn á markaðinn og tekur drjúgan hluta af markaði fyrir hvítfisk, sem villtur Atlantshafsþorskur hefur hingað til haft, hvar standa Íslendingar þá með sína verðmætustu útflutningsafurð? (Viðskrh.: Hvað er á dagskrá?) Á dagskrá eru atvinnu- og byggðamál í tengslum við þetta frv., hæstv. atvinnu- og byggðamálaráðherra. Ætti nú hæstv. ráðherra að fagna því að þeim málaflokki sé sýndur áhugi. En af einhverjum undarlegum ástæðum bregður hæstv. ráðherra oft á það ráð að gerast önug ef þeir málaflokkar sem undir ráðherrann heyra eru teknir hér til umfjöllunar. Það er af einhverjum ástæðum sem er erfitt að skilja, nema ef vera skyldu þær að hæstv. ráðherra vilji sem minnst um þessa hluti tala. Kynni að vera að hæstv. ráðherra byggðamála sé yfirleitt ekkert áhugasöm um að þau mál séu hér á dagskrá?

Á Austurlandi eins og mjög víða annars staðar á landsbyggðinni og öllu landinu, herra forseti, eru auðvitað ýmsir verðmætir staðbundnir möguleikar sem eru fólgnir í náttúrufari, sögu og aðstæðum þessara byggða. Er verið að hlúa sérstaklega að þeim og rækta þá? Ég leyfi mér að segja nei. Maður dáist að einstökum atgervismönnum og frumkvæði einstakra byggðarlaga. Við getum tekið þar Borgarfjörð eystra sem dæmi þar sem menn hafa gert í raun ótrúlega merkilega hluti við erfiðar aðstæður, bæði í því iðnfyrirtæki sem þar hefur risið og í sambandi við ferðaþjónustu. Þeir velja sér svið innan ferðaþjónustunnar til að byggja á og leggja áherslu á það. En er sérstakur stuðningur af hálfu stjórnvalda í gangi í þessum efnum? Ég hef lítið orðið var við hann. Ég hef svo sem ekki farið ofan í það og þekki það ekki algjörlega út í hörgul í þessum einstöku dæmum. En almennt veit ég að svo er ekki. Það er af alveg ótrúlegum vanefnum sem menn eru að reyna að gera eitthvað í þessum efnum. Ég hef m.a. verið að fylgjast með því núna þar sem menn eru í einu ónefndu byggðarlagi að velta því fyrir sér hvort þeir geti ráðið ferðamálafulltrúa í tvo mánuði í sumar. Menn eru að ræða það, sveitarstjórn í byggðarlagi, hvort þeir ráði við þetta dæmi. Eigum við að segja að það sé 500 þúsund kall, herra forseti, sem það kostar að reyna að ráða ferðamálafulltrúa og koma svæði, byggðarlagi, á kortið í ferðaþjónustu?

Hvað með orkuvinnslumöguleika á Austurlandi í smærri stíl? Hefur hæstv. iðnrh. veitt einhver svör um það? Væri nú kannski ráð að dusta rykið af smávirkjanastefnunni, fara aðeins yfir það að e.t.v. væri nú gáfulegra að horfa til þess, a.m.k. jöfnum höndum, í orkupólitík landsmanna næstu 10--30 árin, að í staðinn fyrir að metta þarfir vaxandi almenns notendamarkaðar með yfirfallinu af stórvirkjunum sem menn eru alltaf að rembast við að byggja handa erlendum álfyrirtækjum, væru virkjaðar margar smærri virkjanir? Hefur hæstv. iðnrh. velt þeim möguleika fyrir sér (Gripið fram í.) að stefna að því að mæta hinni almennu orkuþörf næstu 10--20 ára með nokkrum tugum smárra og meðalstórra virkjana vítt og breitt um landið, sem eru hagstæðar bæði frá efnahagslegu og umhverfislegu sjónarmiði, hverra framkvæmdir á byggingartíma falla vel að getu viðkomandi byggðarlags? Verktakar heima fyrir og iðnaðarmenn gætu að mestu leyti annast framkvæmdirnar o.s.frv.

Hefur hæstv. iðnrh., og þó fleiri væru, lesið ævisögu Sigurðar heitins Thoroddsens verkfræðings? Eins og gengur, mun hún heita og er stórmerkileg og skemmtileg bók. Hann er sá maður sem ég fullyrði að á efri árum sínum vissi meira um virkjanir en nokkur annar Íslendingur, enda hafði hann hannað þær flestar og unnið við þau mál meira og minna frá því hann kom heim ungur maður frá námi. Þar varpar hann fram og svarar að hluta til mjög áleitnum spurningum um það að kannski hafi Íslendingar valið vitlausa leið þegar þeir blinduðust af stórvirkjunarstefnunni á sínum tíma. Menn hefðu átt að leggja miklu meiri áherslu á og horfa ekkert síður og jöfnum höndum til þess að nýta hina smærri virkjunarkosti dreift um landið og kosti þess sem það í raun hefur í för með sér, þ.e. öryggi, minna orkutap, viðráðanlegri framkvæmdir sem falla betur að aðstæðum á hverjum stað o.s.frv.

Herra forseti. Niðurstaða málsins er sem sagt sú að möguleikarnir eru bullandi. Það eru næg verkefni og næg tækifæri til að snúa sér að ef menn láta ekki blinda sig þessari álnauðhyggjustefnu sem því miður hefur ráðið för undanfarin ár.

Herra forseti. Ég ætla svo í síðari ræðu minni sem ég hef nú ákveðið að halda af því tilefni að klukkan er orðin sjö og vera kann að hæstv. forseti hafi hug á að fresta fundi, gera kvöldmatarhlé eða jafnvel bara gefa okkur frí þangað til á morgun --- það væri ákaflega vel séð enda vorum við sum hver hér að fram á fjórða tímann í nótt og mættum snemma til starfa --- en ætla ég að nota síðari ræðu mína sem yrði kannski ívið styttri en þessi til þess að ræða að lokum --- og yrði það minn svanasöngur í þessari umræðu um Kárahnjúkavirkjunina sem aldrei rís --- um verðmæti svæðisins norðan og austan jökla. Svo vill til að ræðumaður þekkir sæmilega til þess. Það er sá hluti hálendis Íslands sem ég þekki langbest og ég viðurkenni fúslega að ég er bundinn honum tilfinningalegum böndum. En ég held að jafnvel væri ástæða til, herra forseti, áður en þessari umfjöllun allri saman lýkur að við ræddum einhvern tímann, ekki bara í almennum orðum um að þarna sé stórt og fallegt og ósnortið víðerni, heldur færum yfir þær perlur í náttúrufari og sögustöðum og almennri fegurð sem þarna er að finna. Ég skal reyna að standa mig í því stykkinu á morgun, herra forseti.