Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 10:40:20 (6974)

2002-04-05 10:40:20# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta félmn. Þær athugasemdir sem ég hef við frv. að gera eru mjög hliðstæðar þeim sem komu fram í máli framsögumanns 1. minni hluta og með smáyfirlegu hefði e.t.v. mátt sameina nál. 1. og 2. minni hluta. En hlutirnir gerast hratt í félmn. og það átti ekki síst við um þetta mál sem hefði auðvitað þurft að vera búið að afgreiða fyrir löngu.

Í fyrsta lagi er í nál. mínu gagnrýnt hversu seint frv. kom fram. Það er náttúrlega mjög bagalegt að Alþingi skuli vera með þetta enn til meðferðar. Frv. kom skömmu áður en utankjörfundaratkvæðagreiðsla átti að hefjast og nú er hún hafin lögum samkvæmt fyrir nokkrum dögum. Það er auðvitað ekki eins og hlutina ætti að bera að, að á þeim tíma sé Alþingi enn með þetta í höndunum. Ekki er við félmn. að sakast því að þar var reynt að vinna að málinu eins hratt og kostur var. Nefndin var reyndar tilbúin með málið fyrir páska, en sérkennileg forgangsröðun ríkisstjórnar, meiri hluta eða forseta á þingmálum hefur valdið því að málið hefur verið sett aftur fyrir önnur sem að sjálfsögðu hefðu frekar átt að bíða eins og hið arfavitlausa og tilgangslausa frv. um Kárahnjúkavirkjun.

Þessi seinagangur á málum, herra forseti, --- það er nefnt í nál. 2. minni hluta og það má kannski viðurkennast að vera pínulítill stráksskapur, en þar er spurt hvort þetta stafi af því að ríkisstjórninni hafi ekki verið ljóst að til stæði að kjósa til sveitarstjórna í vor og það væri auðvitað mjög merkilegt ef ríkisstjórn Íslands hefði ekki áttað sig á þeirri staðreynd. Má í því sambandi nefna að hæstv. félmrh. er giftur borgarfulltrúa í Reykjavík og það er ótrúlegt sambandsleysi á því heimili ef það hefur ekki komist til skila til félmrh. að kjósa eigi í vor.

Sömuleiðis var fyrrv. menntmrh. sem sat í ríkisstjórninni fram undir páska kominn í framboð í Reykjavík og það er með ólíkindum að hann skuli ekki hafa áttað sig á þessu fyrr en nokkrum dögum áður en hann bauð sig fram að kjósa ætti hér í vor. Hvað var ríkisstjórnin að hugsa í þessu máli að koma ekki þessum lagfæringum á kosningalögunum til sveitarstjórna fram fyrr en komið var inn á útmánuði? (Gripið fram í: ... í júlí.) Já, þetta vekur áleitnar spurningar, herra forseti, um verklagið í ríkisstjórninni og sambandsleysið milli manna. Það verður að segjast eins og er. Allt er þar á eina bókina lært meira og minna.

Yfirleitt eru breytingar samkvæmt frv. eðlilegar lagfæringar. Það er til samræmis við þær breytingar sem þegar er búið að gera á gildandi lögum eða eru nú í gildandi lögum um kosningar til Alþingis. Ég man ekki nákvæmlega hvenær við lagfærðum kosningalög til Alþingis í kjölfar stjórnarskrárbreytinga en það er alllangt um liðið síðan þeirri vinnu lauk þannig að ekki verða rök heldur sótt í það að menn séu að dauðyflast með þetta af hálfu félmrn. svona seint eins og raun ber vitni.

Ég ætla að gera tvö atriði að umtalsefni og það eru þau hin sömu og gerð voru áðan. Það fyrra varðar kosningarrétt erlendra ríkisborgara til sveitarstjórna og það eru tveir þættir þess máls sem mér finnst skipta mestu. Það eru annars vegar hin efnislegu ákvæði í lögunum og hins vegar hugsunarhátturinn, hugmyndafræðin á bak við það að hafa girðingar gagnvart því að nýir borgarar í samfélagi hafi rétt til þess að vera þátttakendur í stjórnum sveitarfélags síns. Mér finnst hún alveg gersamlega út í hróa hött, svo ég noti eitt nýjasta máltækið í tungunni. Hvaða hugsun er á bak við það ef ágætir nýir borgarar í sveitarfélagi hafa sett sig þar niður, flutt þangað lögheimili sitt, eru þar með fjölskyldur sínar, að þeir skuli ekki vera boðnir velkomnir m.a. með því að menn vilji fá þá sem þátttakendur um ákvarðanatöku um málefni byggðarlagsins eða sveitarfélagsins. Þetta er alveg gersamlega arfavitlaus hugsun, arfur frá löngu liðinni tíð þegar menn voru heldur á bremsunum og vildu ekki annað en að gömlu rótgrónu fjölskyldurnar hefðu forræði mála hjá viðkomandi sveitarfélagi. Tímarnir eru bara svo algerlega breyttir í þessum efnum. Fólk er miklu meira á hreyfingu og það skiptir miklu máli að bjóða fólk velkomið og fá það strax til að vera virkir þátttakendur í stjórnum samfélaga sinna. Þetta er lærdómurinn m.a. sem menn hafa dregið annars staðar á Norðurlöndunum af því að þróast í átt til fjölmenningarlegra samfélaga, að ein hættan í þeirri þróun er sú að ákveðnir hópar einangrist og verði ekki virkir þátttakendur í samfélaginu. Það verði hverfamyndun eða gettóamyndun, þar sem heitir á sænskunni ,,bolig segregering`` og hún hefur m.a. í sér fólngar þær hættur að einhverjir hlutar samfélaganna, t.d. ákveðin hverfi í borgum verði algerlega óvirk. Liður í því að berjast gegn þessu er auðvitað að þetta fólk fái strax eða sem allra fyrst fullgild réttindi í samfélaginu og reynt sé að virkja það til þátttöku og ákvarðanatöku o.s.frv. Þess vegna á að snúa þessu algerlega við. Hugsunin í löggjöfinni, í lögum um málefni útlendinga, í sveitarstjórnarlögum og hvað varðar kosningar t.d. til sveitarstjórnarstigsins, á að vera sú að bjóða þetta fólk velkomið og reyna að fá það með frá byrjun og gera það að virkum þátttakendum strax. Þess vegna tel ég að í raun og veru ættu erlendir ríkisborgarar hvort sem heldur eru norrænir eða aðrir að fá slík réttindi samstundis eða mjög fljótt.

[10:45]

Á hinum Norðurlöndunum eru málin eins og kunnugt er þannig að enginn greinarmunur er gerður á Norðurlandabúum. Þeir fá allir, án tillits til þjóðernis, sömu réttindi um leið og þeir fullnægja sömu skilyrðum í sínum sveitarfélögum, hafa flutt þangað lögheimili sitt og sett sig þar niður til varanlegrar búsetu, a.m.k. um skeið. Þessa njóta erlendir námsmenn á hinum Norðurlöndunum. Þeir eru ófáir. Ætli Íslendingum þyki ekki nokkurs um vert að þúsundir erlendra námsmanna og Íslendinga búsettra á hinum Norðurlöndunum, sem enn hafa íslenskt ríkisfang, njóti þessara réttinda? Er þá við hæfi að hér, á árinu 2002, afmælisári Norðurlandaráðs sem verður fimmtugt á þessu ári og hátíðahaldaári hinnar norrænu samvinnu, ætli Ísland að skera sig úr leik með þeim hætti að viðhalda í lögum gamalli aðgreiningu af þessu tagi? Þetta er mjög klaufalegt, herra forseti, og dapurlegt reyndar að einn af kempunum úr norrænu samstarfi, hæstv. félmrh. Páll Pétursson, sem um tíma gekk undir nafninu Palle Pedersen eins og kunnugt er, af því að hann var kannski fullt eins mikið á norrænum vettvangi og hér heima, skuli bera fram þetta mál. Þarna hefur orðið einhver fingurbrjótur, herra forseti, sem mér finnst að við hefðum átt að ná saman um að laga.

Efnislegu rökin fyrir því að viðhalda þessu hef ég engin heyrt, í raun og veru. Ég spyr reyndar eftir þeim, lýsi eftir þeim: Hver eru hin efnislegu rök fyrir því að halda þessum rétti frá öðrum norrænum borgurum hér á landi í þau ár sem frv. gerir ráð fyrir?

Ég hef þar af leiðandi flutt brtt. og mæli fyrir henni í leiðinni, herra forseti, um að þetta verði þannig að danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar --- undir þessi ríkisföng falla líka sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland þannig að það er ekki vandamál --- fái hér sambærilegan rétt og Íslendingar, sem og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í tvö ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum. Þarna gengjum við Íslendingar til jafns við Finna sem hafa skipað sér í fylkingarbrjósti þess að bjóða nýja borgara velkomna í löggjöf sinni. Þannig er fyrri brtt. mín.

Hin síðari varðar þetta með rafrænu kosningarnar, a.m.k. færslu rafrænna kjörskráa. Ég tel að það hefði mátt ganga þannig frá að opna vissa möguleika fyrir sveitarfélög sem hefðu viljað þróa aðferðafræði sína, að þau gætu t.d. sett upp rafræna kjörstaði til hliðar við hefðbundna. Segjum að menn hefðu viljað byrja á að prófa það og settir hefðu verið upp í Reykjavík eða á Akureyri einn eða tveir rafrænir kjörstaðir. Menn hefðu getað valið hvort þeir hefðu farið á þá eða hina hefðbundnu. Það hefði ekki átt að þurfa að skapa vandamál. Hið sama gildir um rafræna kjörskrá sem hefur í raun og veru mikla yfirburði. Það er augljóst mál og ættu allir að viðurkenna sem þekkja eitthvað til kjörskrárgerðar og vandamála sem tengjast kjörskrárfærslu að það að hagnýta hina rafrænu tækni hefur gríðarlega kosti.

Hugsum okkur bara allar breytingar á kjörskránni, kærur og annað því um líkt sem koma til og að kjörskrána sé hægt að lagfæra fyrirhafnarlaust án nokkurs pappírs alveg fram á síðasta dag. Um þetta þarf að sjálfsögðu að setja reglur og þarf að vera festa í því hvernig þetta er gert, það er manni ljóst, en ég er algerlega sannfærður um að að því rekur að menn taki þessa tækni í þjónustu sína að þessu leyti. Það mun hafa mikla kosti í för með sér þegar þar að kemur.

Hitt er ljóst, herra forseti, að nú þegar er kominn er 5. apríl. Tíminn er ekki lengri en raun ber vitni fram að sveitarstjórnarkosningunum í maí og mér er ekki kunnugt um að sveitarfélög hafi, vegna þess hvernig lögin eru, lagt í mikla vinnu í þessu efnum. Slíkt atriði er þannig orðið ópraktískt, ef svo má að orði komast, og kann vel að vera að það hafi ekkert upp á sig að setja svona ákvæði inn í lögin, þ.e. heimildarákvæði eða bráðabirgðaákvæði eins og ég hef engu að síður flutt brtt. um. Það er kannski heldur leiðinlegur svipur á því að láta að fella svona ákvæði þannig að ég ætla að skoða hvort ég kalla þessa tillögu frekar til baka en að láta hennar bíða þau örlög hér að verða felld. Mér fyndist ankannalegt ef Alþingi Íslendinga felldi tillögu um að menn mættu þróa áfram og gera tilraunir með rafræna tækni á þessu sviði.

Það kann e.t.v. að skýrast í umræðum með því að hæstv. félmrh. heiðri umræðuna með því að segja nokkur vel valin orð og tjái sig jafnframt um þennan þátt, þ.e. hvort hæstv. ráðherra sjái einhverja meinbugi á að svona heimildarákvæði kæmi inn, jafnvel þó að tímans vegna og aðstæðna á þessu vori yrði það ekki nýtt. Það væri þá þarna og annaðhvort mætti það þá nýtast næst eða menn yrðu búnir að breyta löggjöfinni og taka inn bein ákvæði í lögin um kosningar til sveitarstjórna sem opna mundu fyrir þessa möguleika.