2002-04-05 12:09:30# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er einn flutningsmanna þessa frv. Hvers vegna? Jú, ég tel að við eigum ekki annarra kosta völ en að samþykkja þetta frv. sem við í rauninni tvívegis áður höfum samhljóða tekið jákvæða afstöðu til á Alþingi. Einhverjir kunna að hafa setið hjá eða greitt atkvæði gegn því, en yfirgnæfandi meiri hluti var alla vega samþykkur þessu frv. eða sams konar frumvörpum.

Ég tek hins vegar undir þau varnaðarorð sem hér hafa verið höfð uppi, m.a. af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Mér finnst ábendingar þeirra fullkomlega réttmætar. Það er réttmæt ábending að þetta frv. hefði átt að koma fram fyrr þannig að okkur hefði gefist tóm til að fara betur í saumana á þessum málum. Ég tek einnig undir það að þetta á ekki að vera neitt sjálfsafgreiðslumál. Það er rétt ábending hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að hér er um geysilegar upphæðir að ræða sem við eigum að ígrunda vel hvernig við höldum á.

Hér hefur verið rakinn aðdragandi þessa máls, en sem kunnugt er sögðu vátryggingafélög upp ábyrgðartryggingum flugrekenda í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. Í kjölfarið gengust ríkisstjórnir víðs vegar um heiminn í ábyrgð fyrir flugfélögin. Við erum í rauninni að fara að dæmi annarra þjóða, Bandaríkjamanna og Evrópuríkja, þegar við gerum slíkt hið sama.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þetta frv. kveður á um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila. Ég vil leggja áherslu á að þetta er heimild. Það er unnt að hverfa frá þessu fyrirkomulagi fyrr ef ástæða þykir til. Mér finnst eðlilegt að efh.- og viðskn. skoði þessi mál eftir þessa lagasetningu, eftir að frv. hefur verið lögfest, því að við eigum ekki annarra kosta völ og um það deilir enginn. Enginn deilir um það eða a.m.k. fáir. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kann að hafa uppi gagnrýni. En aðrir hafa lýst samþykki við frv. að öðru leyti. Menn greinir á um tímasetningar. Við eigum ekki annarra kosta völ en að framlengja þessa heimild nú. Hún fellur úr gildi að öðrum kosti 10. apríl og þá stöndum við frammi fyrir því að vera einangruð og án samgangna við umheiminn. Með þessu fyrirkomulagi tekst okkur að halda tryggingum niðri, þ.e. með þessari bakábyrgð ríkissjóðs þannig að þetta er að sjálfsögðu öllum landsmönnum til góðs.

Ég hvet til þess að við förum rækilega í saumana á þessum málum í vor, sumar og þegar þing kemur saman að nýju og ég legg áherslu að hér er fyrst og fremst um heimildarákvæði að ræða. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum styðja þetta frv.