Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 13:32:27 (6997)

2002-04-05 13:32:27# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér virðist vera eitthvert los á því að menn átti sig alveg á hvað verið er að greiða atkvæði um. Þetta gengur einfaldlega út á að Íslendingar tryggi öðrum norrænum ríkisborgurum sama rétt hér á landi til kosninga til sveitarstjórna og við njótum annars staðar á Norðurlöndunum þannig að norrænir borgarar hér, námsmenn og aðrir, njóti sambærilegra réttinda á Íslandi og Íslendingar njóta annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er augljóst sanngirnismál og á að vera hluti af því að við stöndum okkur í norrænu samstarfi. Á norrænum vettvangi er vinna í gangi sem miðar að því að leggja niður hindranir af þessu tagi, ,,grænseløst Norden`` heitir það, og það væri algjörlega á skjön við það sem menn eru með á dagskrá í norrænu samstarfi ef hér sæti eftir í löggjöf uppi á Íslandi mismunun af þessu tagi þar sem aðrir norrænir ríkisborgarar fá ekki að njóta á Íslandi sama réttar og við njótum í þeirra löndum. Þarna á að ríkja gagnkvæmni og ég hvet hv. alþingismenn til að styðja þessa tillögu. Það er alveg einboðið.