2002-04-05 14:45:05# 127. lþ. 112.5 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um framlengingu á heimild ríkissjóðs samkvæmt lögum 120/2001 til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndarmenn héldu svokallaðan ,,ekki-fund`` og leituðu álits hjá Baldri Guðlaugssyni og Ingva Má Pálssyni frá fjármálaráðuneyti, Sigurði Helgasyni og Halldóri Vilhjálmssyni frá Flugleiðum, Lárusi Atlasyni frá Atlanta og Sólrúnu Halldórsdóttur frá Sjóvá-Almennum. Töluvert var rætt um þetta mál. Nefndin er sammála um að ástæða sé til að samþykkja frv. en undir nál. rita tveir nefndarmenn með fyrirvara.

Nefndin bendir á að heildarábyrgð ríkissjóðs hefur lækkað úr 27.000 millj. bandaríkjadollara í 2.200 millj. bandaríkjadollara frá því að málið kom fyrst til kasta Alþingis. Ástæðan fyrir þessari lækkun er að tryggingarkrafan hefur lækkað, grunnfjárhæð tryggingar sem flugfélögin tryggja sjálf hefur hækkað úr 50 millj. bandaríkjadollara í 150 millj. bandaríkjadollara, og enn fremur hefur verið sett þak á ábyrgð gagnvart hverju einstöku flugfélagi sem takmarkast nú við tjón vegna einnar flugvélar. Fyrirkomulag þessara mála hérlendis hefur verið í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast annars staðar. Tekið hefur verið þátt í almennri þróun í þessum málum, þar á meðal skoðað samstarf við önnur ríki en af því hefur ekki orðið. Þess vegna hefur Ísland ekki tekið þátt í slíku þrátt fyrir að umræður um það hafi farið fram.

Þá liggur einnig fyrir að þessi trygging er veitt í hvert skipti til mjög skamms tíma og aðeins framlengd ef nauðsyn krefur. Þannig er væntanlega veitt til tveggja mánaða í þetta skipti eða út maí og miðað er við að hægt sé að endurskoða málið þá. Hafi aðstæður þá skipast þannig að ekki sé þörf á þessari tryggingu af hálfu ríkisins verður hún ekki lengur veitt. Þannig er reynt að fara svipaða leið og aðrar þjóðir fara, og ekki verið að taka meiri áhættu á ríkissjóð en brýnasta nauðsyn krefst.