Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:08:14 (7028)

2002-04-05 16:08:14# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason og formaður iðnn. hefur til umfjöllunnar í nefndinni hjá sér byggðaáætlunina. Hún hefur að vísu verið mjög umdeild og illa unnin. Ég mundi telja mun nær fyrir byggðir á Austfjörðum og Vestfjörðum, reyndar byggð um allt land, að hv. þm. og formaður iðnn. mundi beita kröftum sínum og vinnu í að koma þessari byggðaáætlun fram.

En byggðaáætlunin er bara áætlun. Hingað til hefur skort fjármagn. Ég á eftir að sjá að hv. þm. sjái til þess að henni fylgi nægilegt fjármagn. Má ég minna á að á Vestfjörðum, á Ísafirði, var fyrir einu og hálfu ári sett upp útibú eða deild frá Matra til þess að vinna að þróun í fiskvinnslu og fiskiðnaði. Það kostaði í kringum 2 millj. kr. að reka það áfram. En á síðasta hausti og í vetur fannst ekki fjármagn til að halda þessu úti. Það voru raunverulegar aðgerðir í byggðamálum.

Það er ekki nóg að gaspra um áætlun ef því fylgir ekki hugur. Það eru einmitt hin litlu verkefni sem skipta máli og á að stuðla að, en ekki segja bara: Þetta er svo lítið og hefur engin áhrif, tölum frekar í hundruðum milljarða króna. Ég er sannfærður um að það væri nær fyrir hv. þm., í staðinn fyrir að eyða tímanum í frv. um að veita virkjunarleyfi til álverksmiðju sem er búið að blása af, að vinna að því að koma byggðaáætluninni áfram.