Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:46:18 (7036)

2002-04-05 16:46:18# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú er 3. umr. um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar að niðurlotum komin þó að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs láti engan bilbug á sér finna og gætu staðið lengur í ræðustóli og flutt áfram efnismiklar ræður í málinu eins og þeir hafa gert hingað til. En þar sem þessi þingfundur er kominn fram á síðustu mínúturnar ætla ég að láta nægja í lokaræðu minni að geta um nýjar upplýsingar í málinu. Ég er viss um að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gaman af að heyra þær upplýsingar og sömuleiðis hv. formaður iðnn., Hjálmar Árnason, en ég er einmitt að koma af samráðsfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir. Þar flutti forstjóri fyrirtækisins, Friðrik Sophusson, ræðu. Hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa klifað á því að um arðbæra framkvæmd sé að ræða, það hefur verið ítrekað í hverri ræðunni á fætur annarri, og því tel ég þessum hv. þingmönnum hollt að heyra eftirfarandi boðskap forstjóra Landsvirkjunar úr ræðu sem hann flutti rétt áðan á Grand Hóteli hér í Reykjavík. Með leyfi forseta, sagði forstjóri Landsvirkjunar:

,,Það er álit allra undirbúningsaðila að verkefninu hafi miðað vel`` --- þ.e. Noral-verkefninu --- ,,og ljóst að það sé að öllum líkindum arðsamt`` --- að öllum líkindum arðsamt --- ,,fyrir alla hlutaðeigandi aðila.``

Já, herra forseti. Forstjóri Landsvirkjunar viðurkennir veikleikana í málinu. Hann lætur svo um mælt á þeim fundi sem stendur nú yfir á Grand Hóteli að verkefnið sé að öllum líkindum arðbært en hann fullyrðir ekki á sömu nótum og hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa gert hver á fætur öðrum um arðsemi verkefnisins.

Ég vil vekja athygli Alþingis á öðru, herra forseti. Forstjóri Landsvirkjunar predikar, eða boðar, heiðarlega og opna umræðu um þessi mál gerist sekur um að segja ósatt um tölur, segja ósatt um stækkunaráform álvera í landinu. Það er til skammar þegar stórt opinbert fyrirtæki á borð við Landsvirkjun leyfir sér að láta frá sér fara efni í prentuðu máli þar sem rangt er farið með tölur um stækkunaráform sem uppi eru hjá stóriðjufyrirtækjunum á Íslandi. Þau eru stórlega færð niður. Þau eru meira að segja færð langt niður fyrir það sem getið er um í greinargerð Orkustofnunar sem fylgir frv. hæstv. iðnrh. sem fylgiskjal.

Það er gífurlegt misræmi milli þess sem Landsvirkjun gefur út á yfirstandandi samráðsfundi og þess sem getið er um í greinargerð Orkustofnunar. Orkuþörfin sem Landsvirkjun segir vera í farvatninu fyrir stóriðju á næstu árum er talin samkvæmt því sem þar er gefið upp 12.000 gígavattstundir meðan frv. iðnrh. og greinargerð Orkustofnunar gerir ráð fyrir 22.200 gígavattstundum í stóriðju sem stóriðjufyrirtækin hafa, formlega eða óformlega, óskað eftir.

Nú spyr ég hæstv. iðnrh.: Hvað ætlar hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir mikilli stækkun stóriðjufyrirtækja á Íslandi? Ætlar hæstv. iðnrh. að ganga þá píslargöngu sem hún nú hefur gengið fyrir Reyðarál hf. og Norsk Hydro sem gengið er úr skaftinu fyrir Ísal og Norðurál þegar barið verður af hörku og alvöru á dyrnar varðandi stækkun þar? Og ætlar þá hæstv. iðnrh. að ganga fremst manna og berjast fyrir því að 22.000 gígavattstundum af vatnsafli íslenskra jökulvatna og bergvatnsáa verði eytt á altari stóriðjunnar? Ég segi við hæstv. iðnrh.: Það væri feigðarflan og ég get ekki óskað hæstv. ráðherra góðrar ferðar í slíka för. En vísbendingarnar eru nægar, þær getur að líta í greinargerð Orkustofnunar sem hæstv. ráðherra gerir svo hátt undir höfði að hún lætur fylgja sem fylgiskjal með frv.

Herra forseti. Ekki er hægt að ljúka þessari umræðu án þess að gagnrýna enn eina ferðina þá herför gegn landinu sem á að fara í eingöngu til þess að Landsvirkjun geti eignast á lager fleiri virkjunarleyfi. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að enn lifir og vakir virkjunarleyfið um gömlu Fljótsdalsvirkjun einhvers staðar í fórum Landsvirkjunar, gefið út 1991 af þáv. hæstv. iðnrh. (Iðnrh.: Hjörleifi Guttormssyni.) Nú ætlar hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir að fá í sinn vasa heimild til að gefa Landsvirkjun leyfi til að virkja við Kárahnjúka stærstu virkjun sem möguleiki er á að framkvæma hér Íslandi.

Ég gagnrýni harðlega að Landsvirkjun skuli vera gert heimilt að safna á lager virkjunarleyfum fyrir stóriðjufyrirtæki sem guð einn veit hvort nokkru sinni verða látin rísa á Íslandi. Og guð forði íslenskri þjóð frá því að nokkur af þeim áformum um stóriðjuuppbyggingu líti dagsins ljós. Það er sannarlega hægt að láta í ljósi þá ósk að stjórnvöld snúi af villu síns vegar og heyi atvinnuuppbyggingu á öðrum nótum en þeim sem hæstv. iðnrh. hefur boðað og lagt sig fram um að hér verði.

Lokaorðin í máli mínu, herra forseti, koma úr sama ljóði og ég vitnaði til í ræðustóli í umræðunni í gær. Það er ljóð Friðriks Hansens sem hann orti líklega veturinn 1911/1912 þar sem hann var staddur á Sleðbrjóti í Jökulsárhlíð og mun hafa verið þar kennari. Þar orti hann mikið og fagurt ljóð til Jöklu. Eitt erindi þessa mikla ljóðabálks á vel við sem lokaorð í þessari umræðu, og það er svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

  • Þig getur ekkert afl í heimi bundið
  • og enginn brýtur gígjustrenginn þinn.
  • Og hvenær verður meira og fegra fundið
  • en finna að ekkert bugar kraftinn sinn?
  • Þú hlærð svo frjáls að hlekkjum þúsund ára
  • því hjá þér vaggar frjáls hin minnsta bára.
  • Herra forseti. Mín ósk er sú að bára Jöklu fái að renna frjáls um gljúfrin miklu næstu þúsund ár.