Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 17:03:46 (7038)

2002-04-05 17:03:46# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að hv. fyrrv. þm. og hæstv. fyrrv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, fái að njóta sannmælis héðan úr ræðustóli. Ég gagnrýni hæstv. iðnrh. fyrir að hún skuli láta að því liggja að það megi hengja Fljótsdalsvirkjun um háls Hjörleifi Guttormssyni. Það er ekki svo. Hæstv. ráðherra veit vel að Hjörleifur Guttormsson hefur verið fullkomlega einlægur í baráttu sinni fyrir annars konar atvinnuuppbyggingu en þeirri sem byggir á stóriðju. Ég bið hæstv. ráðherra um að láta hæstv. fyrrv. iðnrh. njóta sannmælis héðan úr þessum ræðustóli.

Herra forseti. Ég mótmæli einnig þeim ummælum hæstv. iðnrh. að ekki séu til viðurkenndar aðferðir til að meta land. Ég hef vikið að því í löngu máli í ræðum mínum í umræðunni hvernig hagfræðingar telja að þær aðferðir sem ætlaðar eru til að meta land séu orðnar svo vel reyndar að þær séu orðnar viðurkenndar. Bandaríkin eru nefnd sérstaklega til sögunnar og ég hef vitnað í máli mínu til virtra hagfræðinga á Íslandi sem telja að þeim aðferðum hafi fleygt fram á seinni árum og hafa ekki talið neitt því til fyrirstöðu að þær verði notaðar við mat á verðgildi lands norðan Vatnajökuls. Og þessir íslensku hagfræðingar hafa gengið lengra. Þeir hafa margir hverjir sagt að það sé í hæsta máta óeðlilegt að þeim aðferðum sé ekki beitt hér. Þess vegna segi ég við hæstv. iðnrh.: Það er óeðlilegt þegar við eigum viðurkenndar aðferðir að stjórnvöld skuli ekki beita sér fyrir því að þeirri mælistiku sem þar er í hendi sé beitt á verkefnið.

Herra forseti. Varðandi svæðisskipulag miðhálendisins þykir mér vænt um að hæstv. ráðherra skuli vera búin að átta sig á því að hún var að fara með rangt mál þegar hún vændi mig um að segja ekki rétt frá varðandi svæðisskipulag miðhálendisins. Ég veit í hvaða farvegi málin eru þar. Þau eru í samræmi við sjónarmið þeirra sem vilja stóriðju allt í íslensku atvinnulífi.