Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:07:01 (7055)

2002-04-08 11:07:01# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er í raun nokkuð sterkur því að hér er verið að leggja niður embætti yfirmatsmanns á ull, og ástæðuna fyrir því að ég hef þennan fyrirvara ætla ég að rekja hér í nokkrum orðum.

Árið 1990 var þetta embætti sett á laggirnar og það kom ekki til af góðu. Þá hafði gengið yfir hrina gjaldþrota fyrirtækja sem voru í ullariðnaði og ástandi á mati á ull var mjög ábótavant. Þótti rétt að koma þeim málum betur í lag, kenna matsmönnum rétt vinnubrögð, samræma vinnubrögð, halda uppi fræðslu og tryggja rétta meðferð ullar og húða þannig að sem mest verð fengist fyrir ullina og þar af leiðandi að bændur fengju sem best kjör fyrir afurð sína.

En nú er öldin önnur. Eingöngu eitt fyrirtæki kaupir ull, það er fyrirtækið Ístex, sem er orðið eina fyrirtækið á þessum markaði í dag og allur ullarþvottur fer fram á þess vegum í Ullarþvottastöðinni í Hveragerði, og líklegt er að þessar aðstæður og hið lága verð á ull núna um nokkuð langan tíma hafi orðið þess valdandi að menn vildu þarna spara og telja að ullarmatið sé best komið í höndum þess fyrirtækis sem kaupir ullina, sem er bara eitt, og þá afurðastöðvanna ef þau vilja hafa ullarmatsmenn.

Fyrir tveimur árum voru alls starfandi 33 ullarmatsmenn í landinu sem fengu reglubundna þjálfun. Yfirmatsmaður, sem hefur verið starfandi allan þennan tíma, er Kristinn Arnþórsson. Hann hafði líka það hlutverk að sjá til þess að vinnuaðstaða eftirlitsmannanna væri fullnægjandi þannig að þarna kom utanaðkomandi aðili, hlutlaus gagnvart afurðastöðvunum, gagnvart ullarkaupandanum og hlutlaus gagnvart bændum. Hlutverk hans sem úrskurðaraðila var að sjá um fræðslu. Og ég óttast auk þess, herra forseti, að með því að leggja niður þetta embætti muni það örugglega auka álag á ullarmatsnefndina sem á að starfa áfram og þarf þá að gera ráð fyrir því að hún hafi möguleika á að sinna fleiri verkefnum og fá fjármagn til þess að sinna að hluta því starfi sem yfirmatsmaður hefur sinnt fram að þessu. Í raun og veru er það kostnaður við embættið sem er undirrót þessara breytinga. Það er ekki það að menn viðurkenni ekki að slíka menntun þurfi áfram, heldur hefur þurft eftir því sem ég fæ upplýsingar um, að taka fé af kjötmatsgjaldinu og nota það á ull, í ullarmatsgjaldið, og vegna lágs vöruverðs er jú verið að spara. En ég er hrædd um, herra forseti, að þetta geti farið í sama farið aftur, að ullarmatið verði ekki í þeirri þróun sem það hefur verið og að þessi hlutlausi aðili með þá ábyrgðarskyldu sem hann hefur hvað varðar menntun skili sér innan fárra ára í flokkun á ull og meðferð á ullinni. Hann er líka hlutlaus gagnvart bændum og nú reka bændur fæstir afurðastöðvar sínar á sínu svæði þannig að þeir eiga hvergi fulltrúa þarna inni í því ullarmati. Því tel ég að meira álag verði á ullarmatsnefndinni eftir að þetta embætti verður lagt niður. En auðvitað er hægt í framtíðinni að setja það á aftur en ég vil að í reglugerð verði kveðið á um menntun matsmannanna sem starfa, hvort heldur hjá afurðastöðvunum eða hjá söluaðilunum, að kveðið verði skýrt á um hvaða menntun þeir fái og hvaðan þeir fái hana. Það þarf þá að hafa það alveg tryggt að þeir hafi viðhlítandi menntun. Menntunarkröfurnar koma að mínu mati ekki nægilega fram en það þarf þá að koma fram í reglugerð.

Kostnaður við störf þessa embættis hefur verið greiddur úr ríkissjóði og má segja sem svo að verið sé að leggja niður enn eitt embættið sem hefur verið ákveðin trygging fyrir ákveðna sérþekkingu í landinu og stuðlað að betri meðferð á ull og hærra verði til bænda. Þótt verðið sé lágt núna getur það breyst. En það er fyrst og fremst fjármagnsskortur sem ræður slíkri ákvörðun en ekki fagleg ákvörðun. En þar sem Bændasamtökin hafa lagt blessun sína yfir þetta þá er erfitt að mæla gegn því, en það hefði verið --- ég er ekki viss um að umsögn þeirra hefði verið á þennan veg ef fjármagn hefði verið tryggt úr ríkissjóði til að standa undir umræddu mati.