Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:33:47 (7066)

2002-04-08 11:33:47# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér engu við þetta að bæta. Ég er sammála hv. þm. um það sem hún kom fram með, að reglugerðafarganið varðandi marga þætti í landbúnaði sem menn virðast ætla að vaða áfram í hefur á margan hátt orðið þessari búgrein til verulegrar íþyngingar. Ég er sammála hv. þm. um það.

Ég gerði mér líka grein fyrir því að heildarlögin um flokkun og mat á gærum og ull voru ekki til endurskoðunar. Ég vildi draga það inn í umræðuna að þetta væri helst til lítill hortittur að draga út úr þessari heildarlöggjöf til að finna hvernig mætti spara ríkinu 8 millj. kr. og hugsanlega að færa þann kostnað yfir á framleiðendur. Mér þótti þetta of lítill hortittur til að fara að opna lög um flokkun og mat á gærum og ull sem þarf að endurskoða í heild sinni. Þar eru margir aðrir þættir sem mikilvægara væri að endurskoða en hvernig ríkið gæti komið af sér 8 millj. kr. ábyrgð, þó svo að ég sé líka sammála því að þessi framkvæmd á ábyrgðinni eigi ekki að vera á hendi ríkisins.

Í sjálfu sér hef ég engu öðru við þetta að bæta en tel að þarna sé í raun verið að opna lög um flokkun og mat á gærum og ull af litlu tilefni, fyrst og fremst til að færa hugsanlega kostnað af ríkinu og yfir á bændur.