Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 13:03:43 (7103)

2002-04-08 13:03:43# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[13:03]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að mönnum liggur heldur hlýlegt orð til þessa frv. enda er að mínu mati mjög brýnt að afgreiða það. Við erum tiltölulega sein með það hér inn, það er rétt, miðað við það hvenær við áttum að uppfylla þessa tilskipun.

Varðandi kostnaðinn sem menn geta lent í vegna fjárhagslegra trygginga á hann að endurspeglast eins og mögulegt er í gjaldinu. Hann getur auðvitað verið misjafn eftir því hvernig urðunarstað er um að ræða. Tryggingin snýr að vöktuninni þannig að hún fari örugglega fram í þessi 30 ár eftir að urðunarstað er lokað en hún snýr ekki að bótaábyrgð ef eitthvað kemur upp á. Það er næsta skref sem þarf að skoða og það er ekki í þessu frv. heldur þarf að skoða það alveg sértækt.

Varðandi að óskýrt sé hvað átt er við með gjaldtökuheimildinni í 11. gr. kemur þar fram að gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangs. Hins vegar er heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Þetta er eiginlega tvennt ólíkt. Annars vegar er förgunin og hins vegar meðhöndlun úrgangs. Og það er búið að slá á að förgun úrgangs gæti verið u.þ.b. 30% af meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt þessu frv., verði það samþykkt, er því skylda að taka gjald fyrir förgunina, 30% hlutann, en heimilt er að taka fyrir allt. Ákveðið var að fara ekki í að skylda menn eða sveitarfélög til að taka gjald fyrir alla meðhöndlunina. Það er miklu stærra skref. Sum lönd hafa gert það, t.d. Noregur. Mér skilst að það sé skylda sveitarfélags að taka raungjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs þannig að menn geti ekki velt því fram og aftur, út í útsvar o.s.frv. En hér er einungis verið að taka það skref að skylda menn til að taka gjald fyrir förgunina sjálfa.