Þátttaka seðlabankastjóra í álversviðræðum

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:21:53 (7118)

2002-04-08 15:21:53# 127. lþ. 114.1 fundur 482#B Þátttaka seðlabankastjóra í álversviðræðum# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. hvað þetta varðar. Ég vil hins vegar ítreka að það verkefni sem þessi nefnd fær er fyrst og fremst að standa fyrir könnunarviðræðum við þessi fyrirtæki. Ef til þess kemur að farið verði í samningaviðræður er komin upp ný staða. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hverjir mundu skipa slíka samninganefnd. Þetta vildi ég líka að kæmi fram.

Við erum að tala um stórkostlegt efnahagsmál, þ.e. þetta verkefni á Austurlandi. Það skiptir mjög miklu máli að af því verði. Það eru fordæmi fyrir því, eins og hv. þm. veit eflaust, að seðlabankastjóri hafi verið í forustu fyrir samningaviðræðum við álfyrirtæki frá því er Jóhannes Nordal gegndi starfi seðlabankastjóra.

Ég hef hins vegar fengið mjög sterk og jákvæð viðbrögð við þessari nefndarskipan. Ég fann það strax og ég tilkynnti það á fundi á Reyðarfirði að þetta féll í góðan jarðveg.