Nýting orku frá Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:33:47 (7126)

2002-04-08 15:33:47# 127. lþ. 114.1 fundur 484#B nýting orku frá Kárahnjúkavirkjun# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju með það að ég heyri að hv. þm. er farin að gera ráð fyrir að af þessum framkvæmdum verði. Það er gott út af fyrir sig.

Ég hef haldið því fram og get ítrekað það hér að orkan sem verður til við virkjun þessara vatnsfalla verður nýtt á Austurlandi. Það hef ég látið koma fram hvað eftir annað. Þar sem samþykkt Alþingis í sjálfu sér kveður ekki á um þetta þá hljóta orð ráðherra að skipta miklu máli. Almenna reglan er sú að ráðherra sem tekur við, ef svo verður í þessu tilfelli að kominn verði nýr ráðherra þegar af þessum framkvæmdum verður --- þ.e. þá met ég það svo að orð mín skipti þar mjög miklu máli og skipti þar raunar öllu máli þannig að sú ákvörðun sem þarna liggur fyrir sé að þessi orka verði ekki flutt t.d. hingað á suðvesturhornið, enda væri það í alla staði mjög óhagstætt því þá væri ekki hægt að bjóða upp á samkeppnishæft orkuverð.