Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:10:48 (7161)

2002-04-08 17:10:48# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg skýrt að umferðaröryggismál heyra undir dómsmrn. Í mínum huga er það kostur að framkvæmd á umferðarmálum eins og í sambandi við vegáætlun og annað sé ekki á sömu hendi og eftirlitið, þ.e. öryggismálin. Ég veit að nýverið hafa verið gerðar breytingar, t.d. í Danmörku, þar sem umferðaröryggismálin hafa verið færð aftur undir sama ráðuneyti, dómsmrn. eftir því sem ég best veit.

Hins vegar hefur þetta ekki haft nein vandamál í för með sér. Dómsmrn. og samgrn. gera meira en að tala saman um þessi mál, milli ráðuneytanna er mjög gott samstarf. Ég vil benda á að það er t.d. víða mjög mikið samstarf milli lögreglunnar og Vegagerðarinnar. Ýmsir árangurs- eða samstarfssamningar hafa verið gerðir varðandi t.d. umferðareftirlit, og margvíslegt samstarf er í þessum málaflokki.

Minnst var á umferðaröryggisáætlun sem mun halda áfram væntanlega í 1. umr. hér á eftir. Af því tilefni vil ég líka geta þess sérstaklega að fulltrúi Vegagerðarinnar var einmitt í þessum þriggja manna hópi sem samdi hana. Menn hafa þarna mjög mikið samráð þannig að ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum hlutum. Ég tek hins vegar undir með formanni hv. allshn. að það er full ástæða til að skoða alla hagræðingu á þessum sviðum og að sjálfsögðu að tryggja gott samráð.