Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:29:31 (7184)

2002-04-08 18:29:31# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar óyggjandi sannanir fyrir því að því neðar sem ökuleyfisaldurinn er færður því meiri hætta verði á slysum. Við getum látið okkur detta í hug að halda áfram með hann niður í svona 10--11 ár til að sanna það sem ég er að segja hér. Ég tel að ekki þurfi að ganga lengra.

Hvort menn hafa borið saman 17 og 18 ára aldur þannig að það sé óyggjandi skal ég ekkert um segja en ég held að það verði að horfast í augu við þessa hluti, annaðhvort með því að hækka aldurinn almennt eða ganga enn harðar fram í því að fresta ökuleyfisrétti þeirra sem ekki hafa náð þroska til að aka bifreið. Ef vaktin er staðin vel og reglur eru strangar getur það kannski orðið til að ungir ökumenn í þessum áhættuflokki missi prófin nægilega snemma, áður en þeir valda skaða. Þeir fengju öllu heldur ekki framhaldspróf, eins og menn ætla sér með þeim reglum sem hér eru til umræðu. Þetta vildi ég segja um málið.

Mér finnst að ganga verði mjög hratt fram í því að reyna að breyta þessu. Það er ekki við það búandi að horfa upp á þessi slys áfram. Við höfum einfaldlega ekki leyfi til þess, finnst mér, að taka okkur langan tíma til að prófa nýtt fyrirkomulag ef það skilar ekki árangri.