Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:45:55 (7189)

2002-04-08 18:45:55# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:45]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg varðandi 7. gr. frv., um það hlutverk Umferðarstofnunar að undirbúa ökukennslu ungra Íslendinga og ökupróf. Auðvitað blandast þar inn í það sem við höfum öll mestan áhuga á, að fækka slysum. Það verður að segjast að því miður má rekja mörg umferðarslys til þeirra sem eru nýkomnir með próf vegna þess að þá skortir reynslu til að bregðast við hinum ýmsu þáttum í akstri. Við getum rifjað upp dagana þegar maður sjálfur byrjaði að keyra og borið við hvernig það er í dag. Margt þarf að taka inn í reikninginn, hvort sem það er akstur í hálku, akstur í myrkri, að búfénaður hlaupi yfir veginn o.s.frv.

Allt er þetta góðra gjalda vert sem hér er gert ráð fyrir. Hér er m.a. fjallað að veita umbun samkvæmt 1. gr., sem ég var spurður út í áðan og mér sýnist mjög góð, til þeirra sem á fyrsta ári fá ekki refsistig eða punkta.

Í framhaldi af 7. gr. ætla ég ekki að blanda mér í umræðuna sem var hér áðan, um hvort einkavæða ætti einhvern hluta af þessu. Ég vona að svo fari ekki vegna þess að ég held að þetta sé hlutverk ríkisvaldsins og sé best komið þar. Ég er samt ekki mikill ríkisrekstrarsinni. En það er fjallað um hlutverk Umferðarstofnunar í að annast ökupróf og starfrækja ökuskóla o.s.frv. í 7. gr. Ég ætla ekki að lesa það upp en vildi hins vegar minna á, herra forseti, tillögur frá einum hóp sem starfaði á umferðarlagaþinginu árið 2000. Þar starfaði hópur 3 undir forustu Kristjáns Þorbjörnssonar, yfirlögregluþjóns á Blönduósi. Þar komu fram merkilegar tillögur en sá hópur fjallaði um unga ökumenn og annað. Hann komst að þeirri niðurstöðu að umferðarfræðsla þyrfti að fara meira fram skólakerfinu, ýmist í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum.

Við vitum að oft og tíðum, vonandi í flestum sveitarfélögum, koma lögreglumenn og sinna umferðarfræðslu í leikskólum og grunnskólum. Sú fræðsla er náttúrlega meira um hvernig gangandi börn og unglingar eiga að haga sér í umferðinni. En þar var líka rætt um framhaldsskólana þar sem unglingar eru komnir með aldur til að taka ökupróf. Ég vildi gera að umtalsefni hvort ekki hafi komið til tals í þessari umræðu um unga ökumenn að taka hreinlega umferðarkennslu að einhverjum hluta, alls ekki alla að sjálfsögðu, en a.m.k. bóklega umferðarkennslu, inn í framhaldsskóla og gera að skyldufagi sem gæfi punkta til stúdentsprófs. Ég held að það væri mjög mjög mikilvægt atriði, þ.e. hvernig farið verður gegnum ákveðna þætti þar. Það væri þá verkefni menntmrn. og annarra að búa til námsgögn fyrir kennsluna.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, vegna þess að ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt. Ég tel það reyndar hafa verið til mikilla bóta þegar byrjendakennsla ungra ökumanna var gerð þannig að foreldrar mættu annast hluta af henni. Ég held að það hafi verið til góðs, að annaðhvort foreldri eða annað skyldmenni fylgi viðkomandi fyrstu kílómetrana, vonandi tugi kílómetra, í akstri. En samt sem áður má úr bæta en ég ætla ekki að blanda mér inn í umræðuna um aldursmörk til að fá ökupróf, hvort menn eigi að vera 17 eða 18 ára. Það eru kostir og gallar við það allt saman.

Mér kom það hins vegar á óvart sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að það væru eingöngu Ísland og Bretland sem veittu ökuleyfi við 17 ára aldur en aðrir væru þar komnir í 18 ára aldursmörk. Ég held hins vegar að hér sé verið að stíga góð skref hvað þetta varðar og tíminn verði að leiða í ljós hver árangurinn verður af skráningu á þeim umferðarslysum sem ungir ökumenn varða valdir að. Verði það ljóst af statistíkinni, svo ég noti það slæma orð, að ungir ökumenn á bilinu 17--18 ára séu valdir að svo og svo mörgum alvarlegum slysum þá verður auðvitað að taka þessa hluti til skoðunar.

Þetta vildi ég segja. Ég legg höfuðáherslu að taka umferðarfræðsluna meira inn í skólakerfið, þá sérstaklega framhaldsskólakerfið eins og ég ræddi um áðan, að framhaldsskólanemendur séu skyldaðir af skólunum til að fara inn í svo og svo mikla umferðarfræðsu til undirbúnings því að foreldrar taki við í akstri með æfingaleyfi og til frekara undirbúnings því er ökukennarinn tekur við og klárar umferðarkennslu sem á að vera góður grunnur að góðum ökumanni. En inn í þetta blandast vafalaust peningar. Hvar á að fá peninga til þess að stunda þetta og gera þetta? Framhaldsskólar eru frekar í fjársvelti en hitt.

Það kom líka fram í áliti þessa ágæta hóps sem ræddi þetta á umferðarþinginu að umferðarsektir gætu runnið í einhvers konar forvarnasjóð eða til frekari umferðarfræðslu fyrir unga ökumenn, eða til þess, sem er vafalaust það allra besta, að umferðarlöggæsla verði stórefld. Það er náttúrlega mjög eðlilegt að tillaga um að umferðarlöggæsla verði stórefld kæmi fram í þessum hópi sem Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, stýrði. Ég hef áður sagt að ég held að það séu ekki mörg lögregluumdæmi sem standa sig jafn vel og Blönduósslögreglan í að fylgjast með ökuhraða og fylgjast með umferð í gegnum Húnavatnssýslu. Það þekkja þeir sem keyra þar oft um, m.a. sá sem hér stendur, sem hefur þó nokkrum sinnum lent í þessum ágætu mönnum fyrir að keyra e.t.v. of hratt.

Ég verð hreinlega að játa að sá sem hér stendur keyrir ákaflega hægt í gegnum þessa sýslu þar sem mæta má þessum öruggu og miklu umferðareftirlitsmönnum sem lögreglan á Blönduósi er, en var þó síðast tekinn fyrir of hraðan akstur þegar ég var að koma úr jólafríi á þrettándanum, fyrir að keyra nokkrum kílómetrum of hratt. En ég hafði mér það til málsbóta að jeppinn minn var á stærri dekkjum en hann var seldur á og lögreglan huggaði mig með því að kílómetrarnir umfram gætu hafa verið út af þessum stóru dekkjum. En seinna meir fékk ég 7.500 kr. umferðarlagasekt sem ég þurfti að greiða í ríkissjóð.

Ég hygg að öðrum sé farið eins og mér þegar ekið er í gegnum Húnavatnssýslu og viti að þar er eins gott sé að passa sig. Þetta segi ég og tek persónulegt dæmi vegna þess að sennilega er hin aukna löggæsla, sýnileg löggæsla á þjóðvegum landsins langáhrifaríkust í umferðinni. Það kostar peninga en ríkissjóður fær líka peninga til baka. Ég hygg að þeir oft eru teknir fyrir of hraðan akstur og þurfa oft að borga 7.500 kr. í umferðarlagasekt í ríkissjóð hljóti að passa sig. Þetta kemur við budduna. Alla vega er sá sem hér stendur farinn að aka hægar en áður.