Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:31:44 (7203)

2002-04-08 20:31:44# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Þetta er smátt og smátt að koma, að mér finnst. Mér finnst hins vegar enn á vanta. Ég vil taka skýrt fram að auðvitað eru fjárlög gerð af stjórnarmeirihlutanum. Ég minnist þess að við fjárlagagerð 2000 fluttu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar brtt. um að 100 millj. kr. yrði varið til umferðaröryggismála. Það var náttúrlega kolfellt af stjórnarmeirihlutanum. Sannarlega segi ég að ekki skal standa á stjórnarandstöðunni við að finna því flöt að setja meiri peninga í þetta mál.

Peningar eru í þessu máli, eins og ég hef farið yfir, allt of litlir eins og boðað var af hæstv. dómsmrh. í Morgunblaðinu eftir að umferðarþingið gerði þessa merkilegu ályktun þar sem það lýsir vonbrigðum sínum yfir því að í fjárlögum fyrir árið 2001, sem þá var verið að afgreiða, varð nánast ekkert vart við aukna fjármuni til þessarar baráttu. Það er nákvæmlega sama nú vegna fjárlaga 2002. Þó að hæstv. dómsmrh. hafi beðið menn að bíða rólega og sagt að gagnrýnin væri ósanngjörn vegna þess að þetta væri ekki tímabært verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að í fjárlögum fyrir árið 2002 gátum við ekki séð að meiri peningar væru að koma í umferðaröryggismál.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það eru töluverðir peningar ef 300 millj. kr. eru innheimtar af þeim sem aka of hratt eða eru teknir fyrir önnur umferðarlagabrot. Ég verð að segja alveg eins og er að ég sakna þess að stærsta hlutanum af þessum peningum skuli ekki vera varið til umferðaröryggismála. Mér finnst mjög blóðugt að þessar sektir skuli renna beint í ríkissjóð í almennan rekstur en fari ekki í þau atriði sem er þó gerð tillaga um í dag.

Auðvitað fagna ég samt framkvæmdanefndinni sem á að skipa, sem og öðru hér. Það sem ég óttast hins vegar er að þau góðu markmið sem sett eru hérna fram náist ekki í gegn vegna fjárskorts.