Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:11:12 (7294)

2002-04-09 15:11:12# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig þægilegt að segja: Þetta er allt of lítið. Ríkissjóður sleppur allt of billega. Þetta er minna en við vonuðumst eftir að kæmi. Þetta er of seint fram komið.

Þetta er niðurstaða af vinnu sem ég vil trúa að hafi verið mjög vönduð. Hinir færustu menn sátu yfir þessu verkefni --- ég taldi þá upp í framsöguræðu minni, fyrir utan starfsmenn frá félmrn. og fjmrn. Að verkinu komu fulltrúar sveitarfélaganna, þ.e. forstjóri hagdeildar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar í Reykjavík. Sér til aðstoðar höfðu þeir reiknimeistara frá viðurkenndum bókhaldsstofum sem settu upp dæmi og reiknuðu og búið er að setja upp mörg dæmi og reiknilíkön í þessu skyni. En þetta er sem sagt niðurstaðan af þeirri vinnu sem þar var unnin og samkomulag er um að hrinda í framkvæmd milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara að fjölyrða mjög um þessar umræður. Ég undirstrika að ekki er verið að krefjast þess að sveitarfélögin leggi fram fé. Hins vegar er verið að nota sjóði sem safnast hafa og sveitarfélögin eiga. Sveitarfélögin gátu ekki tekið þá peninga til sín, búið var að leggja þá á og koma þeim fyrir, 300 milljónum í varasjóði viðbótarlána og 300 milljónum eða þar um bil í Tryggingarsjóð vegna byggingargalla. Og af því að spurt var um hvað hefði verið borgað út á byggingargallana á undanförnum árum eða frá því að Tryggingarsjóður vegna byggingargalla var settur á fót, þá hafa fallið á hann 7 milljónir. Safnast hafa í hann 300 milljónir, en útgreiðslurnar hafa verið 7 milljónir. Það var hugmynd sveitarfélaganna og tillaga ættuð frá sveitarfélögunum um að leggja hann í þetta púkk ásamt með varasjóðnum og framlagi frá ríkinu.

[15:15]

Komið hefur í ljós að ríkið hefur ekki verið greiðugt á fé við varasjóðinn. Það eru 50 milljónir sem komu fyrsta árið. Síðan hefur gengið erfiðlega að heimta fé af ríkinu í varasjóðinn. Ég vil taka það fram að það er engin skylda að stofna rekstrarfélög. Sveitarfélögin ráða því alveg sjálft hvort þau gera það. Ég held hins vegar að þar sem mikil umsvif eru sé það áreiðanlega skynsamlegt. Ég er alveg viss um að það var skynsamlegt hjá Reykjavíkurborg að stofna Félagsbústaði hf. til að halda utan um rekstur svo mikils batterís sem Félagsbústaðir eru. Ég hygg að í stærri sveitarfélögum sé það mjög hyggilegt.

Það er fjarri lagi að halda því fram, eins og hér kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að sveitarfélögin eigi leiguíbúðir. Auðvitað eiga sveitarfélögin að eiga leiguíbúðir. Það leiðir af sjálfu. Engum manni hefur dottið í hug annað en að eðlilegt sé að sveitarfélögin eigi töluvert af leiguíbúðum. (Gripið fram í.) Hitt er svo aftur matsatriði hvað þær eigi að vera margar á hverjum stað.

Ég er t.d. ekkert sannfærður um að skynsamlegt sé fyrir sveitarfélagið Bolungarvík að eiga yfir 70 leigubúðir. Ég held að betra væri fyrir sveitarfélagið Bolungarvík að selja eitthvað af þessum leiguíbúðum. Ég er ekkert viss um að það sé skynsamlegt fyrir Blönduós að eiga 45 leiguíbúðir. Blönduós hefur þurft að innleysa á undanförnum árum 45 íbúðir. Að vísu er fólk í þeim flestum, ekki nema tvær hafa staðið auðar lengur en tvo mánuði.

Af því hér kom fram spurning um hvað innlausnaríbúðirnar eru margar þá er ég hér með skrá um innlausnaríbúðir sveitarfélaga. Þau hafa leyst til sín samtals 1.055, eða voru búin að því núna 15. febrúar. Skráin er síðan þá. Það er afar misjafnt hvar þær eru, en 84 eru búnar að standa lengur auðar en eitt ár. Þetta eru tölur frá 15. febrúar. Þær eru ekki alveg glænýjar og geta verið eitthvað breyttar.

Rétt er að halda því til haga í þessari umræðu að við höfum líka gengist fyrir sérstöku átaki til að fjölga leiguíbúðum. Á undanförnum árum hafa bæst við eða Íbúðalánasjóður hefur lánað út á í kringum 400 nýjar leiguíbúðir á hverju ári. Árlega hafa bæst við í leiguíbúðapakkann í kringum 400 íbúðir. Það var ákveðið til að greiða fyrir sveitarfélögunum að innlausnaríbúðirnar mættu standa á gamla láninu út líftíma lánsins, þ.e. sveitarfélag sem innleysti íbúð sem á hvíldi lán á 1% eða 2,4% mátti láta lánið standa út upphaflegan lánstíma og fá síðan viðbót á markaðsvöxtum ef það kærði sig um þannig að heildarlánstíminn gæri orðið 50 ár. Þetta var veruleg hagræðing fyrir sveitarfélögin sem hafa þurft að leysa til sín íbúðir fyrir utan þessar 400 sem bætast við á ári og eru ætlaðar fólki innan skilgreindra tekju- og eignamarka, þ.e. sveitarfélögum, Öryrkjabandalagi, námsmannasamtökum og þess háttar. Vextirnir af þessum lánum eru 3,5%. Ríkissjóður tekur það á sig samkvæmt samkomulagi að greiða Íbúðalánasjóði mismuninn á þeim 3,5% vöxtum og þeim vöxtum sem Íbúðalánasjóður þarf að sæta hjá lífeyrissjóðunum, sem núna eru í kringum 6%. Ríkissjóður er því að leggja gott betur en þessar 60 milljónir í hið félagslega húsnæðispúkk. Hann er líka að leggja þarna til mismuninn á vöxtum sem eru núna 6,1% eða eitthvað svoleiðis --- það er ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna --- og 3,5%.

Enn fremur er farið í gang sérstakt átak í samstarfi við lífeyrissjóðina. Þar er fyrirhugað að bæta við 600 leiguíbúðum extra sem verða leigðar á almennum markaði án þess að gera kröfu um tekju- eða eignamörk. Það verða 150 byggðar á ári og vextir af þeim lánum verða 4,5%. Búið er að semja við Búseta um að byggja helminginn af þessum íbúðum, þ.e. 300, og sú vinna er að hefjast.

Ekki má gleyma því að á undanförnum árum, síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa, hafa verið veitt í kringum 2.000 viðbótarlán á ári, þ.e. 2.000 efnalitlar fjölskyldur hafa árlega komist í eigið húsnæði. Viðbótarlánaíbúðirnar koma í staðinn fyrir félagslegar eignaríbúðir, félagslegar kaupleiguíbúðir og leiguíbúðir sem voru eitthvað í kringum 300 á ári þannig að ólíku er nú saman að jafna.

Það er misskilningur að fjárhagsstaða sveitarfélaganna hafi verið að versna. Til eru að vísu sveitarfélög þar sem fjárhagsstaðan hefur verið að versna. En ef litið er á heildarsummuna, hvernig þróun fjárhagsstöðu sveitarfélaganna hefur verið háttað, hefur hallarekstur þeirra minnkað á undanförnum árum. Í fyrra var hann 1 milljarður, sem er út af fyrir sig 1 milljarði of mikið. En í hittiðfyrra var hann 3 milljarðar og svipaðar tölur og upp í 5 milljarða á árunum þar á undan.

Eins og ég sagði áðan kom nefndin sér saman um reiknilíkan eða módel, þ.e. hvernig það ætti að vera. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, kaflann um auðar íbúðir, því þar kemur fram að vissu leyti nákvæmara svar en ég veitti hv. 5. þm. Reykv. í upphafi umræðunnar:

,,Til viðbótar við ofangreint rekstrarframlag er veitt viðbótarframlag vegna auðra íbúða. Lagt er til með líkaninu að veitt verði framlag fyrir hvern þann mánuð sem íbúð stendur auð umfram þrjá.`` --- Umfram þrjá. ,,Framlagið nemi þó aðeins 40% af útreiknuðum mánaðarlegum kostnaði samkvæmt 3. lið hér að ofan. Það er mat nefndarinnar að með ofangreindum takmörkunum varðandi auðar íbúðir þá sé hvati fyrir sveitarfélög að hafa íbúðirnar sem minnst auðar. Sveitarfélög gera grein fyrir þeim íbúðum sem standa auðar fjölda mánaða og leggja fram gögn frá Hagstofu því til staðfestingar. Lagt er til að hvert ár verði gert upp eftir á eða þegar allar forsendur liggja fyrir. Þannig hefur nefndin nú notað árið 2001 sem viðmiðunarár við smíði umrædds reiknilíkans. Niðurstaðan úr því er sú að gefnum framannefndum forsendum að fjárþörfin er á bilinu 50--60 milljónir. Með því móti er staða þeirra sveitarfélaga sem eiga við mestan rekstrarvanda vegna félagslegra íbúða að etja, verulega bætt.``

Hér er talað um 50--60 milljónir. Við rýmkuðum þessar heimildir upp í 80 milljónir.

Herra forseti. Að endingu er rétt að nefna að við höfum húsaleigubætur og þær hafa verið hækkaðar. Nú eru húsaleigubætur greiddar í öllum sveitarfélögum á landinu. Þær eru orðnar skattfrjálsar síðan um síðustu áramót. Við bætast 2.000 íbúðir á ári með félagslegri aðstoð með 90% láni. Það bætast við 400 nýjar leigubúðir á ári á 3,5% vöxtum. Það eiga að bætast við 150 á ári með 4,5% vöxtum og síðan verða heimildir til viðbótar ef á þarf að halda með markaðsvöxtum.

Rétt er að nefna að víst er húsaleiga of há í Reykjavík og maður heyrir ljótar sögur af því. En ég hef í höndum hvernig Félagsbústaðir hf. prísuðu leiguíbúðir í árslok. Tveggja herbergja íbúð var á 22.500, þriggja herbergja íbúð á 32.000 og fjögurra herbergja íbúð á 42.000. Þarf mann svo ekki að undra þó að myndist biðlistar eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum.