Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:31:09 (7297)

2002-04-09 15:31:09# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það á auðvitað ekki að mála skrattann á vegginn, hvorki hvað tekjur sveitarfélaga varðar né annað. Einhver góður maður á að hafa sagt að þess þyrfti ekki, skrattinn kæmist þangað hjálparlaust.

Það er líka rétt að örfá sveitarfélög eru í nokkurri sérstöðu hér í landinu. Það eru fyrst og fremst moldríkir svefnbæir þar sem meðaltekjur eru mjög háar og menn hafa litla þjónustubyrði og geta látið það eftir sér að fullnýta ekki tekjur sínar. En það eru undantekningar sem sanna regluna.

Hin almenna regla, alveg sérstaklega hjá meðalstórum sveitarfélögum á landsbyggðinni, er að sveitarfélögin sjá engan veginn fram úr rekstrarútgjöldum sínum. Þar hefur orðið svakaleg breyting til hins verra á örfáum árum. Það veit hver einasti maður sem fer um og hittir forsvarsmenn þessara sveitarfélaga að máli, t.d. miðlungs og minni sjávarplássa á landsbyggðinni, hefðbundinna sveitarfélaga með 200--500 eða 1.000--2.000 íbúa, að þar sjá menn yfirleitt ekki fram úr því hvernig þeir eiga að klára rekstur sveitarfélaga sinna, hvað þá nauðsynlegar fjárfestingar við að greiða niður skuldir á komandi árum. Þetta veit hæstv. félmrh. Þetta er svona. Það er m.a. í því ljósi sem mér finnst þessi útkoma dapurleg og slök fyrir sveitarfélögin.

Hér voru nefndir miklir kappar og ágætir kunningjar mínir allir: Gunnlaugur Júlíusson, Helgi Hjörvar og Halldór Halldórsson. Þetta eru allt baráttumenn. En þeir hafa væntanlega hugsað svo að lokum: Það er betra að fá eitthvert lítilræði en ekki neitt. Hæstv. félmrh. má ekki gleyma því að þetta ströggl er búið að standa í bráðum fjögur ár. Lögunum var breytt árið 1998 og þá blasti þessi óuppgerði vandi við. Síðan hafa starfað nefndir og þetta hefur nuddast undan. Væntanlega gerist það þarna að lokum að sveitarfélögin eru í svo lélegri samningsstöðu að þau verða að lúta að svo litlu og hirða þetta lítilræði frekar en ekki neitt í lokin.

Reyndar hefur hæstv. félmrh. gefið okkur skýrt í skyn að hann sé sjálfur hundóánægður með þessa niðurstöðu. Hann dró bara ekki meira að landi.