Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:18:53 (7309)

2002-04-09 16:18:53# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek heils hugar undir orð viðskrh. þar sem hún segir að vextir af verðtryggðum lánum eigi að vera fastir. Það er í raun með ólíkindum að lánastofnanir geti breytt vöxtum á verðtryggðum lánum að vild. Eins og hæstv. ráðherra komst svo ágætlega að orði áðan, þarna eru bankarnir bæði með belti og axlabönd.

Ég skrifaði litla grein um daginn í Morgunblaðið sem ég kallaði: Hvernig kynslóð erum við að ala upp? Þar kemur m.a. fram sú alvarlega staða að fjölmargt ungt fólk verður gjaldþrota á aldrinum 20--30 ára vegna einkaneyslu. Hvarvetna eru í raun og veru gildrurnar. Það eru kreditkortin. Það eru léttgreiðslurnar. Það eru bílalánin. Það eru tölvulánin. Það eru símalán o.fl.

Ég fékk ótrúlega mikil viðbrögð við þessari grein. Þar segir m.a. að nauðsynlegt sé að kenna fjármál í skólum og nauðsynlegt sé að bankastofnanir kenni fólki um fjármál. Ég var afar glaður yfir því að í pósthólfinu mínu í þinginu í morgun var bréf frá Gísla Jafetssyni sem sendi mér þetta. Það eru til bankar í landinu, þ.e. sparisjóðirnir sem eru vítt og breitt um landið, sem gefa út efni til þess að kenna bæði ungu fólki og eldra fólki um fjármál, hvað í raun og veru gerist þegar menn skrifa undir skuldabréf, ábyrgðir og þess háttar. Þetta tel ég vera mjög gott.

Greiðsluvandræði fólks eru samfélagslegt vandamál. Það er ekki hægt að kenna einhverjum ríkisstjórnum um það. Við verðum að kenna fólki að fara með peninga. Ef við berum okkur t.d. saman við Danmörku þá hugsa Danir á allt annan hátt um þessi mál en við. Við þurfum að temja okkur ný vinnubrögð hvað þetta varðar.