Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:30:00 (7314)

2002-04-09 16:30:00# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra einnig fyrir svör hennar og þá yfirlýsingu að hún muni beita sér fyrir því að vextir á verðtryggð lán verði gerðir fastir en geti ekki rokkað upp og niður eftir behag eða gróðafíkn eða hvað sem ég á að kalla það.

Hins vegar verð ég að segja, herra forseti, að ég velti oft fyrir mér réttmæti verðtryggðra lána. Eru þau réttlætanleg? Ég minni á það í þessari umræðu að þingmenn, bæði þeir sem sitja nú í ríkisstjórnarflokkum og í stjórnarandstöðu hafa lagt fram frumvörp um afnám verðtryggingar vegna þess að fólk hefur reynt það og upplifað að verðtryggingin hafi hækkað skuldirnar mjög mikið. Þó að aðstæður hafi lagast í samfélaginu skömmu síðar hefur þessi mikla krónutöluhækkun setið eftir á láninu og fólkið sér ekkert fram úr því að það geti klárað að borga lánin. Þetta sjá margir námsmenn fram á og margir þeir sem skulda húsnæðislán og lífeyrissjóðslán.

Hér hefur verið talað um ábyrgðarmenn og ég minni aftur á umræðuna. Lúðvík Bergvinsson og fleiri hafa lagt fram frumvarp um ábyrgðarmenn þar sem gert er ráð fyrir að dregið sé úr þeirri háttsemi að láta þriðja aðila ábyrgjast lánin.

Þá vil ég einnig taka heils hugar undir þau góðu orð sem féllu hér úr munni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún vék að ýmsum atriðum í sambandi við vanskil þar sem komið væri til móts við fólk og því hjálpað áður en það lendir í öllu innheimtuferlinu og öllum aukakostnaðinum sem fellur nú á fólk á hverjum degi og skapar því ómældar þjáningar og erfiðleika.

Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að samfélagið okkar fari að breytast á þessu sviði og að lán verði ekki áfram með þeim vöxtum sem nú tíðkast.