Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:32:17 (7315)

2002-04-09 16:32:17# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið málefnaleg að mestu leyti. Að vísu sé ég ekki hvernig ímynduð einkavæðing í heilbrigðiskerfinu hefur áhrif á þetta atriði eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Hér var talað um að vanskil væru að aukast á öllum sviðum en reyndar hafa heildarvanskil verið í lágmarki hjá Íbúðalánasjóði. Þó hefur umsóknum um greiðsluerfiðleikaaðstoð fjölgað, og breytingar sem gerðar voru á reglugerð urðu til þess að fólk kemur fyrr og sækir um greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu sem er gott mál. Eins má nefna að með reglugerðarbreytingu er nú hægt að framlengja lán um allt að 15 ár þegar þannig stendur á.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi það líka að af því að ríkið ætti meiri hluta í bönkunum gæti það örugglega ákveðið vaxtastigið. Þetta er náttúrlega mikill misskilningur, grundvallarmisskilningur, þar sem um hlutafélög er að ræða og fer að sjálfsögðu eftir hlutafélagalögum.

Í sambandi við persónuábyrgðir og ábyrgðarmenn sem hér hefur komið til umfjöllunar vil ég segja að stjórnvöld hafa náð samkomulagi, bæði við fjármálastofnanir og neytendasamtök, um það hvernig tekið er á þeim málum. Ég held því fram að það sé með miklum ágætum eins og því er framfylgt í dag og því sé ekki þörf á lagasetningu á því sviði.

Um verðtryggingu er það að segja að hún er hvorki ákveðin né bönnuð með lögum en samningsaðilum er heimilt að verðtryggja langtímalán kjósi þeir svo.

Ég vil að síðustu leggja áherslu á það sem kom fram í máli mínu að samkvæmt vaxtalögum getur Seðlabankinn, að fengnu samþykki viðskrh., ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Og ég mun óska eftir því við Seðlabankann að þetta verði skoðað.