2002-04-09 21:08:40# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég í mestu vinsemd að reyna að eiga orðastað við hæstv. ráðherra og þá þykir mér afskaplega leiðinlegt að hann skuli eina ferðina enn leyfa sér að falla í þá gryfju að halda því fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs geri allt sem í þeirra valdi stendur til að eyðileggja uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Það er rangt og það veit hæstv. ráðherra fullvel og það að hann skuli alltaf hreint koma með þessa bábilju í ræðustól gerir það að verkum að ekki er hægt að eiga við hann málefnaleg skoðanaskipti. Allt sem ég sagði í fyrri ræðu minni bauð upp á það og ég er ósátt við að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að koma upp í andsvar við mig með fullyrðingar af þessu tagi sem hann veit vel að eru rangar og eiga sér eingöngu rætur í hans eigin pirringi.

Herra forseti. Ég ætla að gera tilraun til að svara honum á málefnalegan hátt. Varðandi það sem hæstv. ráðherra segir um aðgerðir Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu minni ég á hina gullvægu reglu sem finna má í Ríó-yfirlýsingunni þar sem þjóðir heimsins eru hvattar til að bregðast við heima fyrir þó að þær hugsi hnattrænt. Þetta er setning sem ég veit ekki hvort hefur tekist að þýða nægilega vel á íslensku en á engilsaxnesku er hún svona: ,,Think Globally, Act Locally.`` Sem sagt: Hugsum á heimsvísu en bregðumst við heima fyrir.

Mér sýnist hæstv. ríkisstjórn Íslands hafa snúið þessari gullvægu reglu við. Hún gætir eigin hagsmuna með því að halda því fram að hún geti brugðist við á heimsvísu en gert nákvæmlega það sem henni sýnist heima fyrir. Íslendingar taka ekki á sig sameiginlegar byrðar veraldarinnar meðan álframleiðsla er ekki bundin við það að rafmagnið sé framleitt með jarðefnaeldsneyti. Þeir væru hins vegar menn að meiri ef þeir væru í alvöru að efna til vetnisvæðingar sem þeir gera ekki með stóriðjustefnu sinni.