2002-04-09 21:23:10# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Lítill vafi er á því að gróðurhúsaáhrifin svonefndu eða loftslagsbreytingar af mannavöldum vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda er alvarlegasta ógnin sem að lífríki jarðarinnar steðjar og þar með lífsskilyrðum manna á jörðinni ekki síður en annarra tegunda. Þeim fækkar sem reyna að mæla því í mót eða vefengja þau vísindalegu gögn sem hrannast upp í þeim efnum þó að vissulega fyrirfinnist þeir enn.

Það vill svo til, herra forseti, að einmitt í dag kom upp í hendurnar á mér blaðið International Herald Tribune, og hvað er nú á forsíðu þess nema einmitt umfjöllun um gróðurhúsaáhrifin eða loftslagsbreytingarnar eins og þær eru í borginni Houston í Texas? Þar eru birtar tvær myndir, önnur er af borginni á vormorgni eftir rigningu og loftið er hreint og skýjakljúfarnir gnæfa við himin við sjónadeildarhringinn. En sama mynd er tekin undir sama sjónarhorni á sama stað síðdegis á sólardegi í ágúst og skýjakljúfarnir eru horfnir í mengun.

Upplýst er í grein í blaðinu að tæpur metri af strandlengju Galveston-flóans hverfur nú á hverju ári og sjórinn gengur hratt inn á landið með hækkandi sjávarborði og þeim breytingum sem við vel þekkjum. Við þekkjum eyríki sem eru á hraðri leið með að hverfa af yfirborði jarðar og við þekkjum þau vandamál hverra bíða þau örlög, ákveðinna eyríkja, að bókstaflega hverfa af yfirborði jarðar ef svo heldur sem horfir. Veðurfarsóreglan og sveiflurnar með vaxandi tíðni fellibylja og stórviðra, þurrka eða hellirigninga annars staðar eru líka stórfelld vandamál sem yfirgnæfandi tölfræðilegar upplýsingar benda til að fari vaxandi.

Viðfangsefnin hér á landi sem þessu tengjast eru að við reynum a.m.k. með einhverri meðvitund að leggja okkar af mörkum, en það bólar nú lítið á því, herra forseti. Ég ætla að nefna þrennt.

Vaxandi notkun er á innfluttu jarðefnaeldsneyti til orkuframleiðslu á Íslandi. Það er algjörlega óhrekjanlegt að í vaxandi mæli er verið að taka olíu í notkun til að framleiða gufu í iðnaði til að nota í fiskimjölsiðnaðinum, loðnubræðslur ganga svo til allar fyrir olíu og þar mætti áfram telja. Svo hlálegt sem það nú er, ofan í allt talið um hina miklu vistvænu orku, þá er í auknum mæli í almennum iðnaði verið að taka innflutt jarðefnaeldsneyti í notkun í staðinn fyrir rafmagn eða a.m.k. ekki nýta það eins og hægt væri til margs konar iðnaðarstarfsemi af því tagi. Ég hef sannreynt það með samtölum við menn, sem ég þóttist reyndar vita fyrir og hef fylgst með undanfarin ár, að það má heita í hverfandi tilvikum sem menn telja rafmagn samkeppnisfært og heitt loft eða gufa er búin til með olíu eða jafnvel gas er notað frekar en innlent rafmagn.

Í öðru lagi nefni ég þróunina í flutningum og þá staðreynd að strandsiglingar eru að mestu aflagðar við landið og flutningarnir komnir upp á vegina með margfaldri orkunotkun.

Og ég nefni í þriðja lagi stóraukna orkunotkun í flotanum og þróun í átt til aukinnar orkunotkunar þar, bæði vegna aukinnar vélastærðar og vaxandi vinnslu aflans úti á sjó þar sem rafmagn til frystingar er framleitt með jarðefnaeldsneyti í staðinn fyrir rafmagn og vatnsorku í landi.

Stjórnvöld á Íslandi mættu því gjarnan vinna heimavinnuna sína, herra forseti. Framganga íslenskra stjórnvalda í sambandi við Kyoto-málið var mjög umdeild, herra forseti. Sú staðreynd að Ísland skyldi eitt ríkja skerast úr leik og ekki undirrita bókunina var okkur mörgum mikil vonbrigði og við töldum að Ísland ætti þá að vinna sérstöðu sinni framgang að svo miklu leyti sem slíkt væri efnislega réttlætanlegt með öðrum hætti en þeim einum að skerast úr leik eins og óþægur krakki og nota þá síðan auðvitað þá stöðu sína að ætla eitt þróaðra, vestrænna ríkja, að skerast þannig úr leik til þess að reyna að fá kröfur sínar viðurkenndar.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að allt tal um hina vistvænu orku sem við eigum hér til raforkuframleiðslu sem kappsmál sé að nýta í þágu iðnaðar, sem annars sé rekin með jarðefnaeldsneyti eða óhagstæðum orkugjöfum annars staðar, er óskaplega tvíbent vegna þess að þessi vistvæna orka --- að svo miklu leyti sem hún er vistvæn í þeim skilningi að henni séu ekki samfara óréttlætanlegar umhverfisfórnir á öðrum sviðum --- kemur okkur þá til góða í hverju tilfelli og er sú forgjöf sem við höfum, þó að við hefðum undanþágulaust gerst aðilar að Kyoto-bókuninni. Það er staðreynd sem ekki verður fram hjá horft.

En krafa Íslands var um að losunin vegna iðnaðarstarfseminnar jafnframt fengist líka í forgjöf upp að vissu marki og um það snerist hið íslenska ákvæði. Og færa má fram rök bæði með því og móti að það sé sanngjarnt eða réttlætanlegt að Ísland fái þannig algera sérmeðhöndlun ofan í 10% aukningu sem okkur, einum ríkja, var viðurkennd, þannig að það var nú ekki beðið um lítið að heimta þar til viðbótar þá sérmeðhöndlun sem Ísland fékk. Staðreyndin er sú að ef hér yrði sameiginlegur markaður með losunarkvóta, þá væri iðnaðaruppbygging á Íslandi, þó í litlu hagkerfi væri, í nákvæmlega sömu aðstöðu og iðnaðaruppbygging annars staðar hvað það varðar að menn gátu þá keypt sér losunarkvóta fyrir viðbótariðnaðarlosuninni en notið góðs af því að orkan væri framleidd með vatnsorku eða jarðhita og það þyrfti þá ekki að kaupa kvóta hennar vegna.

Þegar betur er farið yfir þetta dæmi, herra forseti, þá orkar það á ýmsan hátt mjög tvímælis ef maður vill vera sanngjarn í garð þeirrar viðleitni, hinnar almennu viðleitni um að menn taki sameiginlega á þessu vandamáli. Útreikningarnir sem hér voru bornir á borð um hið mikla framlag til alþjóðaumhverfismála byggðu yfirleitt á því að valkosturinn væri uppbygging sams konar iðnaðar í þróunarríkjunum sem væru undanþegin kvótunum. Og þá var hægt að setja dæmið þannig upp að það væri mikið framlag til sameiginlegra umhverfismála að gera þetta á Íslandi en um leið og það var komið til einhvers annars iðnvædds ríkis sem var með kvóta kom dæmið ekki þannig út, heldur þvert á móti.

Að síðustu verð ég að segja, herra forseti, að óskaplega er það brjóstumkennanlegt að heyra hæstv. utanrrh. endalaust koma hér upp og ráða aldrei við sig í skoðanaskiptum við fólk, sem að einhverju leyti hefur önnur viðhorf en hann sjálfur til umhverfismála eða áherslu í atvinnumálum, að ætla þá að afgreiða það með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði hér áðan. Mikið óskaplega er það erfitt, herra forseti, eða hlýtur að vera erfitt og brjóstumkennanlegt að vera þannig á sig kominn í rökræðum um mál að komast alls ekki yfir það að til er fólk með aðrar skoðanir og aðrar áherslur en maður sjálfur.