2002-04-09 21:39:43# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:39]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þessi umræða um till. til þál. um aðild að Kyoto-bókuninni við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar vekur í sjálfu sér athygli á því hvernig við stöndum okkur í tengslum við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gengist undir í sambandi við sjálfbæra þróun og umhverfismál.

Hæstv. utanrrh. hefur verið mjög upptekinn af því að mæra árangur sinn á alþjóðavettvangi og hvernig Íslendingar hafi getað vikist undan að axla hliðstæða ábyrgð og aðrar þjóðir. En hins vegar er rétt að skoða hvernig við stöndum. Sá koltvísýringskvóti sem við höfum fengið er í sjálfu sér ekki ótakmarkaður. Það er önnur starfsemi hér á landi en stóriðja sem losar koltvísýring.

Einn stærsti þáttinn er samgöngurnar. Ríkisstjórnin hefur sett sér stefnumið í samgöngum, þ.e. um að takmarka mengun, og hún er líka aðili að alþjóðlegum samningum þar að lútandi. Ég vil vekja athygli á því að losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum sl. tíu ár hefur aukist um nærri 10%. Það virðast ekki uppi neinir sérstakir tilburðir til að draga úr losun á koltvísýringi frá samgöngum hér á landi. Alla vega er þar töluvert langt í að við uppfyllum þá samninga sem við höfum undirgengist og þær yfirlýsingar sem við höfum samþykkt, og hins vegar áherslnanna í reynd í samgöngumálum. Ég vil draga þetta fram.

Í frv. til laga um samgönguáætlun, sem hér er til umræðu á þinginu, er t.d. ekki minnst á umhverfismál eða mengunarmál í lagatextanum, eða samninga á því sviði sem við Íslendingar höfum þó skuldbundið okkur til að fylgja eftir. Það er ekki minnst á það í markmiðstexta laganna um samgönguáætlun. Þetta er þannig í reynd sú sýn sem ríkisstjórnin hefur á þessi mál.

Herra forseti. Ég mátti til með að draga þetta hér fram. Það er líka ástæða til að horfa til annarrar þróunar í atvinnulífi hér á landi hvað þessu viðvíkur. Við höfum minnst á samgöngurnar og ég gat þess að koltvísýringsmagnið hefur aukist um 10% á sl. tíu árum án þess að nokkuð hafi þar verið að gert. Samgöngurnar eru að fara af sjó upp á land og því fylgir stóraukin mengun. Stefnan í sjávarútvegi hefur leitt til þess að vinnslan fer að allt of stórum hluta fram úti á sjó. Flutningar á fiski fara fram á landi, landshorna á milli. Það er m.a. afleiðing af stefnunni í sjávarútvegsmálum. Allt þetta miðar að því að auka mengun og losun á koltvísýringi út í andrúmsloftið. Þarna eru ekki neinir tilburðir við að koma á skipulagi í samræmi við þær alþjóðaskuldbindingar sem við höfum undirgengist um að draga úr mengun á þessu sviði.

Tökum sem dæmi þróunina í slátrun, flutning á sláturfé hér innan lands. Allt hefur þar miðast að því að færa vinnsluna í stórar einingar og leggja niður hinar minni einingar. Það hefur haft í för með sér flutninga á sláturfé landshorna á milli með aukinni mengun. Það er líka í trássi við allar hugmyndir um gæðastýringu vörunnar. Hvar sem okkur ber niður hér innan lands ganga öll stýritæki þvert á stefnu sem við höfum annars samþykkt varðandi mengunarmál, þ.e. að draga úr losun koltvísýrings.

Virðulegi forseti. Ég mátti til með að draga þetta hérna fram. Í lagatexta samgönguáætlunar er ekki minnst á þessar skuldbindingar okkar. Samgöngur eru einn stærsti aðilinn í losun á koltvískýringi út í andrúmsloftið. Það er ekki minnst á þetta í lagatextanum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Finnst honum eðlilegt að í lögum um stefnumörkun í samgönguáætlun skuli ekki á það minnst? Mér finnst það ekki og hef gagnrýnt það. Mér finnst langt á milli orða og athafna hvað það varðar að taka á málum innan lands samkvæmt skuldbindingum sem við höfum undirgengist varðandi losun á gróðurhúsalofttegundum.

Mér er til efs, virðulegi forseti, eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan, að hann skilji hugtakið, hina almennu skilgreiningu á bak við hugtakið sjálfbær þróun. Alla vega eru skýringar hans á því hugtaki með öðrum hætti heldur en ég hef áður heyrt.