Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 13:51:07 (7445)

2002-04-10 13:51:07# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum frv. sem vakið hefur nokkrar deilur og úlfúð í þinginu, þ.e. frv. til laga um að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Maður veltir fyrir sér hvers vegna verið er að leggja niður stofnun eins og Þjóðhagsstofnun, sem hefur notið mikils trausts og álits í þjóðfélaginu, hjá þingmönnum og einstökum stofnunum, þ.e. þeim sem hafa þurft að leita til óháðs aðila varðandi efnahagsmál.

Í riti Þjóðhagsstofnunar sem gefið var út í mars árið 2001 segir, með leyfi forseta:

,,Það fer ekki á milli mála að brýnasta verkefni hagstjórnar á næstunni er að draga úr viðskiptahallanum með því að koma á betra samræmi milli þjóðarútgjalda og þjóðartekna. Eins og fram hefur komið hér á undan er hallinn nú um 10% af landsframleiðslu sem er meiri halli en hefur áður verið hér á landi við sambærilegar aðstæður.``

Gæti verið, virðulegur forseti, að slík ummæli hafi orðið til þess að menn fóru á fulla ferð við að losna við óþægilega aðila sem teldu að hagstjórnin væri að fara úr böndunum. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Gífurleg útlánaaukning, slaki í hagstjórn, einkum 1998 og 1999, og almennar launahækkanir umfram launabreytingar í helstu viðskiptalöndum hafa viðhaldið uppgangi og eftirspurn í efnahagslífinu. Andlagið er hins vegar mikill viðskiptahalli og erlend lántaka bankakerfisins. Svona mikill halli fær ekki staðist til lengdar og gerir efnahagslífið viðkvæmara fyrir breytingum í ytri aðstæðum.``

Gæti verið að þessi orð hafi orðið til þess fallin að menn vildu losna við óháðan aðila úr samfélaginu sem vildi siða til ríkisstjórnina. Hér segir jafnframt, með leyfi forseta, áfram:

,,Þegar öllu er á botninn hvolft bjóða stjórntæki Seðlabanka ekki upp á að tryggja samtímis verðstöðugleika og minni viðskiptahalla samfara aðstreymi fjármagns. Fyrir vikið er mikilvægt að ríkisfjármálum sé beitt til frekara aðhalds en gert hefur verið. Þar er um að ræða hagstjórnartæki sem samtímis getur stuðlað að því að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla.``

Virðulegur forseti. Gæti verið að þessi orð hafi verið sett fram á óheppilegum tíma og það hafi orðið til þess að á ársfundi Seðlabankans árið 2000 hafi hæstv. forsrh. látið þau orð falla að það þyrfti að leggja þessa stofnun niður eða breyta henni.

Virðulegi forseti. Hér er ein tilvitnunin enn í þetta rit Þjóðhagstofnunar, um þjóðarbúskapinn á árinu 2000 og horfur ársins 2001:

,,Eins og fram kemur hér á undan er ástæða til að endurskoða peninga- og gengisstefnuna og jafnframt auka vægi ríkisfjármálastefnunnar í hagstjórninni.``

Ég skil vel, virðulegur forseti, að menn hafi hrokkið við og átt bágt með að þola ábendingar og aðfinnslur líkt og hér eru settar fram.

Samkvæmt lögum er Þjóðhagsstofnun falið að sinna ákveðnum verkefnum sem er mjög eðlilegt, m.a. að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár og áætlanir, semja og birta opinberlega yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum og m.a. að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál. Enn fremur er henni ætlað að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Stofnunin gegnir að auki því hlutverki að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Hluta af þessum verkefnum tel ég að auðvelt væri að færa til annarra aðila. Mér sýnist að út af fyrir sig væri hægt að færa þjóðhagsreikninga til einhverrar stofnunar. Það má ugglaust verja það að styrkja aðila vinnumarkaðarins til að reikna út ýmsar forsendur fyrir hagfræðilegum athugunum og gera úttektir á því. Ég er hins vegar sannfærður um að það er nauðsynlegt að hafa óháðan aðila sem semur þjóðhagsspá og áætlun og veitir pólitískum aðgerðum aðhald með því að láta starfsmenn sína gera þjóðhagsáætlanir.

Ég hygg að eitt atriði hafi orðið til að flýta fyrir þessari aðgerð, að leggja niður þessa stofnun. Þjóðhagsstofnun hafði smíðað og tekið í notkun nýtt þjóðhagslíkan sem stofnunin studdist við og vildi vinna eftir. Við síðustu fjárlagagerð kom í ljós að verulega bar á milli, virðulegur forseti, þess sem hagfræðingar fjmrn. settu fram og niðurstaðna Þjóðhagsstofnunar. Þar munaði verulega og hefði verið farið eftir spá Þjóðhagsstofnunar er ljóst að fjárlögin hefðu verið með verulegum halla. Ætli það geti ekki verið að sú athugasemd sem hér er sett fram, virðulegur forseti, í sama riti og ég vitnaði til áður, um fjármál hins opinbera, geti verið ástæðan fyrir því að menn eru að leggja þessa stofnun niður.

Það má sjá einnig í þessari skýrslu, virðulegur forseti, að annáll efnahagsmála árið 2000, fyrir hvern einasta mánuð frá janúar til desember, sýnir ótvírætt hvernig stefndi í óreiðu í ríkisfjármálum sem kemur í ljós með óðaverðbólgu, sem svo má kalla, þrefaldri verðbólgu miðað við viðmiðunarlönd okkar, þreföldum stýrivöxtum miðað við það sem gerist í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þar kemur kannski ástæðan fyrir því að menn vilja leggja niður svo óþægilega stofnun sem Þjóðhagsstofnun virðist fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Athugasemdir mínar lúta fyrst og fremst að því hve seint þetta mál er sett fram á þinginu. Þessar hugmyndir hafa reyndar verið á flökti síðan árið 1991. Ég er fús að viðurkenna að minn gamli flokkur, Alþfl., setti ásamt með Sjálfstfl. fram hugmyndir, árið 1991, um að breyta þessari stofnun. Ég er ekki á móti breytingum en ég vil fá að sjá hvað á að koma í staðinn.

[14:00]

Ég hef áður nefnt það að á ársfundi Seðlabankans gaf hæstv. forsrh. út að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og síðan hafa starfsmenn Þjóðhagsstofnunar verið í mikilli óvissu um á hvern hátt þetta yrði framkvæmt. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að öll óvissa og lausung, ekki síst í störfum þessarar stofnunar, skapar óstöðugleika. Ég hef ekki trú á því að verði af þessum breytingum standist sú kostnaðaráætlun sem gerð er grein fyrir í þessu frv. Ég held að biðlaunakostnaður og ýmis annar kostnaður muni fara langt fram úr því sem hér er áætlað. Það mun koma í ljós þótt síðar verði.

Ég velti auðvitað fyrir mér í þessu sambandi hvað menn eru að gera. Lánasýsla ríkisins er annað fyrirtæki, og er enn að störfum. Hvað er búið að gera við þessa stofnun? Hún er núna orðin meðleigjandi hjá Íbúðalánasjóði, og eftir stendur á Hverfisgötunni líklega 700 fermetra hæð í leigu hjá ríkinu. Það er eðlilegt að maður nefni hana um leið, þetta eru skyldar stofnanir, og hvernig stendur á þessari framkvæmd? Hvers vegna var sú stofnun færð? Hvað er verið að gera þar? Er verið að hagræða eða hvað er á ferðinni?

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að ég legðist ekki gegn hagræðingu. Ég er tilbúinn að breyta en mér finnst að það eigi að skýra á einfaldan máta megintilgang aðgerða, hagræn áhrif og grunnrök fyrir þeim aðgerðum sem hér um ræðir. Í þessu frv. sem ég held á í höndunum finnst mér það ekki koma skýrt fram. Hæstv. ríkisstjórn, stórverkefnaaðilar og atvinnugreinarnar þurfa mjög á því að halda að stofnun sem unnt er að skilgreina sem sjálfstæða óháða stofnun sé starfrækt svo gæta megi jafnvægis. Slík óháð stofnun þarf að hafa sjálfstæði til að gefa, eins og hér er gert, ábendingar um áhrif fjárlagagerða, kjarasamninga, stórframkvæmda og áhættuverkefna sem hafa áhrif á gengi og efnahagsmál í landinu.

Virðulegi forseti. Ég rakti annál í heftinu Þjóðarbúskapnum, og það er kannski sá annáll efnahagsmála ársins 2000 sem er lykillinn að því að menn fylgja málinu eftir og ætla að leggja stofnunina niður. Hér er að finna mjög alvarlegar ábendingar til hæstv. ríkisstjórnar um að hún sé að missa tök á efnahagsmálum. Ég tel rétt að láta komandi sumar líða og nýta það betur til að skilgreina á hvaða hátt og hvað það er sem við viljum fá í staðinn. Ég sé ekki, virðulegur forseti, að það liggi nægilega fyrir. Þess vegna ætla ég að ljúka máli mínu með því að beina spurningu til hæstv. starfandi forsrh. og inna hann eftir hugmyndum hans um sjálfstæða óháða stofnun sem unnt er að skilgreina á þann veg sem ég tel að þurfi að vera og sé hægt að treysta sem slíkri, stofnun sem gefur upplýsingar sambærilegar við það sem leitað hefur verið eftir hjá Þjóðhagsstofnun, m.a. af minni hlutanum í fjárln. og fjárln. í heild. Eins hafa einstakir þingmenn getað treyst því að þar er verið að setja fram óháðar viðmiðanir og áætlanir.

Fram hefur komið í máli þingmanna og hv. þm. Jóns Bjarnasonar núna rétt áðan sá mismunur sem orðið hefði ef stuðst hefði verið við áætlanagerð Þjóðhagsstofnunar við fjárlagagerðina miðað við áætlanagerð fjmrn. Með fullri virðingu fyrir þeim sem tilnefndir eru til að taka við hlutverkum eru þeir að mínu viti, hæstv. utanrrh. og starfandi forsrh., allir á einhvern hátt háðir atvinnulífi, pólitík eða fjármálastarfsemi. Þess vegna sé ég ekki að það sé kominn neinn skilgreindur aðili í þessum hugmyndum í lagafrv. Það er engin skilgreining á því hvers konar aðili á að koma í staðinn. Það er engin hugmynd að skipuriti um hvernig svona stofnun á að starfa. Þess vegna legg ég þessar spurningar fram og ég geri atugasemdir og tel að skynsamlegt sé að fresta málinu.