Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:10:58 (7448)

2002-04-10 14:10:58# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hv. þingmaður og aðrir hafa fengið ágætar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun og notið starfa hennar. Það hefur sá sem hér stendur jafnframt gert, bæði sem stuðningsmaður ríkisstjórnar og í stjórnarandstöðu.

Það er náttúrlega langt frá því að það sé eitthvert sérstakt hagsmunamál ríkisstjórnar á hverjum tíma að byggja á vitlausum spám. Það er náttúrlega alveg fráleit hugsun af ríkisstjórn og meiri hluta að byggja vinnu sína á einhverjum falsvonum um framtíð. Það kemur ávallt í bakið á mönnum. Menn hljóta að reyna að gera sér sem raunhæfastar hugmyndir um framtíðina til að geta tekið réttar ákvarðanir, og þó að þarna beri stundum í milli getum við ekki fullyrt að einhver sé óskeikull í þeim efnum. En ég sé enga ástæðu til að efast um vilja Seðlabankans í þessum málum. Dettur einhverjum í hug að Seðlabanki Íslands fari að láta hafa sig í það að koma með rangar spár til að þóknast ríkisstjórn á hverjum tíma? Það liggur alveg ljóst fyrir að þar með væri Seðlabankinn rúinn trausti sem gæti haft áhrif á ýmsa þætti efnahags- og peningamála, gengi og trú á íslenskt samfélag. Það vill svo til að Seðlabankinn hefur ákveðið að stórauka starf sitt á þessu sviði þannig að hann geti lagt sjálfstætt mat á þessa þætti og komið sér upp upplýsingakerfi sem sé óháð öðrum. Þetta hefur komið fram í samtölum mínum við Seðlabankann og ég treysti því að þeir muni gera það með hlutlægum hætti.