Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 15:36:44 (7456)

2002-04-10 15:36:44# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Loks er hér komið til umræðu mál sem hefur verið töluvert rætt, ekki bara á undanförnum mánuðum og missirum heldur reyndar miklu lengur, þ.e. spurningin um hvernig haga skuli verkaskiptingu milli þeirra stofnana á Íslandi sem véla um hagtölur, efnahagsspár, hagrannsóknir og skýrslugerð í því sambandi.

Auðvitað er það út af fyrir sig mjög athyglisvert og þætti sjálfsagt víða annars staðar alveg furðulegur hlutur að menn skuli standa í háværum pólitískum deilum af því tagi sem hér hafa átt sér stað um slíka verkaskiptingu og staðsetningu þeirra verkefna sem um er að tefla. Ég hygg að það þætti víða stórfurðulegt.

Ég nefndi það að þetta mál væri ekki nýtt af nálinni. Það er meira að segja svo gamalt að það var uppi þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem hefur þetta mál allt á hornum sér, var hér í sínu fyrra lífi sem þingmaður og þetta var eitt af því sem ríkisstjórnin sem hann settist í 1983 hafði vélað um, þ.e. spurninguna um að breyta þeirri verkaskiptingu. Sú ríkisstjórn setti á laggirnar sérstaka stjórnkerfisnefnd þar sem m.a. var gerð tillaga í líkingu við það sem felst í frv., að sjálfsögðu að breyttu breytanda, vegna þess að ýmislegt hefur nú sem betur fer breyst á þeim 19 árum sem síðan eru liðin.

Annar ágætur þingmaður flutti á sínum tíma þáltill. um að leggja niður Þjóðhagsstofnun og sú tillaga var samþykkt í breyttri mynd sem ályktun Alþingis að mig minnir á árinu 1988. (JóhS: Hvernig breyttri mynd?) Hún var samþykkt þannig að ákveðið var að Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórninni að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar og meta hvort hagkvæmt væri að fela öðrum verkefni hennar. Segja má að það hafi tekið nokkuð langan tíma að framkvæma þá athugun en niðurstaðan liggur fyrir í þessu frv. þar sem verið er að fela öðrum aðilum þá starfsemi sem hún hefur með höndum.

Það er því algjörlega fráleitt að halda því fram að þetta mál sé til komið vegna sérvisku, geðvonsku, sérskoðana (Gripið fram í: Duttlunga, kannski.) eða duttlunga ákveðins manns. (Gripið fram í.) Það er bara alveg fráleitt. (SJS: Þú kannt orðin samt.) Já, ég hef verið að hlusta á ykkur, herrar mínir. (SvH: Geðbrigði ...) Ja, það er nú slíkt nýyrði að ég hef ekki tileinkað mér það enn þá.

En með öðrum orðum er þetta ekki nýtt mál og auðvitað eiga menn að geta rætt það í góðu jafnvægi hvernig eigi að skipta hér verkum. Og það er niðurstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar að rétt sé að gera breytingar á og þær felast í því að skipta upp þeim verkefnum með þeim hætti sem fram kemur í frv. og menn telja sig sjá út úr því ekki bara langtímasparnað, ekki bara hagræðingu til lengri tíma, heldur einnig betri nýtingu á starfsfólki, mannafla og öðru sem þarna tilheyrir og bætta verkaskiptingu.

Það hefur t.d. alltaf verið mikið álitaefni hvort gerð þjóðhagsreikninganna ætti að vera hjá þessari stofnun eða hvort hún ætti að vera á Hagstofunni. Nú er tekið af skarið með það að Hagstofan tekur þetta að sér. Reyndar hefur það verið mikið álitamál lengi að mínum dómi hvort Hagstofan ætti að vera sjálfstætt ráðuneyti, eins og hún hefur nú verið nokkra áratugi, og ætlunin er að gera líka breytingu á því, hún verði bara stofnun undir ákveðnu ráðuneyti eins og raunin er í öðrum löndum, enda gegnir hún ekki stefnumótunarhlutverki eins og ráðuneyti almennt gera. Þó svo að hugsanlega komi þarna til einhvers biðlaunakostnaðar, og ég vænti þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, geri nú ekki lítið úr því að staðið sé við þau réttindi sem menn eiga í þeim efnum og þrátt fyrir að til kunni að koma --- sem við vitum ekki enn --- einhver kostnaður af þeim sökum þá er hann að sjálfsögðu tímabundinn. En til lengri tíma má hiklaust reikna með því að út úr þessu komi sparnaður og í það minnsta betri nýting og bætt verkaskipting frá því sem nú hefur verið.

Ég gat þess áðan að breyttar aðstæður væru í þjóðfélaginu frá því sem var árið 1983 þegar menn voru að velta þessu fyrir sér í tengslum við myndun ríkisstjórnar. Hin hefðbundnu verkefni sem þekktust á þeim tíma hjá umræddri stofnun eru gjörbreytt. Nú er það þannig að efnhagsmálin snúast í miklu ríkari mæli en áður var um tvennt, þ.e. stefnuna í peningamálum og stefnuna í ríkisfjármálum, með svipuðu móti og alls staðar annars staðar. En áður fyrr var það eitt meginverkefni Þjóðhagsstofnunar, sem hefur ekki með þetta tvennt að gera eins og við vitum, peningamál og ríkisfjármál, að útbúa alls kyns efnahagspakka, t.d. í tengslum við aðgerðir í sjávarútvegsmálum, í tengslum við aðgerðir í verðlagsmálum og fleira þess háttar, sem núna er liðin tíð. Þess vegna hefur ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar að þessu leyti varðandi almenn efnahagsmál minnkað mikið, og það er það sem menn eru að tala um í sambandi við breytta tíma og breytta stöðu í þjóðfélaginu varðandi þessi málefni. Og auðvitað er ekkert óeðlilegt við það að menn taki sig saman og endurskoði mál sem þetta og hlutverk stofnunar sem nú er orðin 28 ára gömul og taki það til endurskoðunar.

Síðan er það þannig að fjölmargir aðrir aðilar í þjóðfélaginu hafa sem betur fer komið sér upp aðstöðu til þess að fylgjast með þessum málum á sjálfstæðan hátt, þar á meðal sú skrifstofa sem hv. þm. Ögmundur Jónasson veitir forstöðu á Grettisgötu 89, þ.e. skrifstofa BSRB, og aðrir aðilar á vinnumarkaðnum, ég vil segja sem betur fer. Sama er að segja um bankastofnanirnar og fjármálastofnanirnar í landinu sem geta á sjálfstæðan hátt gefið álit og veitt aðhald. Og hvernig dettur mönnum svo í hug að halda því fram í aprílmánuði árið 2002 að það að líkönin sem fylgja gerð þjóðhagsáætlunar og þeirra hluta, að slík líkön skuli flytjast yfir í efnahagsskrifstofu fjmrn. þýði það að nú fari menn allt í einu að kokka þau mál með pólitískum hætti? Hvernig dettur mönnum í hug að nokkur viti borinn stjórnmálamaður eða hagfræðingur eða fagaðili á þessu sviði láti sér detta í hug að ætla að fara að kokka eitthvað með það með pólitískum hætti vitandi það hvernig aðhaldið er frá þeim aðilum sem hafa eigin burði til þess að fylgjast með þessum málum. (SJS: En grunnupplýsingarnar?) Staðreyndin er sú að það mundi ekki nokkur einasti stjórnmálamaður komast upp með slíka tilburði nema einu sinni vegna þess að hann mundi þá verða gerður ber að ómerkilegum vinnubrögðum og ekkert okkar sem hér vinnum kærum okkur um slíkt.

[15:45]

Við gerð allra efnahagsspáa verða menn hins vegar auðvitað að reyna að átta sig á stefnu stjórnvalda, hvaða áhrif hún hefur á þróun mála og þar með á þær spár sem menn eru að reyna að búa til í þessum líkönum. Af þeim sökum er ekki óviturlegt að efnahagsskrifstofa fjmrn., sem hefur beinan aðgang að þeirri stefnumótun, hafi þær upplýsingar tiltækar í spágerð sinni enda er þetta svona í öðrum löndum. Í nálægum löndum er þessu fyrir komið eins og hér er verið að leggja til að því er ég best veit. Það er því alveg fráleitt að gera því skóna að með þessum tilflutningi verkefna, annars vegar til Hagstofunnar og hins vegar í efnahagsskrifstofu fjmrn. og hugsanlega að einhverju leyti í Seðlabankann, sé verið að gera efnahagsspárnar sem koma út reglulega að einhverju pólitísku tæki sem ríkisstjórnin gæti og væri líkleg til að misnota. Ég segi það a.m.k. fyrir sjálfan mig --- ég þykist vita að það eigi líka við um þá sem hafa verið að halda þessu fram, að þeir vilji ekki vera staðnir að verki í slíku spili --- að ekki vil ég láta það spyrjast um mig. Ég veit að hinir ágætu forustumenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði mundu heldur ekki falla í svo ómerkilega freistingu að misnota slíka aðstöðu.

Nei, ég held að hér beri allt að sama brunni, herra forseti. Það er orðið tímabært að gera þessar breytingar. Séð verður fyrir þörfum þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu Þjóðhagsstofnunar með ákveðnum hætti. Það er ekkert óeðlilegt að t.d. sjútvrn., iðnrn., umhvrn. og aðrir sem þangað hafa leitað um hluti annaðhvort annist mál sín sjálf eða kaupi þá þjónustu úti á markaðnum þar sem hún er nú fáanleg, eða hjá háskólanum eða þessum greiningarfyrirtækjum, þegar þau þurfa á því að halda varðandi skýrslur um málefni sín. Að öðru leyti geta þau fallið undir efnahagsskrifstofuna í fjmrn., Hagstofuna og að einhverju leyti Seðlabankann eins og hér er gert ráð fyrir og eins og utanrrh. gerði mjög ítarlega grein fyrir í framsögu sinni.

Hér er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Allir hafa fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þar á meðal starfsmenn stofnunarinnar. Þeir hafa látið álit sitt í ljósi. Hvernig er það, hv. þingmenn, þegar tvö algjörlega misjöfn álit eru uppi? Þá verður að fara aðra hvora leiðina. Það er ekki hægt að taka tillit til beggja, fara hálfa leið og leggja niður helminginn af Þjóðhagsstofnun. Sú pólitíska stefna var mörkuð að fara þessa leið. Auðvitað hafa starfsmennirnir fullan rétt á því að hafa aðra skoðun á málinu og það er auðvitað ætlunin að koma fram við þá með eðlilegum hætti og af fullri reisn þannig að þeir geti haldið áfram sínum mikilvægu störfum vegna þess að verkefnin sem hér er um að tefla þarf auðvitað að vinna áfram og eflaust eru engir betur til þess fallnir en þeir starfsmenn sem hafa verið að vinna við þetta. Ég vil nota tækifærið og undirstrika að það er mjög mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að vinna áfram við þessi verkefni þó að það verði á öðrum stofnunum.

Ég skil ekki þessa íhaldssemi hv. þingmanna Vinstri grænna og tregðu til breytinga sem kemur fram í þessari afstöðu, þessari stofnanaást þessara ágætu vina minna.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að ég tel mjög brýnt að þetta mál hljóti afgreiðslu vegna þess að ella getur óvissan um það torveldað mjög starfsemi stofnunarinnar og það sem fram undan er í verkefnum hennar. Það er sjálfsagt ekkert skemmtilegt að vera starfsmaður á stofnun þar sem svona óvissa ríkir, og áreiðanlega hyggja hinir og þessir aðilar í þjóðfélaginu gott til glóðarinnar að því er varðar þennan starfskraft, geta hugsað sér að fá þetta fólk í þjónustu sína. Til þess að ríkið geti tryggt sér þjónustu þessara starfsmanna þarf náttúrlega að ljúka málinu og allir þurfa að vita hvar þeir standa, bæði ríkið sem vinnuveitandi og sem sá aðili sem ber ábyrgð á þessari starfsemi og svo auðvitað það góða starfsfólk sem þarna er og hefur margt hvert unnið þar langtímum saman. Af þeirri ástæðu m.a. er auðvitað alveg nauðsynlegt að fá botn í þetta mál, ljúka því, fá frv. afgreitt og samþykkt sem lög frá Alþingi.