Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:03:49 (7463)

2002-04-10 16:03:49# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er kominn botn í þá hlið málsins, hv. þm., og er rétt að geyma sér allar fullyrðingar um það þar til það mál skýrist. En ég vil aðeins út af því sem þingmaðurinn gat um í upphafi fyrra andsvars síns varðandi stjórnarsáttmálann frá 1991 nefna að þar er stigið skref í þessa átt og þó að þingmaðurinn hafi þá verið í ríkisstjórn og jafnvel hugsanlega verið eitthvað á móti þessu, bæði í þeirri ríkisstjórn sem þá var mynduð og þeirri næstu á undan, en hafi þingmaðurinn verið á móti þessu máli þá, þá má segja að hún hafi haft sitt fram vegna þess að það varð því miður ekkert af þeim áformum sem um er getið í stjórnarsáttmálanum 1991. En síðan hafa þessi mál verið að þróast. Greiningardeildir fjármálafyrirtækjanna voru ekki til árið 1991. Þeir aðilar sem hafa komið sér upp aðstöðu til þess að vinna slík verk voru ekki til eða starfsemi þeirra var ekki hafin. Það hefur því margt gerst á þessu tíu ára tímabili og þetta mál var því orðið mjög tímabært.