Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:07:46 (7472)

2002-04-10 18:07:46# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef oft talað fyrir því hér á hv. Alþingi að endurskoða þurfi rekstur ríkisins, verkefni stofnana, hvað eigi að vera hjá ríkinu, hvað eigi að vera hjá sveitarfélögum og hvaða verkefni er hægt að flytja yfir til einstaklinga. Ég hef einnig talið ástæðu til þess að skoða stofnanir og ráðuneyti þar sem verkefni skarast, fara yfir það og skýra verkaskiptinguna frá því sem nú er.

Ég hef verið hlynnt því að færa ýmis verkefni sem hafa verið hjá ríkinu frá því, í takt við tímann og breytt umhverfi. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að um allar þær stofnanir sem fjalla um efnahagsmálin gildi allt önnur lögmál heldur en um annan rekstur ríkisins. Ég held að frv. sem hér er til umræðu, um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, sé stórt skref aftur á bak varðandi stjórn efnahagsmála og upplýsingagjöf, hvort sem er til almennings, Alþingis, verkalýðshreyfingarinnar eða atvinnurekenda. Með þessu á að rjúfa sjálfstæði stofnunar sem hefur fjallað um og gefið út bæði spár og áætlanir í efnahagsmálum. Ég tel að með þessu sé rofið sjálfstæði sem þó hefur verið reynt að byggja upp á undanförnum árum.

Hæstv. fjmrh., sem talaði hér áðan, sagði að það yrði að klára þetta mál, að óvissan væri verst, vond fyrir stofnunina og vond fyrir starfsfólkið. Ég get alveg fallist á það. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að óvissan um rekstur Þjóðhagsstofnunar hefur verið gjörsamlega óþolandi í heilt ár. Maður skyldi þá ætla að hafi hæstv. forsrh. verið óánægður með reksturinn þá hefði árið verið notað, þ.e. frá því að hæstv. forsrh. tilkynnti starfsfólki þessarar stofnunar það að hún yrði lögð af, til að hafa samráð við starfsmenn Þjóðhagsstofnunar um hvernig ætti að standa að málum í fullu samráði við starfsmenn stofnunarinnar.

En svo er ekki, virðulegi forseti. Í áliti fulltrúa Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar á frv. til laga um afnám og brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, kemur mjög skýrt fram að það hafi í engu verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar.

En þar segir, með leyfi forseta:

,,Fulltrúar Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar eru algerlega mótfallnir þeim áformum er birtast í frumvarpinu og telja að þau muni ekki leiða til eflingar faglegrar umfjöllunar um íslenskan þjóðarbúskap né til hagræðingar í rannsóknum á efnahagsmálum. Í vinnu samstarfshópsins hefur í engu verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar.``

Síðar segir um aðdragandann, með leyfi forseta:

,,Þá vill Starfsmannafélagið benda á þann aðdraganda sem málið hefur haft. Ár er liðið síðan forsætisráðherra nefndi í sjónvarpsviðtali að leggja ætti Þjóðhagsstofnun niður í sömu andrá og hann lýsti óánægju með spár stofnunarinnar. Í byrjun apríl 2001 boðaði ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis starfsmenn til fundar þar sem hann ræddi um að framkvæma ætti þær breytingar sem frumvarpið fjallar um. Taldi ráðuneytisstjórinn að hægt væri að framkvæma þessa endurskipulagningu án lagabreytinga. Síðar var hætt við þessi áform og skipaður samstarfshópur í júní. Þessi hópur hittist nokkrum sinnum til málamynda síðastliðið haust og stendur meiri hluti hans að frumvarpinu. Tekið skal fram að í þeirri vinnu sem fram hefur farið hefur meiri hluti samstarfshópsins aldrei ljáð máls á því að ræða aðra möguleika til endurskipulagningar en þann að leggja niður Þjóðhagsstofnun.``

Hæstv. fjmrh. talaði um að sú óvissa sem starfsfólkið hefur búið við þetta ár hafi verið ólíðandi. Ég get tekið undir að fullu en því er alls ekkert lokið þó að þetta frv. yrði nú samþykkt frá hv. Alþingi. Þeirri óvissu yrði aldeilis ekkert lokið samkvæmt því sem segir í áliti starfsmanna, með leyfi forseta:

,,Starfsmannafélagið bendir á að það telur bráðabirgðaákvæði frumvarpsins ábótavant þar sem það tryggi ekki rétt starfsfólks, auk þess sem það er ekki í samræmi við umræður samstarfshópsins og skipunarbréf hans. Í skipunarbréfi segir: ,,... er samstarfshópnum ætlað að útfæra nánar hvernig starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar verði tryggð sambærileg störf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar.````

Niðurstaðan er hins vegar önnur. Í bráðabirgðaákvæði frv. stendur hins vegar:

,,Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar boðið annað starf hjá þeim stofnunum er taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar.``

Í grg. með frv. kemur fram, virðulegi forseti, að svo gæti farið að ekki yrði um sambærileg störf að ræða þar sem eðli starfseminnar breytist og skiptist niður á fleiri en eina stofnun.

Maður skyldi ætla að það væru ekki margir lausir endar þegar frv. um að leggja Þjóðhagsstofnun niður, sem hefur legið í loftinu í heilt ár, er loks lagt fyrir Alþingi. Það kemur hins vegar ekki einu sinni á réttum tíma, þ.e. innan þeirra marka sem þingið setur sér um framlagningu mála. Maður skyldi hins vegar ætla að búið væri að hnýta alla lausa enda og ganga þannig frá málunum í sátt við starfsfólkið, sem mér finnst nú skipta mjög miklu. Mér finnst það reyndar skipta meginmáli, að starfsfólk sem hefur sinnt verkefnum Þjóðhagsstofnunar á undanförnum árum með afbrigðum vel og býr yfir gífurlegri sérþekkingu á þeim verkefnum sem falla undir verksvið Þjóðhagsstofnunar, sé sátt við frv. þegar það er lagt fram. Það hefði þurft að vinna í sátt við starfsfólkið.

[18:15]

Svo er þó ekki miðað við þá umsögn sem við höfum fengið frá starfsmannafélaginu og þær greinar sem birst hafa frá einstökum starfsmönnum í dagblöðum eða viðtöl í fjölmiðlum á undanförnum vikum.

Ef frv. verður samþykkt verður það að lögum 1. júlí 2002, og enn eru verulega lausir endar á því hvert verkefni sem eru hjá Þjóðhagsstofnun eiga að fara, og þá kannski ekki síst það sem lýtur að því að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Samtök launafólks hafa haft mjög gott samstarf við Þjóðhagsstofnun á undanförnum árum. Þar hefur byggst upp gagnkvæmt traust og samtök launafólks hafa getað leitað til Þjóðhagsstofnunar með ýmis úrlausnarefni, bæði hvað varðar upplýsingar um efnahagsmál og einnig til að fá stofnunina til að vinna fyrir sig hagfræðilegar athuganir.

Nú sýnist mér þetta vera þannig, það sem er ljóst og kemur fram í grg., að einhver hluti þeirra verkefna sem unnin voru af þessari sjálfstæðu stofnun fyrir samtök launafólks fari m.a. inn í ráðuneyti. Það hefur komið fram í umræðunni og kemur einnig fram í umsögn starfsmannafélagsins sem ég hef hér áður vitnað í og geri aftur, með leyfi forseta:

,,Þjóðhagsstofnun hefur mikla sérstöðu í efnahagsumhverfinu sem óháð sérfræðistofnun sem nýtur trausts og álits og er talin vinna faglega að þeim málum sem henni hafa verið falin. Þá nýtur stofnunin trúnaðar atvinnurekenda jafnt og verkalýðshreyfingar. Henni hafa verið falin ýmis verkefni af ráðuneytum og þingmönnum sem leitað hafa til sérfræðinga stofnunarinnar. Þjóðhagsstofnun tryggir því greiðan aðgang þingmanna allra flokka, aðila vinnumarkaðarins og alls almennings að áreiðanlegum upplýsingum um framgang efnahagsmála og er þessi starfsemi tryggð í lögum um stofnunina.

Samkvæmt frumvarpinu verður gerð efnahagsspáa og áætlana færð til fjármálaráðuneytis. Spágerðin yrði því undir pólitísku forræði og gæti því ekki talist óháð. Þessi breyting felur því í sér að stjórnvöld sjá ekki ástæðu til að reka pólitískt óháða efnahagsstofnun. Eðlilegra hefði verið að auka enn frekar sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar.``

Ég vil, virðulegi forseti, taka eindregið undir þau ummæli sem hér koma fram í umsögn Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar um frv. og tel að það skipti afar miklu máli að þeir sem þurfa á þeirri vinnu að halda sem hefur verið innt af hendi innan Þjóðhagsstofnunar geti treyst því fullkomlega að hún sé ekki undir pólitísku forræði eða að þar ráði mat ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma. Með þessu er ekki verið, eins og hér hefur komið fram í máli hæstvirtra ráðherra og þá sérstaklega hjá hæstv. fjmrh. sem talaði rétt fyrir þinghlé, að væna starfsmenn fjmrn. um óheil vinnubrögð.

Málið snýst ekki um það. Starfsmenn fjmrn. eiga auðvitað fyrst og fremst að koma til skila ákvörðunum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Það er bara ósköp einfaldlega hlutverk þeirra. Þegar ríkisstjórn hefur mótað efnahagsstefnu sína mun hún að sjálfsögðu koma fram í ráðuneytum, hvort sem um er að ræða fjmrn. eða önnur fagráðuneyti. Jafnframt eru skilaboðin skýr til þeirra stofnana sem heyra til þessara ráðuneyta. Fæstar þeirra, og kannski engin, búa við sjálfstæði að því marki að geta gefið ópólitíska ráðgjöf vegna þess að þessar stofnanir eru flestar og nánast allar bundnar af pólitískri stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Og það er ekkert víst að það sé neitt svo sérstaklega ámælisvert vegna þess að að sjálfsögðu verður að búast við því að stofnanir ríkisins framfylgi þeirri stefnu sem ríkisvaldið á hverjum tíma hefur sett.

Hér hefur hins vegar verið starfandi Þjóðhagsstofnun sem hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og lagt mjög mikinn faglegan metnað í verk sín og þá ekki hvað síst samskipti sín við samtök launafólks í landinu. Ég sé ekki, eftir að hafa lúslesið grg., hvar slík verkefni verða vistuð og hvernig þeim verður mætt þannig að samtök launafólks geti treyst því fyllilega að þar sé um ópólitíska ráðgjöf eða niðurstöður að ræða.

Ég hlustaði, virðulegi forseti, á samtal við framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands í morgun í fjölmiðli. Þar sagði hann að fyrir helgi hefðu stjórnvöld haft samband við ASÍ til að ræða þessar breytingar, þ.e. að leggja niður Þjóðhagsstofnun og þá þjónustu sem Þjóðhagsstofnun ber lögum samkvæmt að veita aðilum vinnumarkaðarins. Það hefðu síðan átt sér stað einhverjar tvíhliða viðræður á milli ASÍ og ríkisstjórnarinnar um helgina og náðst í þeim niðurstaða hvað varðar þau verkefni. Ég gat ekki betur skilið en að það ætti að bæta ASÍ á einhvern hátt upp þann missi sem þessi stóru samtök verða fyrir hvað varðar ráðgjöf, hugsanlega þá með því að efla þau eða hagdeild ASÍ, sem ég held að sé nú án starfsmanns þessa stundina, að um það hefði náðst ákveðið samkomulag. Fréttamaðurinn þráspurði framkvæmdastjórann í hverju þetta samkomulag fælist. Og framkvæmdastjórinn svaraði því ekki.

Ég leitaði að svörum í grg. með frv. um hvers konar samkomulag væri hugsanlega að ræða á milli ríkisstjórnarinnar og ASÍ, um það hvernig þessu skuli fyrir komið gagnvart ASÍ. Það eina sem er að finna þar er á bls. 6 í grg. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Aðilar vinnumarkaðarins hafa um alllangt skeið rekið öfluga starfsemi á þessu sviði sem hefur einna skýrast birst í þætti Alþýðusambands Íslands hvað varðar almenna stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Sama má segja um Samtök atvinnulífsins. Þetta er mikilvægur þáttur í almennri efnahagsumræðu og mótun efnahagsstefnunnar hverju sinni og nauðsynlegt að renna styrkum stoðum undir hann.``

En á hvern hátt á að bregðast við, á það er ekki minnst. Þegar talað er um aðila vinnumarkaðarins og hlutverk Þjóðhagsstofnunar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og þá ekki síst gagnvart samtökum launafólks þá er þar ekki bara um að ræða ASÍ. Það eru gott betur fleiri samtök launafólks sem hafa þurft að sækja ráðgjöf til Þjóðhagsstofnunar og renna þarf styrkum stoðum undir þá starfsemi gagnvart þeim ekki síður en ASÍ. Það er, virðulegi forseti, afar mikilvægt að ná góðu samkomulagi við Alþýðusamband Íslands um hvernig þessum málum verður fyrir komið, en það er ekki síður mikilvægt að ræða það við BHM, BSRB, Kennarasamtökin, Samtök bankamanna og aðra sem starfa fyrir launafólk í landinu. Því það þarf ekkert að segja mér að hægt sé að gera einhvern samning, sem enn þá virðist vera einhver leynisamningur sem ekki megi greina frá hvernig þeim málum skuli fyrir komið, við Alþýðusamband Íslands svo sterkt og gott sem það nú er, að það veiti öðrum launþegasamtökum þjónustu, að hagdeild ASÍ eigi hugsanlega að koma í staðinn fyrir þá þjónustu sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt samtökum launafólks í landinu. Það bara gerist ekki þannig.

Oft og tíðum eru aðrar forsendur sem liggja að baki þeim beiðnum sem fara frá Alþýðusambandinu til Þjóðhagsstofnunar varðandi útreikninga og upplýsingagjöf og faglega skoðun á málum heldur en frá öðrum samtökum launafólks í landinu, ég nefni t.d. BSRB og BHM. Það getur ekki gengið að fram fari einhliða viðræður við ASÍ og náð sé samkomulagi við ASÍ um það hvernig þessum málum skuli fyrir komið, en önnur samtök launafólks í landinu sitji hjá garði, það kemur bara ekki til greina. Ekki er hægt að samþykkja frv. á þeim forsendum. Ekki er hægt að bjóða þingheimi upp á það að segja: Þessum málum er vel fyrir komið --- nema nákvæmlega liggi fyrir hvert þessi verkefni fara, hver á að vinna upplýsingarnar fyrir samtök launafólks í landinu og þá öll. Fyrr verður frv. ekki afgreitt hér.

Ég býst við að býsna margir þingmenn séu sama sinnis og muni vera tilbúnir til að standa hér í pontu við 2. umr. málsins og ræða það fram og til baka þangað til fyrir liggur hvers konar samkomulag er búið að gera varðandi þetta sérstaka verkefni Þjóðhagsstofnunar, svo ekki sé minnst á önnur verkefni, eins og það sem snýr að okkur þingmönnum. Ég legg því mikla áherslu á, virðulegi forseti, að þær upplýsingar liggi fyrir þegar nefndin lýkur störfum og okkur verði ekki boðið upp á að fara í 2. umr. án þess að við vitum nákvæmlega hver á sinna þeim verkum.

Fyrir liggur, eins og ég nefndi áðan, að ef frv. verður samþykkt taka lögin gildi 1. júlí nk. Og þá er komið að kostnaðarþættinum. Fram hefur komið í umsögn starfsmannafélagsins að það verður enginn sparnaður, sem er eitt af meginmarkmiðunum sem maður getur lesið um í grg., að ná fram hagræðingu og sparnaði, en það er ekki svo. Meira að segja er reiknað með því að kaupa þurfi af einkaaðilum töluvert af þeirri þjónustu sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt. Og á hverjum lendir það þá? Það lendir á þeim sem hafa hingað til nýtt sér þá þjónustu og þar á meðal Alþingi. Ég hef ekki séð þess stað --- ég skoðaði fjárlögin og skoðaði grg. með frv. til fjárlaga og það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögunum að þeir sem hafa þurft að nýta sér þessa þjónustu, þ.e. sem fellur undir fjárlög íslenska ríkisins, að einhverjir peningar séu til þar til að kaupa aukna þjónustu. Það er ekki þannig. Alþingi hlýtur þá að fara fram á að við fáum fjárveitingar til að mæta þeim kostnaði, þeim aukakostnaði sem hlýst af því að við þurfum að leita eftir þeirri þjónustu annars staðar en til Þjóðhagsstofnunar. Ég fullyrði að það kostnaðarmat sem hér kemur fram frá fjmrn. er að því leytinu til rétt að verið er að skipta kostnaðinum upp, fjárveitingum sem eru til Þjóðhagsstofnunar, en það mun, virðulegi forseti, bætast við ekki kannski jafnmikill kostnaður en allt að því.