Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:28:17 (7473)

2002-04-10 18:28:17# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að það liggi nokkuð ljóst fyrir eftir þá umræðu sem hefur orðið um frv. í dag að hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hafa getað gert mjög illa grein fyrir því hvað verður um öll þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum og langt í frá að þeir hafi getað sannfært þingheim um að hér verði faglega að verki staðið við þessa breytingu, sem ég tel mjög vanhugsaða. Það stendur líka upp úr, herra forseti, eftir þessa umræðu að ráðherrar og ríkisstjórn hafa ekki hugmynd um þann kostnað sem mun fylgja þeirri breytingu að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Eitt er víst og hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað, hæstv. fjmrh. og hæstv. starfandi forsrh., hafa þó viðurkennt það að hér sé ekki um sparnað að ræða, enda er erfitt að gera það þegar maður skoðar bæði frv., grg. og fylgiskjal fjárlagaskrifstofunnar þar sem fram kemur að miklu frekar er um að ræða aukningu heldur en að dregið sé úr útgjöldum. Og ég spái því, herra forseti, að við munum standa frammi fyrir því þegar upp er staðið að það verður helmingi dýrara að fara þessa leið en að hafa málin í þeim farvegi sem þau eru núna með óháðri stofnun sem greinir stöðu efnahagsmála og er í hagrannsóknum.

Þegar liggur fyrir að allt það fjármagn sem hefur farið til að reka Þjóðhagsstofnun fer núna í fjmrn. og skiptist milli fjmrn. og Hagstofunnar. Síðan kemur þessi tímabundni aukakostnaður varðandi biðlaunin og varðandi flutninginn og síðan er alveg ljóst og þar liggur óvissan sem ráðherrar hafa ekki getað svarað þótt þeir ítrekað hafi verið spurðir að færa á verkefni til ráðuneyta sem kallar alveg örugglega á útgjöld sem við munum sjá þegar við næstu fjárlagagerð og færa á verkefni til einkaaðila og kaupa greiningarþjónustu eins og hæstv. fjmrh. orðaði það í dag.

[18:30]

Það er líka alveg ljóst eftir þá umræðu sem hér hefur orðið og fyrirspurn til hæstv. fjmrh. þar að lútandi að menn vita ekkert hvað þeir eru að fara að því er varðar hagdeildir aðila vinnumarkaðarins. Hæstv. ráðherrar koma sér undan því að svara þegar þeir eru spurðir hvaða kostnað um sé að ræða í því sambandi, hvort hagdeild ASÍ eigi ein að sitja að því að fá fjármagn til að styrkja hagdeild sína eða hvort jafnræði verði milli hagdeilda samtaka atvinnulífsins, bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar, í þessu efni. Ég spái því að þegar upp verður staðið verði helmingi dýrara að þjóna þessum dyntum hæstv. forsrh.

Reyndar kemur fram í áliti fulltrúa Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar orðrétt að því er þennan þátt varðar, og les ég nú úr álitinu með leyfi forseta: ,,Reyndar viðurkenndi ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis á fundi með starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar í apríl árið 2001 að ekki væri um að ræða sparnað með því að leggja niður Þjóðhagsstofnun, heldur mundu útgjöld vaxa í kjölfarið, a.m.k. fyrst um sinn.`` Það liggur því meira að segja fyrir staðfest af ráðuneytisstjóra í forsrn.

Það er ansi klént, herra forseti, að standa hér og ræða þetta frv. ríkisstjórnarinnar sem kallar á tvöföldun á kostnaði frá því sem nú er. Þegar upp verður staðið munum við hafa farið út í um 100 millj. kr. útgjaldaaukningu að því er varðar hagrannsóknir og greiningu á þjóðhagsspá. Á sama tíma er Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem hefur það verkefni að greina fötluð börn, önnur ráðgjafarstöð á vegum ríkisins, í uppnámi af því að ekki er hægt að setja til starfsemi hennar þær 10--30 millj. sem þarf til þess að hún geti grynnkað á biðlistum þannig að börn fái eðlilega greiningu. Þannig er forgangsröðin hjá þessari ríkisstjórn, herra forseti.

Alveg er deginum ljósara að mjög mun þrengja að allri aðstöðu þingmanna til að fá aðstoð, útreikning og annað sem þeir þurfa á að halda til að sinna starfi sínu að því er þetta mál varðar. Fróðlegt væri að spyrja hæstv. starfandi forsrh. hvað eftirfarandi í greinargerðinni þýðir, með leyfi forseta: ,,Á sömu forsendum er Seðlabankinn reiðubúinn að láta aðilum vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkum, sem fulltrúa eiga á Alþingi, í té upplýsingar og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um semst.``

Hvað þýðir þetta ,,eftir því sem um semst``? Á eftir að semja um það að hve miklu leyti Seðlabankinn er tilbúinn að annast þær athuganir og útreikninga sem þingmenn og stjórnmálaflokkar þurfa á að halda eða er bara verið að tala um stjórnmálaflokkana í heild? Er verið að tala um að einstakir þingmenn geti leitað til Seðlabankans eftir þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda og þarf eitthvað sérstaklega að semja við Seðlabankann um þetta mál? Ég held að verið sé að þrengja mjög, herra forseti, að aðstöðu þingmanna. Í þeim töluðum orðum er rétt að rifja upp frv. Kristins H. Gunnarssonar o.fl. sem flutt var á 122. löggjafarþingi sem sýnir að sá ágæti formaður þingflokks framsóknarmanna, sem ekki hefur látið sjá sig við þessa umræðu, var allt annarrar skoðunar fyrir örfáum árum. Þá taldi hann að breyta ætti lögum um Þjóðhagsstofnun, ekki í þá veru að leggja hana niður heldur að færa hana undir Alþingi, og með hvaða rökum, herra forseti? Þar segir í greinargerð þingmannsins, með leyfi forseta:

,,Vegna hlutverks stofnunarinnar er talið nauðsynlegt að hún sé að öllu leyti óháð stjórnvöldum.``

Nú er þessi hv. þm. allt í einu farinn að styðja það að flytja allar efnahagsspár og stóran hluta verkefna Þjóðhagsstofnunar inn í fjmrn. þar sem þau munu lúta pólitískri forskrift þeirra sem þar stjórna. Þingmaðurinn segir í greinargerð sinni, með leyfi forseta:

,,Telja verður óheppilegt og jafnvel óeðlilegt að Þjóðhagsstofnun skuli heyra undir forsætisráðuneytið jafnframt því að stofnunin eigi að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn.``

Þessi hv. þm. er því aldeilis búinn að breyta um skoðun og telur enga ástæðu til að greina þinginu frá því við þessa umræðu.

Ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra varðandi starfsmennina. Þeir hafa eðlilega miklar áhyggjur af atvinnuöryggi sínu og í áliti fulltrúa starfsmannafélagsins er sagt að hugmyndin hafi verið að útfæra nánar hvernig starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar yrðu tryggð ,,sambærileg störf`` hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar en í ákvæði til bráðabirgða í frv. er núna einungis talað um ,,annað starf`` hjá þeim stofnunum. Ég spyr, herra forseti: Er hugmyndin meðan málið er til meðferðar í þinginu að fram fari samtöl við starfsmennina um hvernig störfum þeirra verði fyrir komið, hvað í boði verði til tryggingar starfsöryggi þeirra og annarra réttindamála? Ég held að það sé afar mikilvægt að þingmenn fái vitneskju um þá hlið þessa máls sem lýtur að starfsmönnum áður en málið verður afgreitt frá þinginu.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað hafa tíma til að fara betur yfir sérálit Þórðar Friðjónssonar en tíma mínum er því miður að ljúka. Hann gerir í einum sex töluliðum mjög ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til þessa frv. og verkefnaflutnings sem hér á að eiga sér stað við niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar. Þau rök sem hann færir fyrir því að sú leið sem ríkisstjórnin fer sé óskynsamleg eru mjög sannfærandi, herra forseti, og hljóta að verða rædd ítarlega í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar. Rök þessa fyrrum forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar sýna glöggt að ríkisstjórnin er á algjörum villigötum með því að leggja niður þessa stofnun og sannfærir okkur enn og aftur, sem erum á móti því að fara þessa leið, að hér er fyrst og fremst verið að þjóna dyntum hæstv. forsrh.