Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:45:32 (7564)

2002-04-17 10:45:32# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er nokkuð undrandi á ummælum hæstv. utanrrh. og einnig hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um þetta mál. Í staðinn fyrir að ræða efnislega hvað það var, herra forseti, sem forsetinn sagði í ræðu sinni sem er svo ósamrýmanlegt yfirlýstri stjórnarstefnu á Íslandi og stöðu þessa máls í íslenskum stjórnmálum að forsetinn hafi þar lent út af sporinu --- það er ekki tilgreint hér --- fara menn heldur kuldalegum orðum um það að forsetinn skuli hafa leyft sér að reifa málin með þeim hætti sem þarna var gert.

Þarna var um ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðs að ræða. Verið var að ræða um mjög vítt umræðuefni, stöðu lýðræðisins á tímum hnattvæðingar og horfurnar hvað það snertir til ársins 2020. Forseti Íslands var ekki þarna til að tala fyrir stefnu Íslands sérstaklega. Um það var ekki beðið heldur efnislegt innlegg í umræður um þetta mál í almennu samhengi. Það verður að skoða þessi ummæli öll út frá því. Það sem þarna er sagt um Evrópusamband í ræðunni er eingöngu skoðað frá þessum sjónarhóli lýðræðisins og stöðu þess. Það er ekki tiltakanlega umdeilt mál að það sé greiðsluhalli á lýðræðisreikningnum hjá Evrópusambandinu. Um það eru flestir sammála í umræðum um þessi mál, líka eindregnir stuðningsmenn og aðdáendur Evrópusambandsins, nema þá helst hér á Íslandi þar sem menn eru orðnir svo kaþólskir að ekki einu sinni má viðurkenna að á þessu fyrirbæri geti verið einhverjir gallar, t.d. að þessu leyti. Ég held að menn gerðu þá rétt í því að tefla fram kostunum sem þeir sjá við þetta til að vega upp á móti því sem er eiginlega ekki umdeilt, að þarna sé lýðræðishalli á.

Síðan finnst mér það, herra forseti, dálítið sérkennilegt að þeir stjórnmálamenn sem mest væla undan því að ekki megi ræða Evrópumál ætla að ganga af göflunum þegar forseti Íslands leggur slíkri umræðu lið.