Þjóðareign náttúruauðlinda

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:22:23 (7578)

2002-04-17 11:22:23# 127. lþ. 119.4 fundur 578. mál: #A þjóðareign náttúruauðlinda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Í tilefni af fyrirspurn fyrirspyrjanda vil ég vekja athygli á því að rík samstaða var um það í auðlindanefninni sem svo hefur verið kölluð að setja beri ákvæði í stjórnarskrá, stjórnarskipunarákvæði, er lúti að eignarhaldi þjóðarinnar á þar til teknum auðlindum. Það hefur ætíð verið hugsun ríkisstjórnarinnar að þær tillögur sem ríkisstjórnin mundi leggja fram í tilefni af tillögum auðlindanefndar yrðu lagðar fram á haustþingi og að unnið yrði að þeim nú í sumar. Það lýtur þeim lögmálum sem stjórnarskipunarlagabreytingar lúta, að þegar þær hafa verið samþykktar þá beri að rjúfa þing innan tiltölulega skamms tíma. Ég hygg að þingheimi almennt hafi verið það ljóst að þannig yrði að málinu unnið.

Þar sem auðlindanefndin, þar sem ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir, getum við sagt, höfðu sína trúnaðarmenn, komst að sameiginlegri niðurstöðu sem segja má að hafi um margt verið grundvöllur að annarri niðurstöðu nefndarinnar þá er afar sennilegt að ríkisstjórnin muni byggja á, eða a.m.k. hafa ríkulega hliðsjón af, þeirri niðurstöðu sem þar náðist því ella mætti gera því skóna að aðrar niðurstöður nefndarinnar kynnu að vera í uppnámi ef þær grundvallarforsendur sem nefndin bersýnilega lagði mikið upp úr af eðlilegum ástæðum væru brostnar.

Að sjálfsögðu get ég ekki sagt að ríkisstjórnin muni í einu og öllu yfirfæra textann í stjórnarskrárbundna tillögu eða stjórnarskipunartillögu. En ég er ekki að útiloka það. Eðli málsins samkvæmt get ég ekki fullyrt það því ríkisstjórnin þarf að fara yfir málið a.m.k. að formi til og einnig efni og einnig leita til sinna stuðningsflokka í þinginu. En líklegast þykir mér þó, eins og ég sagði, að það hljóti að þurfa að hafa afar mikla hliðsjón af því sem nefndin komst að þannig að grundvöllur starfsins bresti ekki.