Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:38:09 (7585)

2002-04-17 11:38:09# 127. lþ. 119.5 fundur 610. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að karpa um þetta mál við hæstv. forsrh., mér finnst það vera alvarlegra en svo. Í fyrsta lagi vil ég að fram komi að mér hefur ekki verið gerð grein fyrir bréfinu sem hæstv. forsrh. vísar í og mér finnst mikilvægt að umræða verði tekin upp um það á þinginu. Ég mun taka það upp í efh.- og viðskn. þingsins en undir brtt. og þál. sem var samþykkt samhljóða í þinginu skrifuðu eftirtaldir hv. þingmenn: Vilhjálmur Egilsson, Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Sigríður A. Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Ögmundur Jónasson.

Ég er ósammála hæstv. forsrh. um efni tillögunnar, að það sé illskiljanlegt. Mér finnst það fullkomlega skiljanlegt og í greinargerð með þáltill. eins og hún var upphaflega flutt er rækilega tíundað með hvaða hætti hægt er að framkvæma þáltill. Vísað er til þess að í Bretlandi og víða um lönd hefur verið ráðist í rannsóknir og samanburðarrannsóknir á reynslu af einkaframkvæmd og einkavæðingu innan almannaþjónustunnar. Ég get vísað hæstv. forsrh. á slík gögn og slíkar skýrslur máli mínu til stuðnings.

En það sem mér finnst skipta máli hér er að þáltill. var samþykkt á Alþingi samhljóða fyrir nærri tveimur árum, og ég leyfi mér að gera þá kröfu að farið verði að vilja Alþingis í þessu efni. Þetta mál er ekki útrætt af minni hálfu.