Endurskoðun jarðalaga

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:58:18 (7595)

2002-04-17 11:58:18# 127. lþ. 119.8 fundur 561. mál: #A endurskoðun jarðalaga# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. landbrh. út í jarðalög, nr. 65/1976, en í 13. og 14. gr. þeirra laga er að finna eftirfarandi lagaákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

,,13. gr. Þar sem skipting jarðar hefur átt sér stað og bú er ekki rekið á úrskiptum jarðarhluta, er ráðherra heimilt, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, að leyfa eiganda og ábúanda jarðar þeirrar, sem skipt var úr, að fengnum meðmælum jarðanefndar og stjórnar Bændasamtaka Íslands, að leysa til sín hinn úrskipta jarðarhluta og leggja hann til hinnar upphaflegu jarðar. Á sama hátt er eiganda og ábúanda nýbýlis heimilt að leysa til býlis síns það, sem eftir stendur af landi hinnar upphaflegu jarðar, sé ekki rekinn þar sjálfstæður búskapur. Séu nýbýlin fleiri en eitt, getur einn eigandi krafist þess lands, sem ónytjað er samkvæmt framansögðu. Náist ekki samkomulag um verð, skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.

14. gr. Nú er jörð í sameign, en einn sameigenda rekur bú á jörðinni og hefur þar fasta búsetu, og getur ráðherra þá, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna, enda hafi jarðanefnd og stjórn Bændasamtaka Íslands mælt með því. Náist ekki samkomulag um verð á hinum innleystu hlutum, skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.``

Svo mörg er þau orð. Finnst hæstv. ráðherranum að með þessum lagaákvæðum sé ekki vegið nokkuð harkalega að ákvæðum stjórnarskrár Íslands um jafnræði þegnanna og eignarrétt? Er von á því, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrann beiti sér fyrir því að jarðalög verði endurskoðuð á næstunni með tilliti til aðstæðna í þjóðfélaginu í dag?

Ástæða þess að ég ber fram þessa fyrirspurn er að nokkrir aðilar sem telja sig hafa verið beitta miklum órétti í krafti þessara lagaákvæða hafa haft samband við mig. Ég hef leitað mér upplýsinga um hvernig þessu sé farið í nálægum löndum og eftir því sem ég kemst næst eru þvílík ákvæði ekki í gildi þar í dag. Ég sé ekki betur en hér sé verið að brjóta mannréttindi á þeim sem fyrir verða. Þarna eru ábúendum veittar heimildir til að hrifsa til sín eignir annarra nánast bótalaust. Til þess að teljast bóndi er nóg að vera með nokkra hesta á jörðinni eða lítinn kindahóp eða bara vera með ferðaþjónustu af einhverju tagi. Umsagnaraðilar um yfirtöku eru valdir þannig að þeir eru alltaf talsmenn bóndans og meðeigendurnir eiga sér enga talsmenn samkvæmt lögunum.