Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:41:53 (7620)

2002-04-17 13:41:53# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Enn eru málefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins rædd á Alþingi þar sem góð orð hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh. um að finna lausn á rekstrarvanda stöðvarinnar hafa ekki gengið eftir.

Vandi Greiningarstöðvarinnar er eingöngu fjárhagslegur. Faglega stendur stöðin mjög vel og hefur á að skipa góðum, vinnusömum og metnaðarfullum starfsmönnum, mörgum hverjum með langan starfsaldur við stöðina. Þar vantar bara að geta ráðið fleiri.

Þó að Greiningarstöðin hafi fengið loforð fyrir aukafjárveitingu til rekstursins á þessu ári dugar hún ekki til að vinna á biðlistunum og koma þeim í það horf að enginn þurfi að bíða lengur en í þrjá mánuði og að öllum aldurshópum verði sinnt svo að hægt verði að senda sérfræðinga út á land til að sinna meðferð og styðja við skjólstæðinga í heimabyggð.

Það nægir alls ekki að miða auknar fjárveitingar við starfsemina eins og hún var fyrir ári síðan því þá hafði þegar orðið mikil skerðing á starfseminni og biðlistarnir voru óásættanlegir. Það verður að taka tillit til þess að stöðugt greinast fleiri börn sem þurfa á þjónustu Greiningarstöðvarinnar að halda til að fá viðeigandi meðferð og stuðning.

Vandi Greiningarstöðvarinnar er m.a. sá að vera launalega ekki samkeppnisfær við aðra vinnustaði á þessu sviði á hinum frjálsa markaði. Mikil samkeppni er um svo reynda og faglega hæfa starfskrafta og því hefur öll töf á rekstrarlegri lausn málsins mjög alvarlegar afleiðingar fyrir starfsemi og mönnun Greiningarstöðvarinnar. Afleiðingar þrenginga Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hafa ekki látið á sér standa og hafa bitnað með fullum þunga á þeim sem síst skyldi, fötluðum börnum þessa lands og fjölskyldum þeirra.