Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:43:53 (7621)

2002-04-17 13:43:53# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Félmn. Alþingis átti þess kost að skoða Greiningar- og ráðgjafarstöðina í nóvember sl. og það er greinilegt að þar fer fram mjög sérhæft og vandasamt starf. Það var afskaplega upplýsandi fyrir okkur þingmenn að kynna okkur þessa starfsemi. En ég tel jafnframt að það ríki mikill skilningur á starfseminni, jafnt hér í Alþingi og í félmrn.

Ljóst er að vandi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar á sér nokkrar mismunandi uppsprettur. Rétt er að minna á að t.d. stóð til að flytja málaflokk fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og í því samhengi var samið lagafrv. til þess að styrkja stöðu Greiningarstöðvarinnar og þess hóps sem á að njóta þjónustu hennar.

Eins og við vitum varð ekkert af þeim áformum. Því verður að skoða stöðu Greiningarstöðvarinnar í nýju ljósi. Leyst var úr þeim vanda sem stöðin var komin í vegna uppsafnaðs rekstrarhalla með fjáraukalagagerð nú fyrir áramótin og það var aukning á fjárlögum yfirstandandi árs miðað við rekstur síðasta árs.

Nú er verið að vinna að skammtímavandamálum stöðvarinnar sem hafa skapast m.a. af því að starfsmenn eru í fæðingarorlofi og fleira kemur til. Mjög aukin eftirspurn er eftir þjónustu og aukin fjöldi barna sem greinst hafa með einhverfu hefur þar sitt að segja.

Eins og fram hefur komið er búið að auglýsa eftir fleira starfsfólki til stöðvarinnar og því er við því að búast að hægt verði að vinna á þeim biðlistum eftir þjónustu sem hafa myndast nú að undanförnu.

Hæstv. forseti. Nú er mikilvægt að líta til framtíðar. Við verðum að hafa heildarsýn á málaflokkinn og skipuleggja og skilgreina starfsemi stöðvarinnar með það að markmiði að þjónusta geti verið sem best. Það er okkar markmið nú.