Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:48:10 (7623)

2002-04-17 13:48:10# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Við hér inni vitum vel að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er ein af grunnstofnunum samfélagsins. Við þekkjum öll mikilvægi hennar og við vitum öll um þörfina fyrir þjónustu stofnunarinnar, því það er mikil þörf. Við vitum einnig hversu þörfin fyrir þjónustu hefur aukist en að sama skapi hefur því miður ekki fylgt það fjármagn sem hefði þurft. Við vitum líka að stofnunin hefur haft á að skipa afar öflugu fagfólki og fagvinna þar hefur verið eins og best verður á kosið. Slíkt má alls ekki glatast.

Við vitum jafnframt hversu miklu máli skiptir fyrir börn og fjölskyldur þeirra að þau fái greiningu þegar frávik frá þroska er um að ræða til að hægt sé að veita þeim þjónustu við hæfi og sinna þeim þörfum sem eru brýnastar á hverju skeiði fyrir sig í lífi og þroska barna.

Ég veit líka að þingmenn hafa viljað leggjast á árar til að styrkja þessa mikilvægu stofnun. Og ég fullyrði að mjög margir þingmenn voru reiðubúnir til þess að samþykkja aukið fjármagn til stofnunarinnar á síðustu fjárlögum. Því miður var málið kæft en þar var verið að ræða um 24 millj. til þess að koma stofnuninni á réttan kjöl. Því gleðst ég yfir hugmyndum hæstv. félmrh. um fjáraukaheimild.

Við vitum að ef greining fer ekki fram þá er ekki veitt þjónusta í samræmi við þarfir barnanna og það gengur auðvitað ekki. Eins til tveggja ára biðtími er afar langur tími í lífi og þroska lítils barns og því er mikilvægt að bregðast við sem fyrst, slíkt eykur alla möguleika á lífsgæðum barna. Við getum ekki brotið á börnum á þennan hátt. Réttur slíkra barna er alveg jafnmikilvægur og réttur annarra barna, ef ekki mikilvægari.

En mig langar að spyrja hæstv. félmrh. í framhaldi af því sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur:

Hvenær er að vænta breytinga á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þannig að um hana gildi sérlög?

Við vitum vel að í því felast mjög miklir möguleikar fyrir stofnunina til að þróast í takt við þarfir barna og í takt við nýja tíma.