Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:50:25 (7624)

2002-04-17 13:50:25# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Það á að vera forgangsverkefni okkar að standa vörð um velferð þeirra sem minnst mega sín og mesta þörf hafa fyrir þjónustu og stuðning samfélagsins, barna sem búa við fötlun, þroskafrávik eða erfiðleika af öðrum toga. Annað er okkur ekki sæmandi og auk þess í bága við þau réttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að tryggja þessum börnum.

Það liggur nú fyrir að unnið er að því að leysa þann vanda sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur búið við. Hæstv. félmrh. hefur boðað að farið verði fram á viðbótarfjárheimild á fjáraukalögum til að mæta þörfinni, aukinni þörf fyrir þjónustu stofnunarinnar og unnið er að faglegri og fjárhagslegri úttekt á stöðinni. Ég treysti því að hún verði til þess að leggja grunn að enn öflugri starfsemi stöðvarinnar og enn betri þjónustu. Fullur pólitískur vilji er til þess að tryggja skjólstæðingum stöðvarinnar þá bestu þjónustu sem völ er á.

Þörf er á að stöðug umræða sé í gangi um jafnmikilvæg mál og þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, en það skiptir líka miklu máli að sú umræða sé fagleg.

Einnig er löngu orðið tímabært að ræða heildstætt vanda barna í grunnskóla sem þurfa á ýmiss konar sérfræðiþjónustu og öðrum stuðningi að halda. Sveitarfélögunum ber að sjá skólum fyrir sérfræðiþjónustu samkvæmt reglugerð þar um og sérfræðingurinn á að vinna bæði að forvarnastarfi í samvinnu við starfsmenn skóla, m.a. með kennslufræðilegum og sálfræðilegum athugunum og hann á líka að vinna að greiningu nemenda sem eiga í erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Þeir eiga einnig að gera tillögur um viðeigandi meðferð og úrræði og til viðbótar öllu öðru eiga þeir jafnframt að gefa forráðamönnum kost á leiðbeiningum um uppeldi nemenda.

Samkvæmt reglugerðinni er lágmarsviðmið um slíka þjónustu að það sé einn sálfræðingur eða annar sérfræðingur sem sinni 1.400 börnum. Menn geta rétt ímyndað sér hvað mikið vantar upp á að þessi þjónusta standi undir nafni og þeim verkefnum sem henni eru ætluð og hver biðin er víða eftir slíkri þjónustu. Jafnframt er augljóst að því meira sem upp á vantar að þessi þjónusta mæti þörfinni í hverjum skóla, því meiri er þörfin eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar.