Breyting á reglugerð nr. 68/1996

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:52:39 (7639)

2002-04-17 14:52:39# 127. lþ. 121.1 fundur 529. mál: #A breyting á reglugerð nr. 68/1996# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. 1. janúar sl. tók gildi breyting á reglugerð nr. 68/1996, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Reglugerðin fól það í sér að læknar fengju ekki greitt sérstaklega fyrir útgáfu læknisvottorða eins og áður hafði verið, það væri hluti af vinnuskyldu þeirra.

Sú stefna að koma öllum vottorðagreiðslum í föst laun lækna er út af fyrir sig í lagi. En það hlýtur þó að gerast þannig að laun þeirra taki mið af slíkum breytingum, annars er um að ræða kjaraskerðingu sem ekki lá fyrir við gerð gildandi kjarasamnings. Fráleitt er að hægt sé að taka ákvörðun sem þessa án samráðs eða samninga við lækna.

Breytingin sem tók gildi 1. janúar gerði ekki ráð fyrir að kjör heilsugæslulækna yrðu bætt um leið og reglugerðin tók gildi. Þetta hefur eðlilega valdið óánægju meðal þeirra. En ráðuneytið lét ekki staðar numið við þessa breytingu. 22. mars kom önnur breyting á sömu reglugerð þar sem kveðið er á um að þessar breytingar sem gerðar voru varðandi greiðslur fyrir vottorð nái aðeins til þeirra sem starfa í heilsugæslunni.

Virðulegi forseti. Þetta eru með öllu óskiljanleg vinnubrögð. Heilsugæslulæknar hafa um langt skeið búið við allt önnur og lakari kjör en aðrir sérfræðingar. Það hefur m.a. leitt til þess að erfitt reynist að fullmanna þær stöður sem eru í heilsugæslunni, þessari mikilvægu þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Í breytingunni, eins og staðið var að henni, felst ákveðin lítilsvirðing við störf þessarar stéttar. Leitað hefur verið álits umboðsmanns Alþingis á þessari nýjustu breytingu, kjaraskerðingu sem aðeins á að ná til þeirra sérfræðinga sem starfa í heilsugæslu en ekki annarra sérfræðinga. Í svörum frá umboðsmanni Alþingis hefur komið fram að hann hafi þegar haft samband við ráðuneytið vegna þessa máls.

Virðulegi forseti. Það er ólíðandi að sérfræðingum sem vinna á heilsugæslu sé gert að búa við önnur kjör en aðrir sérfræðingar í heilbrigðisþjónustunni búa við. Það mun veikja heilbrigðisþjónustuna í heild sinni og er ekki sá sparnaður sem vænast er sé horft til framtíðar. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem segir:

1. Hversu háum fjárhæðum er áætlað að útgáfa læknisvottorða skili heilsugæslunni eða heilbrigðisstofnunum eftir breytingar á reglugerð nr. 68/1996, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi 1. janúar sl.?

2. Hvað er áætlað að tekjur heilsugæslulækna skerðist mikið við þessar breytingar og er ætlunin að bæta þeim tekjuskerðinguna með einhverju móti?

3. Hyggjast heilsugæslulæknar láta af störfum vegna breytinganna? Ef svo er, hve margir hyggjast hætta og hvernig ætlar ráðuneytið að bregðast við því?