Breyting á reglugerð nr. 68/1996

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:55:38 (7640)

2002-04-17 14:55:38# 127. lþ. 121.1 fundur 529. mál: #A breyting á reglugerð nr. 68/1996# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, beindi til mín spurningu varðandi útgáfu læknisvottorða og launakjör heilsugæslulækna.

Spurt er: ,,Hversu háum fjárhæðum er áætlað að útgáfa læknisvottorða skili heilsugæslunni eða heilbrigðisstofnunum eftir breytingar á reglugerð nr. 68/1996, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi 1. janúar sl.?``

Því er til að svara að breytingin 1. janúar hafði ekki í för með sér breytingar á því að gjöld fyrir læknisvottorð rynnu til heilsugæslustöðva, eingöngu var verið að skerpa á þeirri meginreglu að gjöld sem sjúklingar greiða fyrir þjónustu á heilsugæslustöð skuli greiða stöðinni sjálfri. Í ljós hefur komið að gjöld fyrir hluta vottorða hafa ekki í öllum tilvikum runnið til stöðvanna sjálfra heldur hafa þau runnið til heilsugæslulækna.

Á liðnu ári bárust ráðuneytinu kvartanir frá einstaklingum og samtökum vegna þess að viðkomandi töldu hækkanir á gjaldskrám lækna fyrir vottorð vera óeðlilegar og voru af hálfu sumra settar fram efasemdir um réttmæti einhliða hækkana umfram það sem almennt gilti um gjald fyrir útgáfu vottorða. Því er ekki fyllilega ljóst hversu hárri fjárhæð útgáfa læknisvottorða mundi skila heilsugæslustöðvum eða heilsustofnunum.

Hv. þm. spurði einnig um ætlaða skerðingu á tekjum heilsugæslulækna við þessar breytingar og hvort ætlunin væri að bæta þeim tekjuskerðinguna með einhverju móti.

Ekki liggur fyrir hvort um tekjuskerðingu allra lækna verður að ræða. Tekjur vegna tiltekinna vottorða hafa, eins og áður segir, í mörgum tilvikum runnið til heilsugæslulækna og þar af leiðandi ekki verið færðar til tekna í bókhaldi heilsugæslustöðva eða heilbrigðisstofnana. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá júlí 2001, um greiðslur opinberra aðila til lækna á árinu 2000, kemur reyndar fram að heilsugæslulæknar fái engar greiðslur beint frá sjúklingum. Á einstaka stað hafa greiðslur fyrir vottorð þó verið færðar á viðskiptareikning viðkomandi læknis í bókhaldi stofnunar en í þeim tilvikum má ætla að tekjur fyrir vottorð geti verið á bilinu 200--500 þús. kr. á ári.

Vegna framangreinds hef ég óskað eftir því við kjaranefnd að hún úrskurði heilsugæslulæknum laun fyrir vinnu við vottorð í þeim tilvikum þar sem úrskurður kjaranefndar frá 3. mars 1998 hefur ekki gert ráð fyrir greiðslum til heilsugæslulæknanna. Kjaranefnd hefur málið til meðferðar og er úrskurður varðandi launaþáttinn ókominn. Hins vegar hefur kjaranefnd fellt þann úrskurð að útgáfa á vottorðum sé hluti af aðalstarfi heilsugæslulækna og þeim sé ekki heimilt að taka sérstaka þóknun fyrir útgáfu vottorða, umfram það sem kjaranefnd úrskurðar.

Hv. þm. spyr að síðustu hvort og þá hve margir heilsugæslulæknar hyggist láta af störfum vegna þessara breytinga og hvernig ráðuneytið ætli að bregðast við því.

Því er til að svara að ráðuneytinu hefur borist bréf frá samtals 34 læknum þar sem fram kemur að þeir telji að með því ákvæði reglugerðarinnar sem kveður á um að tekjur fyrir vottorð á eyðublöðum Tryggingastofnunar ríkisins skuli renna til stofnunar hafi ráðningarsamningi þeirra verið sagt upp. Það er af og frá að hægt sé að túlka reglugerðarbreytinguna um áramótin sem ígildi uppsagnar, enda hefur heilsugæslulæknum, samtökum þeirra og reyndar Læknafélaginu, verið tilkynnt með beinum og óbeinum hætti að svo sé ekki.

Ráðuneytið hefur í þrígang, fyrst með bréfi dagsettu 18. desember 2001, farið þess á leit við kjaranefnd að launakjör heilsugæslulækna verði tekin til endurskoðunar og tekið verði tillit til tekna sem heilsugæslulæknar hafi af útgáfu læknisvottorða. Er þess vænst að úrskurður þar um liggi fyrir fljótlega og gildi frá 1. janúar.

Að gefnu tilefni er rétt að undirstrika að að mati lögfræðinga ráðuneytisins var nauðsynlegt að hnykkja á reglum um greiðslur fyrir útgáfu vottorða. Ég vil einnig ítreka það sem ég hef áður sagt um starfskjör heilsugæslulækna, að standi vilji þeirra til að skipa málum með öðrum hætti en með kjarnanefndarúrskurði er ég tilbúinn að leggja þeim lið í þeim efnum.