2002-04-17 15:17:48# 127. lþ. 121.20 fundur 660. mál: #A öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Eðli máls samkvæmt er ekki hægt að gefa fyrirspyrjanda á þessum vettvangi ítarlegar eða nákvæmar upplýsingar um öryggisráðstafanir lögreglu eða annarra í tengslum við utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í maí næstkomandi, enda er um að ræða upplýsingar sem bundnar eru trúnaði. Ég vil þó upplýsa að dómsmrh. og utanrrh. fólu á síðasta ári ríkislögreglustjóra yfirstjórn löggæsluverkefnisins og hefur ríkislögreglustjóri unnið að undirbúningi öryggisgæslu í samráði við lögregluliðin á suðvesturhorni landsins.

Hér er um umfangsmikinn fund að ræða en hátt í 50 ráðherrar og háttsettir embættismenn munu mæta til fundarins frá jafnmörgum ríkjum. Öryggisráðstafnir eru í samræmi við umfang fundarins, en alþjóðlegar reglur sem farið er eftir við slík tækifæri mæla fyrir um að stranglega skuli tryggja öryggi þessara gesta og það dregur ekki úr þeim þrýstingi sem við, sem gestgjafar fundarins, þurfum að mæta að eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september búum við í breyttum heimi. Öryggisgæsla lögreglu á fundinum mun eðlilega taka mið af þeirri stöðu.

Hvað varðar kostnað vegna löggæslu á fundinum er rétt að rifja það upp að á fjárlögum þessa árs eru veittar 50 millj. kr. vegna kostnaðar við öryggisgæsluna á fundinum. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort sú fjárveiting er nægjanleg, en vissulega verður reynt að halda kostnaðinum innan þeirra marka. Sundurliðun vegna einstakra kostnaðarliða liggur ekki endanlega fyrir en í grófum dráttum skiptist fjárveitingin í búnaðarkaup og laun fyrir viðbótarvinnuframlag lögreglumanna sem sérstakt álag vegna fundarins skapar, samtals 45 millj. kr., og síðan þjálfun og annan undirbúning vegna fundarins, samtals 5 millj. kr.

Til upplýsingar um umfangið í heild sinni er gert ráð fyrir því að þegar mest verður komi 330 lögreglumenn að löggæslu vegna fundarins. Til samanburðar má geta þess að síðast þegar utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn hér á landi árið 1987 komu 250 lögreglumenn að löggæslunni. Þá mættu til fundarins 16 ríki, en til fundarins nú mæta ráðherrar frá 46 ríkjum Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess. Umfangið nú er því eðlilega mun meira.

Hv. fyrirspyrjandi óskar í síðasta lagi eftir upplýsingum um þjálfun lögreglu fyrir fundinn. Mikilvægur þáttur í undirbúningi ríkislögreglustjóra hefur verið að halda þjálfunar- og kennslunámskeið fyrir lögreglumenn og snýr sú þjálfun að öllum atriðum í tengslum við fund af þeirri stærð sem hér um ræðir. Þeir lögreglumenn sem sinna löggæslu á fundinum verða því undir það búnir að sinna öllu því sem upp getur komið í tengslum við fundinn, þar á meðal að takast á við óeirðir ef slíkt kemur upp.

Það er mat þeirra sem koma að undirbúningi öryggisgæslu að ekki séu líkur á óeirðum. En í ljósi þess að slíkt er ekki útilokað væri það ábyrgðarleysi ef lögreglan byggi sig ekki undir að slíkt gæti komið upp.

Rétt er að taka það fram að öryggisráðstafanir lögreglu miða ekki að því að kveða niður eða torvelda friðsamleg mótmæli. Það er sjálfsagt og eðlilegt í opnu lýðræðisríki þar sem tjáningarfrelsi ríkir að menn geti komið skoðunum sínum á framfæri óhindrað og mun lögreglan eiga góða samvinnu við þá aðila sem hyggjast standa fyrir friðsamlegum mótmælum í tengslum við þennan fund og skapa þeim aðstöðu til þess.

Það hefur hins vegar færst í vöxt og það hefur væntanlega ekki farið fram hjá hv. þm. að friðarspillar hafa sótt opinbera fundi um allan heim að undanförnu eingöngu í þeim tilgangi að efna til ofbeldis- og skemmdarverka. Þeim hefur tekist að dyljast á meðal friðsamra mótmælenda og í rauninni misnota sér hin friðsömu mótmæli í þeim tilgangi að koma af stað uppþotum. Það er því ekki síður hlutverk lögreglu að vernda friðsama mótmælendur fyrir slíkum hópum sem einungis hafa það að markmiði að koma af stað uppþotum og beita ofbeldi sem bitnar jafnt á hinum friðsömu mótmælendum og þeim lögreglumönnum sem stilla eiga til friðar.