Kísilvegur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:47:47 (7683)

2002-04-17 18:47:47# 127. lþ. 121.10 fundur 591. mál: #A Kísilvegur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur lagt fram fyrirspurn sem hann hefur gert grein fyrir, sem er í fyrsta lagi: ,,Hver eru áform Vegagerðarinnar um framkvæmdir á Kísilvegi á næstu árum, og hvenær er áætlað að ljúka fullnaðaruppbyggingu þessa vegar með bundnu slitlagi?``

Svar mitt er þetta: Kísilvegur er stofnbraut og liggur úr Mývatnssveit niður á Norðausturveg hjá Laxamýri. Hann er 46 km á lengd og 26,6 km eru lagðir bundnu slitlagi, eins og fram kom hjá hv. þm., en um 19,5 km eru enn malarvegur. Sá kafli sem enn er malarvegur er frá slitlagsenda upp í Mývatnssveit og að slitlagsenda fyrir neðan Geitafell eða um Hólasand allan. Í Reykjahverfi er allur vegurinn með bundnu slitlagi. Áætlað er að kostnaður við að ljúka endurbyggingu vegarins sé um 300--400 millj. kr., nokkuð háð því hve miklar breytingar á veglínu verður talið nauðsynlegt að gera.

Í vegáætlun fyrir árin 2000--2004, sem nú er í endurskoðun, er 56 millj. kr. fjárveiting árið 2002 til framkvæmda á Kísilvegi. Kísilvegur var ekki meðal þeirra vega sem skilgreindir voru sem stórverkefni við gerð langtímaáætlunar í vegagerð til 2010 sem samþykkt var á Alþingi 1998. Í samræmi við það hafa fjárveitingar til hans komið af almennum verkefnum í kjördæminu. Vegurinn er hins vegar talinn til grunnnets í tillögu stýrihóps að samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014.

Í samræmi við frv. til laga um samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi á að leggja fram tillögu að samgönguáætlun 2003--2014 á næsta þingi svo og tillögu að fjögurra ára áætlun hennar. Við þá áætlanagerð hlýtur Kísilvegur að koma til skoðunar eins og aðrir vegir í grunnnetinu og þá kemur til kasta hv. þingmanna hvað það varðar.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Eru uppi áform um að auka vetrarþjónustu á þessum vegi, t.d. með snjómokstri alla daga vikunnar?``

Svar mitt er þetta: Samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar frá desember 2001 er Kísilvegur mokaður fimm daga í viku, þ.e. alla daga nema þriðjudaga og laugardaga og hefur svo verið sl. þrjú ár. Möguleiki er á tilfærslu á dögum í samráði við heimamenn. Snjómokstursreglur eru endurskoðaðaðar á nokkurra ára fresti. Ekki liggur fyrir á þessu stigi ákvörðun um endurskoðun reglnanna og þá heldur ekki áform um aukna þjónustu á einstökum leiðum.

Snjómoksturstíðni á Kísilvegi er hin sama og er á leiðinni frá Húsavík um Melrakkasléttu og allt til Bakkafjarðar. Á hringvegi um Mývatnsheiði og áfram frá Mývatni austur á Egilsstaði var við síðustu endurskoðun snjómokstursreglna, þ.e. á síðasta ári, bætt við einum degi þannig að mokað er sex daga í viku þá leið, sem er breyting frá því sem áður var. Sama gildir um veginn frá hringvegi til Vopnafjarðar og raunar einnig milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar, en þar var komið til móts við sérstakar óskir heimamanna vegna samnýtingar grunnskólanna. Með síðustu breytingum á snjómokstursreglum var þjónusta aukin, vetrarþjónusta á umræddu svæði sem var talið afar mikilvægt og ég vænti þess að heimamenn hafi verið sáttir við.