Atvinnuleysistryggingasjóður

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:29:39 (7698)

2002-04-17 19:29:39# 127. lþ. 121.19 fundur 646. mál: #A Atvinnuleysistryggingasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Álitsgerð Sigurðar Líndals prófessors um réttarstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs var afhent mér í lok janúar sl. Í kjölfarið hafa fulltrúar félmrn. haldið fundi með fulltrúum fjmrn. og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem farið hefur verið yfir málin. Á fundinum með fulltrúum sjóðstjórnar lýstu þeir áhyggjum af því að fé Atvinnuleysistryggingasjóðs væri ekki nægjanlega sérgreint í ríkissjóði.

[19:30]

Af því tilefni ritaði félmrn. bréf til fjmrn. þar sem óskað var eftir því að það staðfesti með skýrum hætti að sá hluti tryggingagjaldsins sem renna skal í Atvinnuleysistryggingasjóð og er innheimtur á grundvelli laga um tryggingagjald væri sérgreindur í ríkisreikningi og óheimilt að ráðstafa því fé til annarra en Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Svar hefur borist frá fjmrn. þar sem staðfest var að Ríkisbókhald hefur árlega reiknað út á grundvelli laga um tryggingagjald stöðu óhafins hluta atvinnutryggingagjalds sem markað er til hans. Jafnframt eru sjóðnum færðir til tekna vextir af útistandandi fjárhæð miðað við mánaðarlega stöðu. Vaxtareikningur miðast við vexti ríkisvíxla í útboðum að frádregnu álagi vegna kostnaðar sem nemur 0,25%. Þá er í ríkisreikningi með sérstöku yfirliti gerð grein fyrir stöðu óhafinna framlaga rétthafa markaðra tekna þar sem fyrrgreind krafa Atvinnuleysistryggingasjóðs á ríkissjóð kemur fram. Er sá hluti atvinnuleysistryggingagjaldsins sem ekki þarf að ráðstafa á hverjum tíma til verkefna sjóðsins því sérgreindur í ríkisreikningi sem krafa sjóðsins á ríkissjóð.

Í sambandi við stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs vil ég segja þetta: Meginreglan er sú að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé sérstaklega lögum undanskilin, sbr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Í framkvæmd hefur þó löggjafanum verið talið heimilt að ákveða með lögum að tiltekin starfsemi, t.d. stofnun eða stjórnsýslunefnd, skuli vera sjálfstæð og þar með undanskilin yfirstjórn ráðherra. Beiti löggjafinn þessari heimild sinni afléttir hann jafnframt ráðherraábyrgð af hlutaðeigandi ráðherra, svo og þinglegri ábyrgð gagnvart Alþingi.

Ekki var það vilji löggjafans við setningu laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, að Atvinnuleysistryggingasjóður stæði utan við stjórnsýsluna án ráðherraábyrgðar og væri sjálfstæður sjóður. Verður því að telja sjóðinn eign ríkisins og að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum hans enda ekki í lögum að finna takmörkun á henni.

Þessi skilningur var áréttaður með bréfi fjmrn. 23. janúar 2001. ,,Skorti Atvinnuleysistryggingasjóð fé ber ríkissjóður ábyrgð á skuldbindingum hans.`` Þessu til stuðnings er kveðið á um það í lögum að félmrh. og fjmrh. komi að ákvörðunum um fjárþörf og ráðstöfun fjár sjóðsins.

Því ber að taka fram að þótt tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs séu sérgreindar með lögum og þar með sé á forræði Alþingis að taka ákvörðun um tekjur hans verður ekki litið svo á að hann sé þar með öllu óháður framlögum úr ríkissjóði. Í þessu sambandi má ekki gleyma því að fjármál ríkisins eru í megindráttum ákveðin af Alþingi samanber fjárlögin og það sama á við um alla skattheimtu, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Í þessu tilliti hefur Atvinnuleysistryggingasjóður enga sérstöðu en hann byggist á skattheimtu í skjóli valdheimilda ríkisins sem verður að kveða á um í lögum. Þegar um sérgreindan skatt er að ræða er ekki heimilt að nýta þá fjármuni til annars en lög ákveða. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þeir séu áfram sérgreindir í vörslu ríkissjóðs þar til þeirra gerist þörf nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Hvað varðar stöðu sjóðsins samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins fólu lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, m.a. í sér umfangsmiklar breytingar á flokkun ríkisaðila í ríkisreikningi og á ýmsan hátt fyllri skilgreiningu á því hvað telst ríkisaðili og ríkisstarfsemi. Starfsemi ýmissa ríkisaðila var endurskilgreind og flokkun þeirra breytt þannig að utan A-hluta ríkissjóðs falla nú einungis þeir ríkisaðilar sem starfa á sviði viðskipta og byggja tekjur sínar á sölu vöru eða þjónustu á almennum markaði. Af þessum ástæðum var m.a. óhjákvæmilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður færðist við gildistöku laganna úr B-hluta ríkisreiknings yfir í A-hluta hans með vísan til þess að starfsemi hans fellur beint undir hina almennu skilgreiningu sem er að finna í 1. tölul. 3. gr. laganna.