Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 10:56:11 (7726)

2002-04-18 10:56:11# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar menn velta fyrir sér og leita skýringa á því af hverju matvöruverð er hærra hér og í Noregi en í Evrópusambandslöndum eins og hv. frummælandi gerði er út af fyrir sig eðlilegt að velta fyrir sér hvort aðild að Evrópusambandinu skipti þar höfuðmáli. Ég skal ekki útiloka að það geti haft töluverð áhrif eða a.m.k. einhver áhrif en ég er þó á þeirri skoðun að önnur atriði hafi mun meiri áhrif til að skýra þennan mun, fyrst og fremst þau að þetta eru fámenn lönd og stór að flatarmáli með breiða íbúabyggð. Ég held að þau atriði skýri meira hærra verð en hitt atriðið sem framsögumaður nefndi.

Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að í þessum tveimur löndum, Noregi og Íslandi, hefur kaupmáttur vaxið mjög mikið á síðustu árum og mun meira en í þeim löndum sem borin voru hér saman við. Ég held að það bendi til þess að efnahagsstjórn og atvinnulíf sé með þeim hætti að lífskjör þróist a.m.k. jafn vel ef ekki betur í þessum löndum þrátt fyrir að menn séu ekki aðilar að Evrópusambandinu. Ég held að kannski þurfi að horfa á önnur atriði sem tengjast fámenni og fákeppni, sem er hin mikla samþjöppun á atvinnumarkaði, og hin sterku eignatengsl á milli smásöluverslunar annars vegar og safn- og dreifingarverslunar hins vegar. Mér sýnist hún hafa leitt til þess að haldið hafi verið uppi matvöruverði umfram það sem tilefni gefur til eins og ævinlega gerist þegar ekki er ríkjandi nægileg samkeppni milli aðila í verslun eins og ætla má að sé hér á landi. Það held ég að sé okkar stærsta áhyggjuefni, að glíma við afleiðingar af fákeppninni sem ríkir á íslenskum markaði í þessari atvinnugrein.